• þri. 16. maí 2023
  • Mótamál

Frá KSÍ: Sýnum stillingu

Að vera dómari í fótbolta er mikilvægt starf og knattspyrnuíþróttin getur ekki verið án dómara. Nýliðun í félögunum gengur misvel og það er mikil áskorun fyrir knattspyrnuhreyfinguna að fjölga dómurum. Þessi áskorun er ekki bundin við fótboltann – aðrar íþróttagreinar eru líka að takast á við hana, enda er það því miður þannig að alltof margir einstaklingar telja sig hafa rétt á því að sýna neikvæða hegðun í garð dómara vegna þeirra starfa.

KSÍ vill vekja athygli á því að á síðustu vikum hefur tveimur dómurum sem dæma leiki í mótum meistaraflokka á vegum KSÍ borist líflátshótanir.

Þetta er fyrir neðan allar hellur og með öllu ólíðandi, og skiptir engu hvort um er að ræða barnaskap og meint grín, eða hreina og klára tilraun til líkamsárásar. Neikvæð hegðun í garð dómara á fótboltaleikjum (eða ýmsum öðrum íþróttum) er ekki ný af nálinni. Ógnanir og hótanir eru augljóslega langt yfir strikið en þegar ekki er tekið á neikvæðri hegðun og gripið inn í, þá stigmagnast hún. Ábyrgðin er vissulega þess sem hagar sér með þessum hætti, en með samhentu átaki geta allir þátttakendur leiksins unnið bug á þessari meinsemd.

  • KSÍ hefur verið með í undirbúningi árveknisátak þar sem landsþekktir einstaklingar hvetja til jákvæðrar hegðunar í garð dómara og verður það átak sett í gang síðar í mánuðinum.
  • KSÍ hvetur forráðamenn félaga til að vera vakandi fyrir neikvæðri hegðun áhorfenda á leikjum sinna félaga og grípa inn í ef þörf er á.
  • KSÍ hvetur þjálfara og leikmenn til að stilla sig þegar rætt er um dómara og þeirra störf í viðtölum.
  • KSÍ hvetur stuðningsmenn, áhorfendur og fylgjendur til að sýna störfum dómara virðingu og sýna stillingu, bæði á vellinum og þegar málin eru rædd á samfélagsmiðlum.
  • KSÍ hvetur fjölmiðlamenn til að fjalla um störf dómara af sanngirni og virðingu.

Áhorfendur lifa sig inn í fótboltaleiki, það er eðlilegur hluti af leiknum og þær tilfinningar sem fótboltinn vekur eru stærsta ástæðan fyrir vinsældum íþróttarinnar. Það hefur samt enginn rétt á því að ausa fúkyrðum og svívirðingum yfir dómara, ógna þeim og jafnvel hóta vegna þeirra starfa. Slík hegðun er með öllu óásættanleg og KSÍ hvetur alla þátttakendur leiksins til að líta inn á við.