Lög KSÍ

Samþykkt af ársþingi KSÍ 26. febrúar 2022.

Lög KSÍ á pdf

LÖG KNATTSPYRNUSAMBANDS ÍSLANDS

I. ALMENN ÁKVÆÐI OG HLUTVERK

1. grein - Heiti og staðsetning

1.1. Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) er samband héraðssambanda og íþróttabandalaga þeirra félaga innan ÍSÍ, sem iðka og keppa í knattspyrnu.

1.2. Aðsetur og varnarþing KSÍ er í Reykjavík.

1.3. Merki KSÍ er eign KSÍ og verndað af vörumerkjarétti. Merki KSÍ er í íslensku fánalitunum.

1.4 Fáni KSÍ er hvítur með merki KSÍ í miðju.

2. grein - Hlutverk og tilgangur KSÍ

2.1. KSÍ er æðsti aðili knattspyrnumála á Íslandi og er hlutverk þess í meginatriðum:

a. að hafa yfirstjórn íslenskra knattspyrnumála,
b. að vinna að eflingu knattspyrnu í landinu,
c. að setja íslenskri knattspyrnu lög og reglur og að framfylgja þeim,
d. að sjá til þess að knattspyrnulögunum og reglum KSÍ sé fylgt,
e. að standa fyrir knattspyrnumótum á Íslandi,
f. að standa vörð um uppeldislegt gildi knattspyrnu og heiðarlegan leik,
g. að koma fram erlendis fyrir hönd knattspyrnu á Íslandi,
h. að tefla fram landsliðum og félögum í alþjóðlegri keppni.

2.2. KSÍ starfar að öllu leyti sjálfstætt og er hlutlaust varðandi stjórnmál og trúarbrögð. KSÍ skal gæta jafnræðis og jafnréttis. Skulu allir vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum KSÍ og njóta réttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

3. grein - Aðild að samtökum

3.1. KSÍ er aðili að

a. Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ),
b. Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA),
c. Alþjóðaknattspyrnusambandinu (FIFA).

3.2. KSÍ skal gæta samræmis við reglur og ákvarðanir ÍSÍ, UEFA og FIFA. Reglur og ákvarðanir KSÍ eru bindandi fyrir aðila að KSÍ, félög, leikmenn, dómara, þjálfara, forystumenn og aðra þá, sem eru innan vébanda aðildarfélaga KSÍ.

3.3. KSÍ og aðildarfélög þess skulu hlíta valdi FIFA og UEFA vegna skipulagningar leikja og móta landsliða og félaga á alþjóðavettvangi og skulu ekki vera þátttakendur í leikjum eða mótum á alþjóðavettvangi án samþykkist FIFA eða UEFA. KSÍ skal vera bundið af ákvörðunum FIFA og UEFA um alþjóðlega landsleikjadaga. Jafnframt skal KSÍ ekki vera í sambandi við knattspyrnusamband sem er ekki aðili að FIFA eða UEFA nema með samþykki FIFA eða UEFA.

II. AÐILD AÐ KSÍ

4. grein - Réttur á aðild

4.1. Öll félög innan ÍSÍ, er iðka og keppa í knattspyrnu, eru aðilar að KSÍ.

5. grein - Réttindi og skyldur aðildarfélaga

5.1. Sérhvert aðildarfélag skal hafa rétt til þátttöku í skipulögðum mótum á vegum KSÍ, enda uppfylli það þátttökuskilyrði samkvæmt lögum þessum og gildandi reglugerðum KSÍ.

5.2. Aðildarfélagi er skylt að virða lög, reglugerðir, reglur og ákvarðanir sem settar eru eða teknar af KSÍ, UEFA eða FIFA.

5.3. Félagi sem tekur þátt í móti á vegum KSÍ ber að sjá til þess að leikmenn, þjálfarar, dómarar og forystumenn innan vébanda félagsins virði lög, reglugerðir, reglur og ákvarðanir KSÍ, UEFA eða FIFA.

