• 18.03.2009 00:00
  • Pistlar

Heimsganga í þágu friðar

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Knattspyrna er vinsælasta íþrótt heims.  Hvert sem litið er í heiminum er leikin knattspyrna.  Iðkendur á heimsvísu eru um 300 milljónir, sem gera u.þ.b. 5% alls mannkyns.  Þetta eru karlar og konur, fullorðnir og börn, ríkir og fátækir, svartir, hvítir og gulir menn, feitir og mjóir, langir og stuttir, kristnir, kaþólikkar, búddistar, múslimar, o.s.frv.  Öll flóra mannkyns. 

Á fjögurra ára fresti fer fram heimsmeistarakeppni í knattspyrnu.  Þá hægist á hraða heimsins og kastljós allra þjóða beinist að þessari mögnuðu keppni.  Menn gleyma erjum og erfiðleikum um stund og fylgjast með bestu knattspyrnumönnum heims leika listir sínar.  Menn mæta til leiks sem vinir, takast á inni á vellinum af heilindum og háttvísi, og skilja svo að leik loknum sem vinir.

Ástin á knattspyrnu sameinar heimsbyggðina og er öflugt tæki til ákalls um frið á vorum tímum og til allrar framtíðar.  Þess vegna styður Knattspyrnusamband Íslands verkefnið Heimsgöngu í þágu friðar og tilveru án ofbeldis, af heilum hug og hjarta.  Markmið Heimsgöngunnar er að skapa vitundarvakningu sem hafnar öllu ofbeldi, hvernig sem það birtist.

KSÍ tekur þátt í þessu verkefni og leggur sitt af mörkum m.a. með því að tengja kynningu á Heimsgöngunni leikjum í efstu deildum karla og kvenna á komandi sumri.  Fyrir alla leiki deildanna tveggja lesa vallarþulir upp skilaboð sem minna á að hafna beri öllu ofbeldi, alltaf, í hvaða mynd sem er.  Fyrir þá leiki úr þessum deildum sem sýndir eru í beinni sjónvarpsútsendingu munu ungir iðkendur jafnframt ganga inn á völlinn á undan liðunum með fána Heimsgöngunnar.  Þá mun KSÍ styðja við verkefnið á ýmsan annan hátt og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama. 

Við getum öll lagt eitthvað af mörkum til þess að stuðla að friði í heiminum.  Dropinn holar steininn.

Geir Þorsteinsson

Formaður KSÍ

www.heimsganga.is