• 20.07.2013 00:00
  • Landslið
  • Pistlar

Stóri dagurinn

769714
769714
Sunnudagurinn 21. júlí verður stór dagur í íslenskri knattspyrnusögu.  Þá leikur A landslið kvenna við Svía í 8-liða úrslitum EM 2013.  Svíar þykja mun sigurstranglegri í leiknum og af umfjöllun sænskra fjölmiðla að dæma tekur því varla að spila leikinn. 
Sigurliðið úr leiknum á sunnudag mætir annað hvort Þjóðverjum eða Ítölum í undanúrslitum og er nokkuð fjallað um undanúrslitaslaginn sem framundan er milli Svía og Þjóðverja (skv. sænskum fjölmiðlum), þó bæði lið eigi reyndar eftir að spila sína leiki í 8-liða úrslitum.  Talsmenn sænska liðsins, þjálfarar og leikmenn, eru hins vegar öllu varkárari og reyna sitt besta til að draga úr þannig tali.  Pia Sundhage, þjálfari sænska liðsins, hefur átt fullt í fangi með að víkja sér undan því að svara spurningum um fyrrnefndan undanúrslitaleik við Þýskaland. 

Væntingarnar í Svíþjóð eru miklar, kannski svo miklar að þær fara að hafa áhrif á leikmenn Svía.  Vonandi fylgjast leikmenn sænska liðsins mjög vel með fjölmiðlum og vonandi láta þær glepjast af því sem skrifað er.  Það hjálpar okkar liði, því Ísland ætlar sér að vinna Svía og slá þá út úr keppninni á þeirra eigin heimavelli.  Íslenska liðið er algerlega einbeitt á verkefnið og sjálfstraustið í hópnum er mjög gott eftir góða leiki í riðlakeppninni og þar á meðal sigur á Hollendingum, sem ætluðu sér að reyna að vinna þessa keppni.

769748Leikurinn fer fram á Örjans Vall leikvanginum í Halmstad á sunnudag og hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma (beint á RÚV).  Örjans Vall tekur 7.500 manns í sæti og er uppselt á leikinn.  Íslenskir stuðningsmenn á leiknum verða færri en stuðningsmenn Svía.  En það skiptir engu máli.  Íslendingar eru hvort eð er miklu færri en Svíar.  Við getum unnið þá, höfum unnið þá, og ætlum að vinna þá á sunnudag …