• 13.11.2012 00:00
  • Pistlar

Baráttudagur gegn einelti - Ávarp

Guðrún Inga Sívertsen
gudruninga

Eftirfarandi ávarp flutti Guðrún Inga Sívertsen, gjaldkeri KSÍ og formaður landsliðsnefndar kvenna, við athöfn á baráttudegi gegn einelti þann 8. nóvember síðastliðinn.  Á þessum degi fékk kvennalandsliðið viðurkenningu vegna jákvæðra skilaboða gegn einelti til samfélagsins.

Einelti getur átt sér stað í öllum stigum samfélagsins og í öllum hópum. 

Knattspyrnuhreyfingin á Íslandi telur fleiri tugi þúsunda einstaklinga og er þverskurður af okkar samfélagi. Við í hreyfingunni erum meðvituð um okkar ábyrgð. KSÍ hefur til dæmis nú í nokkur ár staðið fyrir verkefninu leikur án fordóma.  Hluti þess er barátta gegn einelti með fræðslu til iðkenda, þjálfara og foreldra.  Einelti kemur okkur öllum við, því við erum liðsheild, ein stór fjölskylda. 

Nú á haustmánuðum tóku leikmenn A landsliðs kvenna það frumkvæði að berjast að alefli gegn þeim óvini sem einelti er. Það eru því stúlkurnar í liðinu sem hafa unnið fyrir viðurkenningunni. Knattspyrnuhreyfingin ætlast til mikils af þessum stúlkum, innan sem utan vallar.  Þær eru fyrirmyndir ungs fólks, í íþróttum, en líka á miklu fleiri sviðum eins og þessi viðurkenning sýnir.

Katrín Ómarsdóttir samdi lag og texta, sem aðrir tveir leikmenn liðsins, Rakel Hönnudóttir og Mist Edvardsdóttir (sem eru staddar hér í dag) syngja.

Ég ætla að lesa fyrir ykkur facebook færsluna sem varð Katrínu kveikjan að laginu um fjölbreytileikann.

”Þó ég sé feit, ljót og strákaleg hvað á ég að gera í þessu?
Ég á allavega ekki að vera lögð í einelti vegna þess að einelti lagar ekkert.
Sorry ákvað að koma þessu hingað en ef ykkur finnst þetta asnalegt þá má ykkur finnast það, mér er alveg sama. :´( Plízz hættiði að leggja mig í einelti, er komin með nóg. :´( 

Við eigum að halda umræðunni um einelti á lofti, og við eigum að gera eins og stelpurnar í landsliðinu og taka ábyrgð á vandamálum eins og einelti.

Það er sama hvaða stöðu manneskjan gegnir í samfélaginu þá hefur hún ákveðna ábyrgð—ábyrgð til að láta gott af sér leiða. Því áhrifameiri stöðu sem manneskjan gegnir því meiri samfélagsábyrgð þarf hún að sýna.

Það er frábært að það skuli vera dagur til að vekja athygli á einelti, en munum líka að baráttan á sér stað alla daga. Fögnum fjölbreytileikanum, alltaf.

Takk kærlega fyrir okkur !