• sun. 10. okt. 2021
  • Landslið
  • A karla

KSÍ býður 16 ára og yngri frítt á leik Íslands og Liechtenstein

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

KSÍ hefur ákveðið að bjóða 16 ára og yngri ókeypis aðgang á leik Íslands og Liechtenstein, sem fram fer á Laugardalsvelli á mánudag kl. 18:45. Um er að ræða leik í undankeppni HM 2022. KSÍ vill nota tækifærið og þakka þeim sem mættu á leik liðsins við Armeníu á föstudag kærlega fyrir komuna og ómetanlegan stuðning við ungt landslið Íslands. Vonandi sjá fleiri sér fært að mæta á leikinn við Liechtenstein á mánudag.

Miðakaupendur sem þegar hafa keypt miða á leikinn fyrir 16 ára og yngri geta haft samband við skrifstofa@ksi.is og haldið sínum miðum, en fengið kaupverðið endurgreitt. Fram þurfa að koma upplýsingar um kaupanda og númer miðapöntunar.

Þau sem eiga eftir að kaupa miða á leikinn gera það í gegnum Tix.is og klára ferlið fyrir hefðbundin miðakaup, þar sem fram kemur að miðaverð fyrir 16 ára og yngri er 0 krónur. Vegna COVID takmarkana þurfa allir vallargestir að hafa miða.

Tengill inn á miðasöluna - Tix.is - Ísland - Liechtenstein - Velja miða

Með því að bjóða 16 ára og yngri ókeypis aðgang á þann leik vill KSÍ reyna að fjölga fólki í stúkunni og koma til móts við stuðningsmenn til að tryggja að leikmenn íslenska liðsins fái sem besta hvatningu úr stúkunni, eins og þeir eiga skilið.