• þri. 11. okt. 2022
  • Landslið
  • HM 2023
  • A kvenna

A kvenna - HM draumurinn úti

A landslið kvenna tapaði 4-1 fyrir Portúgal í umspili um laust sæti á HM 2023. Þar með er ljóst að liðið verður ekki með á HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Fyrri hálfleikur var nokkuð rólegur en besta færi Íslands kom rétt fyrir hálfleik þegar Gunnhildur Yrsa átti skot í slá. Markalaust var þegar liðin gengu til hálfleiks. 

Í upphafi síðari hálfleiks skorar Sveindís Jane mark sem var dæmt af eftir að dómari leiksins nýtti sér VAR dómgæsluna. Portúgal nýtti sér þann meðbyr og nokkrum mínútum síðar komst portúgalska liðið inn í vítateig Íslands þar sem Áslaug Munda var dæmd brotleg. Áslaug Munda fékk rautt spjald fyrir brotið og vítaspyrna var dæmd. Portúgal skoraði úr spyrnunni og tók 1-0 forystu.

Á 59. mínútu fékk Ísland aukaspyrnu sem Selma Sól Magnúsdóttir tók. Glódís Perla stökk hæst í teignum og skallaði boltann í netið. Staðan 1-1. Ekki var meira skorað í venjulegum leiktíma og því farið í framlengingu.

Framlengingin var þung fyrir íslenska liðið. Portúgal var með öll völd á vellinum og bætti við þremur mörkum. Lokatölur 4-1 fyrir Portúgal.