5.4. Félagi sem tekur þátt í mótum á vegum KSÍ er í hvívetna skylt að virða ákvarðanir stjórnar KSÍ, nefnda KSÍ og dómstóla innan íþróttahreyfingarinnar.

5.5. Aðildarfélög skulu senda KSÍ skýrslu um öll knattspyrnumót, sem haldin eru á þeirra vegum.

5.6. Aðildarfélög skulu senda KSÍ upplýsingar um stjórnir félaganna á hverjum tíma innan viku frá því breyting á sér stað.

5.7. Aðildarfélag skuldbindur sig til að vinna að því að efla heilbrigðan íþróttaanda, koma í veg fyrir lyfjamisnotkun, vinna gegn hvers konar mismunun á grundvelli trúarskoðana, kynferðis, kynhneigðar, stjórnmálaskoðana, þjóðernis eða af öðrum ástæðum. Aðildarfélag skuldbindur sig einnig til að vinna gegn ólöglegri veðmálastarfsemi og hagræðingu úrslita leikja.

5.8. Aðildarfélög KSÍ eru bókhaldsskyld og ársreikningaskyld samkvæmt gildandi lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Aðildarfélög, sem falla undir leyfiskerfi, skulu auk þess færa bókhald sitt svo það uppfylli kröfur leyfiskerfis KSÍ. Reikningsár aðildarfélaga skal vera almanaksárið.

5.9. Félag sem er aðili að KSÍ skuldbindur sig til þess að vera ekki aðili að öðru knattspyrnusambandi eða taka þátt í leikjum eða mótum á vegum annars knattspyrnusambands nema með sérstöku samþykki KSÍ, hins knattspyrnusambandsins, FIFA eða UEFA.

5.10. Sérhvert aðildarfélag skal bera ábyrgð á framkomu leikmanna, forráðamanna, félagsmanna og stuðningsmanna sinna og allra þeirra sem hafa hlutverki að gegna á vegum þess vegna ámælisverðrar eða óásættanlegrar framkomu þessara aðila innan vébanda KSÍ, og getur sætt viðurlögum sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og reglugerðum KSÍ.

5.11. Leikmenn aðildarfélaga skulu verða skráðir félagsmenn í samræmi við reglugerðir KSÍ.

6. grein - Aðrar skyldur

6.1. Aðildarfélög, KSÍ, leikmenn og aðrir innan KSÍ skuldbinda sig til að leika knattspyrnu í samræmi við knattspyrnulögin og í samræmi við lög og reglur FIFA/UEFA.

6.2. Aðildarfélag skuldbindur sig til að vinna gegn ólöglegri veðmálastarfsemi og hagræðingu úrslita leikja. Aðilum sem falla undir lög þessi og taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ er óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Bann þetta tekur einnig til miðlunar upplýsinga í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmál og fela í sér fjárhagslegan ávinning.

6.3. Aðildarfélög KSÍ, leikmenn og aðrir innan KSÍ samþykkja að fara eftir anda og skilmálum Lyfjaeftirlits Íslands (LÍ), lögum ÍSÍ um lyfjamál og Alþjóðalyfjareglunum (World Anti-Doping Code). Í því felst skuldbinding til að fylgja lyfjareglum LÍ og lögum ÍSÍ um lyfjamál og viðurkenning KSÍ á valdi og ábyrgð lyfjaeftirlits LÍ á framkvæmd lyfjareglnanna. Jafnframt skal reglugerð FIFA um lyfjamisnotkun (FIFA Anti-doping regulations) gilda fullum fetum um lyfjatengd mál innan KSÍ og sé ósamræmi á milli lyfjareglna KSÍ og reglugerðar FIFA um lyfjamisnotkun skulu ákvæði reglugerðar FIFA um lyfjamisnotkun gilda framar.

