• 24.09.2012 00:00
  • Pistlar

Landsleikir í október 2012

Þórir Hákonarson
Torir_Hakonarson_2007

A landsliðin okkar eru komin mislangt á sinni leið í gegnum undankeppni fyrir næstu stórmót.  Riðlakeppni HM karla 2014 í Brasilíu er svo til nýhafin, en riðlakeppninni fyrir EM kvenna 2013 í Svíþjóð er búin og næstu leikir eru umspil um sæti í lokakeppninni.

Karlaliðið van glæsilegan sigur í sínum fyrsta leik í riðlakeppni HM 2014, á Laugardalsvellinum gegn Norðmönnum, fyrir framan ríflega átta þúsund áhorfendur sem létu vel í sér heyra og urðu vitni að fyrsta sigri A landsliðs karla á Noregi í 25 ár.  Íslenska liðið lék vel í leiknum og átti sigurinn fyllilega skilinn og fögnuðu áhorfendur og leikmenn saman lengi eftir leik.  Það voru því vitanlega mikil vonbrigði þegar næsti leikur tapaðist, gegn Kýpur í Larnaca, en engu að síður ber að líta til þess að liðið er með þrjú stig eftir tvo leiki, sem er ekki slæmur árangur.  Leikmenn og þjálfarar hafa lært mikið á þessum tveimur leikjum og menn mæta tvíefldir í næstu verkefni, sem eru útileikur við Albaníu 12. október og svo heimaleikur við Sviss þriðjudaginn 16. október.  Fyrri leikurinn verður erfiður, en vonandi tekst strákunum að ná góðum úrslitum þar fyrir heimaleikinn við Sviss, enda er það von okkar allra að sem flest stig vinnist á heimavelli, og að Laugardalsvöllurinn verði það vígi sem við þurfum öll á að halda.  Tólfan hefur gengið í gegnum endurnýjum lífdaga og binda leikmenn og þjálfarar miklar vonir við liðsmenn þess öfluga hóps.  Þjálfarateymið hefur ítrekað sagt að menn eigi að fara í alla leiki til þess að vinna þá, og það eigum við að gera, í sameiningu.

Stelpurnar okkar í A landsliði kvenna háðu mikla baráttu við Norðmenn um efsta sæti riðilsins í undankeppninni fyrir EM 2013, sem fram fer í Svíþjóð.  Efsta sætið hefði gefið miða beina leið til Svíþjóðar.  Því miður tapaðist sú barátta með minnsta mögulega mun, eins marks tapi á Ullevaal-leikvanginum í Osló, í leik þar sem íslenska liðið var betri aðilinn, og því leikur liðið í umspili um sæti í lokakeppninni seint í október.  Útileikurinn fer fram 20. eða 21. október og heimaleikurinn 24. eða 25. október (þegar þetta er ritað liggur ekki fyrir hvaða leikdagar verða fyrir valinu).  Mótherjinn í umspilinu verður Úkraína, sem var eins og íslenska liðið í úrslitakeppninni í Finnlandi fyrir fjórum árum.  Leikið verður heima og heiman og þetta verða án nokkurs vafa hörkuleikir þar sem lítið má útaf bregða.  Í heimaleiknum verðum við Íslendingar að fjölmenna og styðja við bakið á íslenska liðinu.  Þegar við komumst í gegnum umspilið fyrir EM 2009, gegn Írlandi á frosnum Laugardalsvellinum, fjölmennti fólk á völlinn.  Vonandi verður ekki jafn kalt í heimaleiknum við Úkraínu, en við skulum vera við öllu búin.  Látum ekki smá kulda fæla okkur frá.  Menn klæða sig bara eftir veðri og halda á sér hita með hoppum, hrópum og klöppum.  Tólfan ætlar klárlega að mæta á þann leik og syngja til sigurs.  Við ætlum á EM í Svíþjóð, komdu með!

Þórir Hákonarson

framkvæmdastjóri KSÍ