• mán. 31. jan. 2022
  • Ársþing
  • Stjórn

Kosningar í stjórn og fulltrúa landsfjórðunga á 76. ársþingi KSÍ

76. ársþing KSÍ verður haldið að Ásvöllum í Hafnarfirði 26. febrúar næstkomandi.  Framboð til stjórnar KSÍ skal skv. 15. grein laga KSÍ berast skrifstofu KSÍ skriflega minnst hálfum mánuði fyrir þing eða í síðasta lagi 12. febrúar nk. Kjörnefnd er þó heimilt að samþykkja framboð sem fram kemur síðar ef nægjanlegur fjöldi hefur ekki tilkynnt framboð sitt innan tilkynningarfrests, sbr. grein 15.4 í lögum KSÍ.

Stjórn KSÍ er kosin á knattspyrnuþingi og hafa allir kjörnir fulltrúar atkvæðisrétt.

Framkvæmd kosninga í stjórn KSÍ

Samkvæmt grein 15.1 í lögum KSÍ skal kosning til stjórnar fara þannig fram:

  • a. Kosning formanns, annað hvert ár, til tveggja ára í senn. Formaður skal ekki sitja lengur en sex kjörtímabil samfleytt.
  • b. Kosning fjögurra manna í stjórn til tveggja ára.
  • c. Kosning 3ja manna til vara í stjórn til eins árs.

Á fundi stjórnar KSÍ þann 29. ágúst 2021 ákvað þáverandi formaður KSÍ, Guðni Bergsson, að segja af sér og lét hann þegar af störfum. Á fundi stjórnar KSÍ þann 30. ágúst 2021 ákváðu þáverandi stjórn og varamenn í stjórn að segja af sér.

Á aukaþingi KSÍ þann 2. október 2021 var Vanda Sigurgeirsdóttir kosin formaður KSÍ til bráðabirgða, átta einstaklingar sjálfkjörnir í stjórn KSÍ til bráðabirgða sem og þrír varamenn í stjórn.

Fyrir liggur að kjósa þarf formann auk átta einstaklinga í stjórn en ekki fjóra eins og lög KSÍ gera ráð fyrir á ársþingi KSÍ þann 26. febrúar nk. Því mun kjörnefnd leggja til við þingforseta í upphafi þings að bera eftirfarandi afbrigði um kosningu til stjórnar undir þingheim:

  • Ef fleiri en átta framboð koma fram til stjórnar kjósi hver og einn þingfulltrúi þá átta frambjóðendur sem viðkomandi vill að taki sæti í stjórn KSÍ. Leggur kjörnefnd til að fjórir efstu frambjóðendur í kjörinu, þ.e. þeir frambjóðendur sem hafa flest atkvæði að baki sér, fái sæti í stjórn til tveggja ára og næstu fjórir til eins árs.
  • Ef greidd atkvæði skera ekki úr um hvaða frambjóðendur ná kjöri í stjórn vegna jafnra greiddra atkvæða að baki þeim, mun kjörnefnd leggja til að kosið verði sérstaklega á milli þeirra frambjóðenda sem hlotið hafa jafn mörg atkvæði.
  • Að sama skapi ef greidd atkvæði skera ekki úr um hvaða frambjóðendur skipa efstu fjögur sæti í kosningunum, og fá þannig kjör til tveggja ára, vegna jafnra greiddra atkvæða að baki þeim, mun kjörnefnd leggja til að kosið verði sérstaklega á milli þeirra frambjóðenda sem hlotið hafa jafn mörg atkvæði.
  • Ef aðeins átta framboð koma fram til stjórnar, þannig að allir frambjóðendur teljast sjálfkjörnir í stjórn KSÍ, leggur kjörnefnd til að fram fari kosning þar sem hver þingfulltrúi hefur rétt til að kjósa þá fjóra frambjóðendur sem viðkomandi vill að taki sæti í stjórn KSÍ til tveggja ára. Fjórir efstu frambjóðendur að lokinni atkvæðagreiðslu tækju sæti í stjórn KSÍ til tveggja ára en fjórir neðstu til eins árs.

Kjörnefnd telur ekki ástæðu til að leita afbrigða frá lögum hvað varðar kosningu formanns. Formaður kosinn á næsta ársþingi tekur við embættinu til tveggja ára í samræmi við lög KSÍ.
Þá telur kjörnefnd jafnframt ekki ástæðu til þess að leita afbrigða vegna kosninga varamanna í stjórn, enda gera lög KSÍ ráð fyrir að þrír varamenn séu kosnir í stjórn til eins árs á hverju þingi.