III. SKIPULAG KSÍ

7. grein - Stjórnkerfi KSÍ

7.1. Málefnum KSÍ stjórna:

a. Knattspyrnuþing fer með æðsta vald í málefnum KSÍ og setur nauðsynleg lög.
b. Stjórn KSÍ fer með æðsta vald í málefnum KSÍ á milli knattspyrnuþinga.
c. Fastanefndir KSÍ, sem vinna samkvæmt lögum og reglugerðum knattspyrnusambandsins og starfsreglum, sem stjórn KSÍ setur þeim.
d. Sérstakar nefndir, sem skipaðar eru og starfa að afmörkuðum málefnum.
e. Framkvæmdastjóri KSÍ, sbr. 19. gr.

7.2. Leyfisnefndir taka ákvörðun um þátttökuleyfi til keppni í Íslandsmóti þar sem það á við og starfa skv. leyfishandbók sem samþykkt er af stjórn KSÍ og staðfest af UEFA. Þær nefndir eru:

a. Leyfisráð.
b. Leyfisdómur.

7.3. Dómstig KSÍ eru:

a. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.
b. Áfrýjunardómstóll KSÍ.

IV. KNATTSPYRNUÞING

8. grein - Boðun

8.1. Knattspyrnuþing skal halda árlega, eigi síðar en 28. febrúar. Stjórn KSÍ ákveður þingstað og þingtíma. Boða skal til þingsins bréflega, eða með öðrum sannanlegum hætti, með minnst tveggja mánaða fyrirvara.

9. grein - Réttur til þingsetu

9.1. Knattspyrnuþingið sitja fulltrúar frá aðildarfélögum KSÍ.

9.2. Fulltrúafjöldi aðildarfélaga ákvarðast af þátttöku þeirra í Íslandsmóti meistaraflokks sem hér segir:

a. Fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í efstu deild karla og/eða kvenna á komandi leiktíð, komi 4 fulltrúar.
b. fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í 1. deild karla og/eða kvenna á komandi leiktíð, komi 3 fulltrúar.
c. fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í 2. deild karla á komandi leiktíð, komi 2 fulltrúar.
d. fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í neðri deildum karla og/eða kvenna á komandi leiktíð en um getur í liðum a.-c., komi 1 fulltrúi, enda hafi það tekið þátt í Íslandsmóti meistaraflokks síðustu fimm leiktíðir samfleytt.
e. fyrir sameiginlegt lið félaga komi fulltrúar sbr. a.-d., sem skiptast milli félaga sem standa að liðinu, skv. samkomulagi þeirra á milli ella fellur þátttökuréttur til fulltrúa niður.

9.3. Fulltrúafjöldi aðildarfélags skal einungis ákvarðast af einum þeirra liða a. til e. sem gefur flesta fulltrúa. Félag sem ekki tefldi fram í móti á vegum KSÍ á síðasta keppnistímabili að minnsta kosti einu liði í yngri flokkum (3. – 6. flokk), getur að hámarki verið með einn fulltrúa.

9.4. Framkvæmdastjóri KSÍ skal senda kjörbréf til aðildarfélaga eigi síðar en tveimur vikum fyrir þing. Aðeins sá, sem skráður er á kjörbréf, sem staðfest hefur verið af formanni aðildarfélags eða meirihluta stjórnar þess, er kjörgengur fulltrúi þess á knattspyrnuþingi og fer með atkvæðisrétt.

9.5. Hver þingfulltrúi fer aðeins með eitt atkvæði. Ekki er heimilt að greiða atkvæði samkvæmt umboði eða bréfleiðis. Kjörnir fulltrúar í stjórn KSÍ og varafulltrúar þeirra geta ekki farið með atkvæðisrétt á ársþingi.

9.6. Félög sem eru í skuld við KSÍ miðað við síðustu áramót, missa rétt til þingsetu. KSÍ skal tilkynna þeim félögum eigi síðar en þremur vikum fyrir þing að félagið fái ekki kjörbréf nema eldri skuldir séu gerðar upp. Kjörbréfanefnd skal ganga úr skugga um, að þessu ákvæði sé framfylgt.

