• þri. 10. ágú. 2021

2256. fundur stjórnar KSÍ - 9. ágúst 2021

2256. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn mánudaginn 9. ágúst 2021 og hófst kl. 12:00. Fundurinn fór fram með fjarfundabúnaði.

Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Fjarverandi: Orri Hlöðversson.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar.

1.1 Fundargerð síðasta stjórnarfundar var samþykkt á milli funda á rafrænan hátt af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2. Fundargerðir nefnda og starfshópa voru lagðar fram til kynningar.

2.1 Dagskrárlið frestað.

3. Reglugerðir.

3.1 Gísli Gíslason formaður laga- og leikreglnanefndar ræddi um breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga (samningsbrot leikmanna o.fl.). Málið er ennþá í samráðsferli en stefnt er að því að málið verði tekið til afgreiðslu á næsta stjórnarfundi.

3.2 Stjórn KSÍ samþykkti breytingu á ákvæðum í reglugerð um knattspyrnumót:

23.gr. Meistaraflokkur karla

23.2. Bikarkeppni KSÍ

23.2.7. Úrslitaleikur bikarkeppninnar skal fara fram á Laugardalsvelli í ágúst eða september. Mótanefnd KSÍ annast framkvæmd leiksins í samráði við leikaðila.

29.gr. Meistaraflokkur kvenna

29.2. Bikarkeppni KSÍ

29.2.8. Úrslitaleikur bikarkeppninnar skal fara fram á Laugardalsvelli í ágúst eða september. KSÍ annast framkvæmd leiksins í samráði við leikaðila.

4. Mótamál.

4.1 Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fór yfir það sem er efst á baugi í mótamálum. Nokkuð hefur verið um frestanir vegna Covid-19. Reynt hefur verið að finna nýja leikdaga eins fljótt og auðið er þannig að óleiknir leikir safnist ekki upp. Í dag er staðan sú að eftir á að finna 6 leikjum nýjan leikdag. Aðildarfélögin hafa staðið sig mjög vel í þessum þrengingum og samvinna við félögin verið góð. Unnið hefur verið eftir ákvæðum í Reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórunuveiru Covid-19.
Rætt um ákvæði um grímuskyldu á leikjum. Almennt hefur aðsókn á knattspyrnuleiki á covid-tímum verið undir væntingum. Rætt um hvernig auka megi mætingu á völlinn.

5. Rætt um landsliðsmál.

5.1 Guðni Bergsson formaður KSÍ opnaði umræðuna og ræddi um landsliðsmál.

5.2 Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fór yfir komandi landsliðsverkefni og helstu áskoranir þeim tengdum.

Meðal þess sem var rætt var:

- óvissa varðandi áhorfendatakmarkanir og miðasölu. Ef takmarkanir á fjölda áhorfenda verða sambærilegar við þær sem eru í gildi núna þá hefur það veruleg neikvæð áhrif á tekjur sambandsins og afkomu ársins

- búbblu-umhverfi landsliðanna á heimavelli og sá mikli umframkostnaður sem til fellur vegna þess

- auknar kröfur tengdar tvöfaldri sjónvarpsendingu á leiknum við Þýskaland og tilfallandi kostnað. Sama gildir með tilkomu VAR á leikjunum

- vandræði við að fá fullnægjandi varaflstöð fyrir landsleiki á Laugardalsvelli og sá mikli tilkostnaður sem fylgir

- álag á starfsmenn sambandsins m.a. vegna búbblu-umhverfis fulltrúa UEFA

- aðstæður á þjóðarleikvanginum varðandi til dæmis óviðundandi aðstöðu áhorfenda, veitingasölu o.fl. Þá var rætt um þær athugasemdir sem KSÍ fékk frá UEFA vegna aðstöðu á vellinum sl. haust.

Þá fór Klara yfir ráðningarferlið á landsliðsþjálfara U17 kvenna og niðurstöðu málsins með stjórn sambandsins.

5.3 Rætt var um mönnun ferða yngri liðanna (fararstjóra) til útlanda, sem oft hefur gengið betur.

6. Önnur mál

6.1 Ásgeir Ásgeirsson formaður samninga- og félagaskiptanefndar kynnti stjórn erindi sem barst nefndinni varðandi undanþágu fyrir félagaskipti leikmanns utan glugga skv. grein 10.3. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Málið var rætt í þaula. Stjórn var sammála nefndinni að rétt sé að setja viðmiðunarreglur reglugerðinni til uppfyllingar en að slíkar reglur þurfi að staðfesta á milli keppnistímabila.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 13:20.