Kosning formanns

Vanda Sigurgeirsdóttir var kjörin formaður KSÍ til bráðabirgða á aukaþingi KSÍ þann 2. október 2021. Kjörtímabili hennar lýkur á 76. ársþingi KSÍ árið 2022.

Vanda Sigurgeirsdóttir hefur hug á að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku.

Kosning í stjórn

Kjörtímabili eftirtalinna einstaklinga sem kjörnir voru í stjórn KSÍ til bráðabirgða á aukaþingi KSÍ þann 2. október 2021 lýkur á 76. ársþingi KSÍ 27. febrúar nk.:

  • Ásgrímur Helgi Einarsson - Reykjavík
  • Borghildur Sigurðardóttir - Kópavogi
  • Guðlaug Helga Sigurðardóttir - Suðurnesjabæ
  • Helga Helgadóttir - Hafnarfirði
  • Ingi Sigurðsson - Vestmannaeyjum
  • Sigfús Kárason - Reykjavík
  • Unnar Stefán Sigurðsson - Reykjanesbæ
  • Valgeir Sigurðsson - Garðabæ

Guðlaug Helga Sigurðardóttir hefur hug á að gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Ingi Sigurðsson og Valgeir Sigurðsson hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Afstaða annarra stjórnarmanna liggur ekki fyrir.

Kosning varamanna í stjórn

Kjörtímabili eftirtalinna einstaklinga sem kjörnir voru varamenn í stjórn KSÍ til bráðabirgða á aukaþingi KSÍ þann 2. október 2021 lýkur á 76. ársþingi KSÍ 27. febrúar nk.:

  • Kolbeinn Kristinsson - Reykjavík
  • Margrét Ákadóttir - Akranesi
  • Þóroddur Hjaltalín - Akureyri

Margrét Ákadóttir og Þóroddur Hjaltalín hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í áframhaldandi setu sem varamenn í stjórn.

Afstaða Kolbeins Kristinssonar liggur ekki fyrir.

Kosning fulltrúa landsfjórðunga

Á fundi stjórnar KSÍ þann 30. ágúst 2021 ákváðu þáverandi landsfjórðungafulltrúar að segja af sér og tóku varafulltrúar þeirra í kjölfarið við sem fulltrúar landsfjórðunga. Tveggja ára kjörtímabili varafulltrúa landsfjórðunganna lýkur í febrúar 2022. Á ársþingi fer því fram kosning 4ra manna og 4ra varamanna frá landsfjórðungum.

Kjörtímabili eftirtalinna einstaklinga lýkur á 76. ársþingi KSÍ 27. febrúar

  • Ólafur Hlynur Steingrímsson - Vesturland
  • Ómar Bragi Stefánsson - Norðurland
  • Magnús Björn Ásgrímsson - Austurland
  • Trausti Hjaltason - Suðurland

Ómar Bragi Stefánsson og Trausti Hjaltason hafa hug á að gefa kost á sér áfram sem fulltrúar landsfjórðunga.

Ólafur Hlynur Steingrímsson og Magnús Björn Ásgrímsson hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem fulltrúar landsfjórðunga.

Hæfisskilyrði og skrifleg meðmæli

Minnt er á ákvæði í 14. og 15. grein laga KSÍ:

14.3.

… Fulltrúar landsfjórðunga skulu uppfylla sömu hæfisskilyrði og stjórnarmenn, skv. grein 15.2.

15.2.

Þeir sem bjóða sig fram til embætta sem kosið er um samkvæmt grein 15.1. skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða skattalögum. Óheimilt er að velja einstaklinga sem vitað er til að hafi hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 til starfa innan íþróttahreyfingarinnar.

15.3.

Sá sem býður sig fram til formanns eða stjórnar skulu hafa skrifleg meðmæli aðildarfélaga sem fara samanlagt með a.m.k. 12 atkvæði á knattspyrnuþingi.

Með tilkynningu um framboð er óskað eftir stuttri ferilskrá til birtingar á heimasíðu KSÍ. Í samræmi við ákvörðun kjörnefndar skulu framboð á þar til gerðu eyðublaði, ásamt skriflegum meðmælum vegna framboðs til formanns og stjórnar, send með tölvupósti til Kolbrúnar Arnardóttur, lögfræðings á skrifstofu KSÍ (kolbrun@ksi.is), í síðasta lagi þann 12. febrúar næstkomandi.

Bréf til félaga vegna kosninga

Framboðsyfirlýsing - Embætti formanns

Framboðsyfirlýsing - Stjórn og varastjórn

Framboðsyfirlýsing - Landsfjórðungafulltrúar