9.7. Á knattspyrnuþingi eiga auk kjörinna fulltrúa rétt til þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:

a. Stjórnarmenn KSÍ.
b. Framkvæmdastjóri KSÍ.
c. Einn fulltrúi stjórnar hvers héraðssambands þar sem knattspyrna er iðkuð. 

9.8. Jafnframt hafa rétt til þingsetu og hafa þar málfrelsi:

a. Heiðursformenn KSÍ.
b. Kjörnir fulltrúar landsfjórðunga.
c. Nefndarmenn fastanefnda KSÍ.
d. Dómarar í dómstólum KSÍ.
e. Endurskoðandi reikninga KSÍ og skoðunarmenn.
f. Forseti og framkvæmdastjóri ÍSÍ.
g. Fulltrúi menntamálaráðuneytis.
h. Tveir fulltrúar samtaka knattspyrnudómara.
i. Tveir fulltrúar Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands.

9.9. Auk þess getur stjórn KSÍ boðið öðrum aðilum þingsetu og veitt þeim heimild til að ávarpa þingið.

10. grein –Tillögur að laga- og reglugerðarbreytingum. Reikningar KSÍ.

10.1. Tillögur að laga- og/eða reglugerðarbreytingum sem óskað er eftir að teknar verði fyrir á knattspyrnuþingi, skulu sendar stjórn KSÍ minnst mánuði fyrir þingsetningu. Tillögurnar skulu yfirfarnar af laga- og leikreglnanefnd KSÍ. Laga- og leikreglnanefnd ber að láta kanna hvort tillögurnar samræmist lagaákvæðum og skuldbindingum knattspyrnusambandsins. Þá skal laga- og leikreglnanefnd KSÍ gefa þeim, sem hafa með viðkomandi málefni að gera innan KSÍ, kost á að koma fram með athugasemdir við tillöguna.

10.2. Eigi síðar en hálfum mánuði fyrir boðað knattspyrnuþing KSÍ, skal stjórn KSÍ senda sambandsaðilum dagskrá þingsins og tillögur þær, sem þá hafa borist, ásamt athugasemdum við þær.

10.3. Eigi síðar en viku fyrir boðað knattspyrnuþing, skal stjórn KSÍ senda sambandsaðilum reikninga sambandsins ásamt fjárhagsáætlun og starfsáætlun fyrir næsta starfsár.

11. grein - Dagskrá

11.1. Dagskrá knattspyrnuþings er: 

 1. Þingsetning og staðfesting á lögmæti þingsins í samræmi við lög þessi. 
 2. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.
 3. Kosning fyrsta og annars þingforseta.
 4. Kosning fyrsta og annars þingritara.
 5. Ávörp gesta.
 6. Álit kjörbréfanefndar og það samþykkt.
 7. Lögð fram skýrsla fráfarandi stjórnar.
 8. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar KSÍ.
 9. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga, skýrslan og reikningar lagðir undir samþykki.
 10. Stjórn KSÍ leggur fram tillögu að fjárhagsáætlun og starfsáætlun fyrir næsta starfsár.
 11. Tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum teknar til afgreiðslu.
 12. Tillögur um önnur mál sem borist hafa til stjórnar teknar til afgreiðslu.
 13. Önnur mál.
 14. Kosningar. Álit kjörnefndar.
  1. Kosning stjórnar.
   1. Kosning formanns (annað hvert ár).
   2. Kosning 4ra manna í stjórn.
   3. Kosning 3ja varamanna í stjórn.
  2. Kosning fulltrúa frá landsfjórðungum.
   1. Kosning 4ra manna frá landsfjórðungum (annað hvert ár).
   2. Kosning 4ra varamanna frá landsfjórðungum (annað hvert ár).
  3. Kosning fulltrúa á íþróttaþing ÍSÍ.
  4. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis.
  5. Kosning í aga- og úrskurðarnefnd KSÍ (8 menn annað hvert ár).
  6. Kosning í áfrýjunardómstól KSÍ (3 aðalmenn og 5 varamenn).
  7. Kosning í leyfisráð KSÍ (5 menn annað hvert ár).
  8. Kosning í leyfisdóm KSÍ (5 menn annað hvert ár).
  9. Kosning fulltrúa í kjaranefnd apríl 2020.
   1. Kosning 3ja manna í kjaranefnd (annað hvert ár).
   2. Kosning varamanns í kjaranefnd (annað hvert ár).
  10. Kosning kjörnefndar, (3 menn), er starfi milli þinga.
 15. Tilnefning og staðfesting eins fulltrúa ÍTF í stjórn (annað hvert ár).
 16. Fundargerð þingsins borin upp til afgreiðslu.
 17. Þingslit. 

