• þri. 04. okt. 2022
  • Landslið
  • U17 kvenna

Sex marka jafntefli í hörkuleik hjá U17 kvenna

U17 landslið kvenna gerði í dag 3-3 jafntefli í hörkuleik við Ítalíu í fyrstu umferð undankeppni EM 2023.  Riðillinn fer fram á Ítalíu og var heimaliðið dyggilega stutt af áhorfendum.

Ítalska liðið var meira með boltann í leiknum ogen að öðru leyti var jafnræði með liðinum sem bæði áttu góðar sóknir og marktækifæri. Ítalía skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og reyndust það einu mörkin fyrir hlé.  Emelía Óskarsdóttir minnkaði muninn í síðari hálfleik áður en ítalska liðið náði aftur tveggja marka forystu.  Okkar stúlkur lögðu þó ekki árar í bát og jöfnuðu metin af miklu harðfylgi með mörkum frá Katrínu Rósu Egilsdóttur og Hrafnhildi Ásu Halldórsdóttur, sem skorðu með einnar mínútu millibili seint í leiknum.

Niðurstaðan jafntefli í hörkuleik og gott veganesti fyrir íslenska liðið, sem mætir Sviss á föstudag í næstu umferð, en svissneska liðið lagði það franska með tveimur mörkum gegn einu í dag.  Leikur Ítalíu og Íslands var sýndur í beinni vefútsendingu á KSÍ TV.

U17 kvenna