• fim. 05. maí 2022
  • EM 2022

Verkefnið „Fótbolti í skólum“

Evrópumeistaramót kvenna fer fram á Englandi í júlí og verður það stærsti fótboltaviðburður sem haldinn hefur verið fyrir konur. Alls taka 16 þjóðir þátt í mótinu á tíu leikvöngum í níu borgum á Englandi þar sem stjörnur framtíðarinnar munu eiga sviðið.
Grunnskólum í Evrópu býðst að hefja veisluhöldin á undan öllum öðrum með verkefninu „Fótbolti í skólum”. Verkefnið er með það að markmiði að veita innblástur og sameina skóla og börn í tengslum við mótið. Verkefnið samanstendur af áskorunum og kennsluefni sem snýr allt að EM.

Nemendur á aldrinum 7-14 ára munu fá upplýsingar um mótið og taka þátt í skemmtilegum áskorunum með einhverjum af bestu leikmönnum í heimi. Áskoranir og efni verður birt fram að mótinu sem hefst 6. júlí. Nemendurnir hafa tækifæri til að deila sínum áskorunum á rafrænan vettvang og skólinn mun hafa aðgang að safni allra nemenda skólans.
Til að taka þátt í fótboltaveislunni og fá aðgang að áskorununum og kennsluefninu þarf að skrá sig inn (sign up) á vef verkefnisins. Hnappurinn til að skrá sig inn er uppi í hægra horninu.

KSÍ hvetur kennara til að kynna sér verkefnið og taka þátt. Að auka áhuga á kvennaknattspyrnu er samfélagsverkefni og er þetta frábær leið til að kynnast kvennalandsliðinu okkar og um leið brjóta upp skólastarfið í aðdraganda sumars.
Góða skemmtun og gleðilegt EM!

Ef einhverjar spurningar vakna er velkomið að hafa samband við umsjónarmann verkefnisins hjá KSÍ á netfanginu soley@ksi.is

Vefur verkefnisins hjá UEFA - UEFA Women's EURO 2022 Football in Schools Programme | Show Your Heart (figc-fis.eu)