11.2 Stjórn KSÍ skal senda ÍSÍ og sambandsaðilum KSÍ fundargerð þingsins innan tveggja mánaða

12. grein - Atkvæðagreiðsla

12.1. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á knattspyrnuþingi, nema um lagabreytingar sé að ræða, en þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða þingfulltrúa. Meiri en helmingur þingfulltrúa þurfa að vera mættir á knattspyrnuþing svo atkvæðagreiðsla teljist gild en að öðrum kosti skal boða til annars knattspyrnuþings innan 7 daga.

12.2. Þingfulltrúar á knattspyrnuþingi greiða atkvæði um mál með handauppréttingu. Ef ¼ þingfulltrúa óska eftir skriflegri atkvæðagreiðslu, skal þingforseti verða við ósk þeirra.

12.3. Ákvarðanir sem teknar eru á knattspyrnuþingi skulu taka gildi þegar í stað nema annað sé ákveðið á knattspyrnuþingi. Stjórn KSÍ skal ljúka gerð og birtingu nýrra reglugerða eða breytinga á reglugerðum, sem knattspyrnuþing samþykkir, innan fjögurra vikna.

13. grein - Aukaþing

13.1. Aukaþing skal kalla saman, ef nauðsyn krefur að mati stjórnar KSÍ eða helmingur aðildarfélaga óskar þess skriflega við stjórn KSÍ. Boðunar- og tilkynningarfrestur til aukaþings skal vera helmingi styttri en til reglulegs knattspyrnuþings.

13.2. Málefni þau, er aðilar að KSÍ óska eftir að tekin verði fyrir á aukaþingi, skulu tilkynnt stjórn KSÍ minnst hálfum mánuði fyrir þingsetningu.

13.3. Eigi síðar en viku fyrir boðað aukaþing, skal stjórn KSÍ senda aðildarfélögum dagskrá þingsins og tillögur þær, sem þá hafa borist.

13.4. Um rétt til þingsetu og atkvæðisrétt á aukaþingi fer samkvæmt 9. gr. Fulltrúafjöldi hvers aðildarfélags skal vera sá sami og á næsta knattspyrnuþingi á undan. Kjörbréfanefnd skal senda ný kjörbréf til aðildarfélaga samkvæmt nánari ákvæðum gr. 9.4.

13.5. Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf.

13.6. Að öðru leyti gilda um aukaþing sömu ákvæði og um reglulegt knattspyrnuþing.

V. STJÓRN KSÍ

14. grein - Skipulag stjórnar KSÍ

14.1. Stjórn KSÍ skal skipuð tíu mönnum að formanni meðtöldum og þremur varamönnum. Varamenn taka sæti í stjórninni ef aðalmaður forfallast í sömu röð og þeir eru kosnir. Níu fulltrúar í stjórn KSÍ eru kjörnir beinni kosningu á ársþingi KSÍ. Tilnefning fulltrúa ÍTF skv. ákvæði 14.2. skal lögð fyrir ársþing til staðfestingar.

