• lau. 26. mar. 2022
  • Landslið
  • A karla

Jafntefli gegn Finnum í Murcia

A landslið karla gerði 1-1 jafntefli við Finna þegar liðin mættust í vináttulandsleik í Murcia á Spáni í dag, laugardag.  Birkir Bjarnason gerði mark íslenska liðsins og er það 15. mark hans fyrir A landsliðið.

Jafnræði var með liðunum lengst af í leiknum þó bæði hafi átt góða kafla.  Íslenska liðið stjórnaði leiknum á löngum köflum, spilaði vel og hefði verðskuldað sigurinn, enda skapaði liðið mun fleiri færi en finnska liðið.  Það voru þó Finnarnir sem náðu forystunni á 12. mínútu þegar Teemu Pukki náði að brjóta sér leið í gegnum vörnina og skora gott mark.  Birkir jafnaði síðan metin á 38. mínútu eftir góðan samleik sem lauk með því að Jón Daði Böðvarsson sendi boltann út í teig á Birki sem kláraði með góðu skoti.

Finnar voru nálægt því að taka forystuna í seinni hálfleik, en Brynjar Ingi Bjarnason bjargaði meistaralega á marklínu.  Þrátt fyrir nokkur góð færi og hörkuskot náði Ísland ekki að knýja fram sigur og jafntefli staðreynd.  Góð frammistaða heilt yfir hjá ungu og efnilegu liði, með reynslumikla menn inn á milli.

Næsta verkefni íslenska liðsins er vináttuleikur gegn Spánverjum í Coruna á þriðjudag.  Sá leikur er kl. 18:45 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.