• fös. 17. maí 2024
  • Fræðsla

Ný lög um farsæld barna

Frá ÍSÍ:

Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og barnamálaráðherra og starfar á grundvelli laga nr. 87/2021. Stofan hefur víðtækt hlutverk og sinnir verkefnum sem tengjast þjónustu í þágu barna á grundvelli ýmissa laga, t.a.m. barnaverndarlaga og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið Barna- og fjölskyldustofu er að vinna að velferð barna og þjónar landinu öllu.

Hér má finna heimasíðu Barna-og fjölskyldustofu.

Á Íslandi hafa ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tekið gildi. Lögin eiga að sjá til þess að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.

Hér er um að ræða boð um samþættingu þjónustu fyrir foreldra og börn sé þess óskað. Samþætting kemur ekki í veg fyrir að foreldrar sæki sjálfir þjónustu fyrir börn sín. Markmiðið með farsældarlögunum er að bæta enn frekar þjónustu við börn og fjölskyldur svo þau fái notið þeirrar aðstoðar sem þau eiga rétt á um leið og þess gerist þörf.

Á heimasíðu ÍSÍ má finna ítarlegri upplýsingar og myndbönd um farsæld barna. Allt efnið er hægt að nálgast í íslensku, ensku og pólsku. Telji þjálfarar, starfsmenn íþróttahúsa, foreldrar eða aðrir að málið sé alvarlegra og heyri undir Samskiptaráðgjafa má finna nánari upplýsingar hér um starf Samskiptaráðgjafa.

Útgangspunkturinn í öllu á að vera barnið og hagsmunir þess.

ÍSÍ hvetur alla þá sem starfa með börnum, á íþróttavettvangi eða öðrum, til að kynna sér innihald farsældarlaganna og nýta þau ef upp koma tilvik sem gefa tilefni til þess.

Hér má finna upplýsingar um ný farsældarlög.