• mið. 02. jún. 2021
  • Agamál

Sekt vegna opinberra ummæla forráðamanns/stuðningsmanns

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 5/2021. Hefur aga- og úrskurðarnefnd sektað knattspyrnudeild Völsungs um kr. 75.000,- vegna opinberra ummæla forráðamanns/stuðningsmanns Völsungs í tengslum við leik Hauka og Völsungs í 2. deild karla þann 21. maí 2021.

Úr niðurstöðu í máli nr. 5/2021:

„Að virtri greinargerð frá bæði framkvæmdastjóra KSÍ og knattspyrnudeild Völsungs ásamt öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að tilvitnuð opinber ummæli, sem forráðamaður/ stuðningsmaður Völsungs, viðhafði á twitter síðu sinni þann 21. maí sl. í tengslum við leik Hauka og Völsungs í 2. deild karla, hafi verið ósæmileg og hafi skaðað ímynd íslenskrar knattspyrnu. Samkvæmt þessu falla ummælin undir ákvæði 20. gr. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Hvort brot leiði til ábyrgðar félags á hegðun forráðamanns/stuðningsmanns horfir aga- og úrskurðarnefnd til greinar 4.2. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Samkvæmt því er sérhvert félag ábyrgt fyrir framkomu leikmanna, forráðamanna, félagsmanna og stuðningsmanna sinna og allra þeirra sem hafa hlutverk á vegum þess í tengslum við kappleik. Fyrir liggur að viðkomandi gegnir störfum á vegum knattspyrnudeildar Völsungs, m.a. sem dómari og með setu í fjölmiðlaráði meistaraflokka og því ljóst að skilyrði áðurnefndrar gr. 4.2. um tengsl við félag eru uppfyllt.  Ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ á fundi sínum 1. júní 2021 að sekta Knattspyrnudeild Völsungs um kr. 75.000,- vegna framangreindra opinberra ummæla.“

Úrskurður í máli nr. 5/2021