• fös. 25. nóv. 2022
  • Landslið
  • A karla

A karla mætir Eistlandi og Svíþjóð á Algarve í janúar

KSÍ getur nú staðfest að A landslið karla leiki tvo vináttuleiki í janúar. Leikirnir verða hluti af æfingabúðum liðsins á Algarve í Portúgal. Þrjú önnur lið verða við æfingar á svæðinu á sama tíma og leikur íslenska liðið við tvö þeirra, Eistland og Svíþjóð, en fjórða liðið er Finnland.

Fyrri leikurinn verður gegn Eistlandi 8. janúar á Estadio Nora og sá seinni á Estadio Algarve 12. janúar gegn Svíþjóð. Ekki er um FIFA glugga að ræða og því má gera ráð fyrir að leikmannahópar liðanna komi að stórum hluta frá félagsliðum í viðkomandi deildum og að meginþorri leikmanna íslenska liðsins verði frá liðum í Bestu deildinni eða liðum á Norðurlöndunum.

A landslið karla sem var að mestu skipað leikmönnum úr Bestu deildinni lék fyrr í þessum mánuði tvo vináttuleiki sem báðir töpuðust með einu marki, gegn Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu, tveimur liðum sem voru í lokaundirbúningi fyrir HM í Katar.

Leikirnir:

  • 8.1.2023 Ísland - Eistland Estadio Nora
  • 9.1.2023 Svíþjóð - Finnland Estadio Algarve
  • 12.1.2023 Finnland - Eistland Estadio Nora
  • 12.1.2023 Svíþjóð - Ísland Estadio Algarve

A landslið karla