• mán. 09. ágú. 2021
  • Landslið
  • U17 kvenna

Magnús Örn Helgason ráðinn þjálfari U17 kvenna

KSÍ hefur ráðið Magnús Örn Helgason sem þjálfara U17 landsliðs kvenna og hefur hann störf 10. september næstkomandi.

Magnús Örn er 32 ára gamall Seltirningur sem lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun. Magnús er með UEFA-A og UEFA-Youth þjálfaragráður, B.Sc í íþróttafræði og hefur hann þjálfað flesta aldurshópa hjá Gróttu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Síðustu ár hefur Magnús komið að starfi yngri landsliðanna, m.a. greiningarvinnu og annarri aðstoð í verkefnum U17 kvenna, auk æfinga, úrtökumóta og kennslu á þjálfaranámskeiðum. Magnús Örn hefur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Gróttu síðustu þrjú ár og lætur hann af því starfi að loknu yfirstandandi keppnistímabili.

KSÍ býður Magnús Örn velkominn í hóp landsliðsþjálfara.

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.