14.2. Auk kjörinna fulltrúa á ársþingi samkvæmt grein 14.1, skal formaður hagsmunasamtaka félaga í efstu deildum (Íslenskur toppfótbolti) sitja í stjórn KSÍ, enda séu a.m.k. 2/3 hluti félaga í efstu- og næst efstu deild karla og kvenna aðilar að samtökunum og formaður samtakanna kjörinn af fulltrúum félaganna. Fulltrúi hagsmunasamtaka félaga í efstu deildum (Íslenskur toppfótbolti) í stjórn KSÍ skal uppfylla sömu hæfisskilyrði og stjórnarmenn, skv. grein 15.2.

14.3. Stjórn KSÍ skal a.m.k. ársfjórðungslega boða fulltrúa landsfjórðunga á stjórnarfund. Á þeim fundum hafa kjörnir fulltrúar landsfjórðunga málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt. Fulltrúar landsfjórðunga eru trúnaðarmenn KSÍ á hverju svæði. Hlutverk fulltrúa landsfjórðunga er að fylgjast með starfi knattspyrnufélaga í fjórðungnum, stöðu knattspyrnunnar á svæðinu og skila KSÍ greinargerð um stöðu mála ásamt tillögum um aðgerðir eftir því sem þörf krefur. Fulltrúar landsfjórðunga skulu uppfylla sömu hæfisskilyrði og stjórnarmenn, skv. grein 15.2.

14.4. Stjórn KSÍ skal funda reglulega með félögum og hagsmunasamtökum félaga þar sem farið verði yfir hagsmunamál félaganna.

15. grein - Kosning stjórnar KSÍ

15.1. Stjórn KSÍ er kosin á knattspyrnuþingi og hafa allir kjörnir þingfulltrúar atkvæðisrétt. Kosning skal fara þannig fram:

a. Kosning formanns, annað hvert ár, til tveggja ára í senn. Formaður skal ekki sitja lengur en sex kjörtímabil samfleytt.
b. Kosning fjögurra manna í stjórn til tveggja ára.
c. Kosning 3ja manna til vara í stjórn til eins árs.

15.2. Þeir sem bjóða sig fram til embætta sem kosið er um samkvæmt grein 15.1. skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða skattalögum. Óheimilt er að velja einstaklinga sem vitað er til að hafi hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 til starfa innan íþróttahreyfingarinnar.

15.3. Sá sem býður sig fram til formanns eða stjórnar skulu hafa skrifleg meðmæli aðildarfélaga sem fara samanlagt með a.m.k. 12 atkvæði á knattspyrnuþingi.

15.4. Tilkynning um framboð til embætta sem kosið er um samkvæmt grein 15.1. og skrifleg meðmæli samkvæmt grein 15.3. skulu berast skrifstofu KSÍ minnst hálfum mánuði fyrir þing. Kjörnefnd er þó heimilt að samþykkja framboð sem fram kemur síðar ef nægjanlegur fjöldi hefur ekki tilkynnt framboð sitt innan tilkynningarfrests.

15.5. Allar kosningar eru leynilegar og skriflegar nema frambjóðendur séu jafn margir og kjósa skal. Kosning skal vera bundin við þá sem gefa kost á sér og er atkvæði aðeins gilt, ef kosnir eru jafnmargir og kjósa á.

15.6. Til þess að ná kjöri sem formaður KSÍ, þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu, skal kjósa á ný, bundinni kosningu, um þá tvo menn, sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða. Verði þeir jafnir skal kjósa á ný með sama hætti og verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti.

15.7. Við kosningu í önnur embætti á knattspyrnuþingi gildir sú regla, að þeir sem flest atkvæði fá eru rétt kjörnir. Fái fleiri en þeir, sem kjósa á, jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti.

16. grein - Verkaskipting stjórnar KSