• 14.12.2015 00:00
  • Pistlar

Íslensk knattspyrna er á vegferð sem mun halda áfram

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-staerri

Það var magnað að vera viðstaddur þegar dregið var í riðla fyrir EM karlalandsliða 2016 í Palais de Congres í París þar sem fulltrúar sterkustu knattspyrnuþjóða Evrópu voru saman komnir og biðu spenntir eftir því að vita hverjir yrðu andstæðingar þeirra í Frakklandi næsta sumar. Sýningin sem boðið var upp á fyrir dráttinn var glæsileg, en spennustigið reis hratt þegar skemmtiatriðunum lauk og komið var að því sem allir höfðu beðið eftir.  Ísland verður í F-riðli ásamt Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi.  

Leikvangarnir í keppninni eru hver öðrum glæsilegri, og íslenska liðið mun leika á þeim tveimur leikvöngum sem taka flesta áhorfendur – Stade Vélodrome í Marseille (67.000) og Stade de France í St. Denis (80.000) – auk Stade Geoffroy Guichard í St. Etienne (42.000). 

Íslenskir stuðningsmenn munu vafalítið fjölmenna á alla leikina, enda einstakt tækifæri til að sjá strákana okkar spreyta sig á stóra sviðinu, þar sem þeir mæta öflugum knattspyrnuþjóðum.  En það er nefnilega þannig að það eru eingöngu öflugar knattspyrnuþjóðir sem komast í úrslitakeppni stórmóta.  Ísland er þar á meðal. 

Þjálfarar liðsins og leikmenn eru metnaðarfullir.  Þeir fara fullir sjálfstrausts í þessa úrslitakeppni og munu sem fyrr leika til sigurs í öllum leikjum.  Sterkustu eiginleikar þessa liðs, sem og annarra íslenskra landsliða, hafa verið dugnaður og baráttuvilji, agi og staðfesta, framúrskarandi skipulag, og ástríða fyrir leiknum.

Íslensk knattspyrna er á vegferð sem mun halda áfram.  Um það er ég sannfærður.  Landslið okkar af báðum kynjum og í öllum aldursflokkum halda áfram að ná eftirtektarverðum árangri.  Félagsliðin halda áfram að ná eftirtektarverðum árangri í Evrópukeppni.  Það góða og mikla starf sem unnið hefur verið í aðildarfélögum KSÍ, vöxtur þjálfaramenntunar í yngri flokkum, og sú uppbygging sem hefur átt sér stað á knattspyrnumannvirkjum með stuðningi sveitarfélaga, á stóran þátt í þessum árangri. 

Það breytir þó ekki þeirri mögnuðu staðreynd að jafn fámenn þjóð og Íslendingar skuli ná eins góðum árangri og raun ber vitni.  Þessi árangur er engin tilviljun.  Fjölmiðlar frá Evrópu og raunar frá öllum heimshornum hafa  fjallað um þennan árangur á síðustu árum og leitað svara.  Hægt er að benda á fyrrgreinda uppbyggingu þjálfaramenntunar og mannvirkja.  En það kemur fleira til.  Hin íslenska knattspyrnuhreyfing á fjársjóð í öllu því öfluga fólki sem stendur á bak við aðildarfélögin og myndar íslensku knattspyrnufjölskylduna.  Sterkustu eiginleikar þessa fólks eru nefnilega dugnaður og baráttuvilji, agi og staðfesta, og ástríða fyrir knattspyrnuíþróttinni.  Eins og hjá íslenska landsliðinu.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