• fim. 01. sep. 2022
  • A kvenna
  • HM 2023
  • Landslið

Hallbera og Íslandsmeistarar FH 1972 heiðraðar á föstudag

Fyrir leik Íslands gegn Belarús í undankeppni HM sem fram fer á föstudag verður Hallbera Guðný Gísladóttir heiðruð fyrir framlag sitt til knattspyrnu. 

Hallbera Guðný Gísladóttir lagði skóna á hilluna eftir síðasta leik Íslands á EM á Englandi í sumar. Hún spilaði samtals 131 leik fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim þrjú mörk. Hallbera lék sinn fyrsta landsleik í 2-0 sigri gegn Póllandi á Algarve cup árið 2008 og tók hún þátt í þremur stórmótum á ferlinum, EM 2013, EM 2017 og EM 2022.

Hallbera hóf knattspyrnuferil sinn með ÍA og spilaði einnig með Val og Breiðablik á Íslandi. Erlendis lék Hallbera með fjórum félögum í Svíþjóð, Piteå, Djurgårdens, AIK og IFK Kalmar og með Torres á Ítalíu. Knattspyrnusamband Íslands þakkar Hallberu fyrir framlag sitt til íslenskrar knattspyrnu.

Kvennalið FH árið 1972 varð Íslandsmeistari fyrir 50 árum síðan, fyrst kvennaliða. Af því tilefni verður liðið heiðrað í hálfleik í leik Íslands og Belarús.

Í sumar voru liðin 50 ár frá fyrsta Íslandsmóti kvenna, sem fór fram árið 1972. Spilað var í tveimur fjögurra liða riðlum og þau lið sem tóku þátt voru FH, Fram, Breiðablik, Þróttur Reykjavík, Ármann, Grindavík, Haukar og Keflavík. FH og Ármann mættust í úrslitaleik þar sem FH vann 2-0 sigur og FH-ingar fögnuðu því Íslandsmeistaratitli, fyrst kvennaliða. Frá upphafi hefur FH fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari, árið 1972, 1974, 1975 og 1976.

Í liði FH árið 1972 voru Birna Bjarnason, Brynja Guðmundsdóttir, Erna Flygenring, Guðrún Júlíusdóttir, Gunnþórunn Gunnarsdóttir, Gyða Úlfarsdóttir, Katrín Danivalsdóttir, Kristjana Aradóttir, Margrét Brandsdóttir, Ólöf Guðmundsdóttir, Sesselja Friðþjófsdóttir, Sigfríð Sigurgeirsdóttir, Svanhvít Magnúsdóttir, Anna Lísa Sigurðardóttir, Sigrún Sigurðardóttir og Sædís Arndal.

Af þessu tilefni færir Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ Margréti Brandsdóttur, fyrir hönd FH, blómvönd og einnig fá allir leikmenn mynd af liðinu frá 1972 sem tekin var af Helga Dan.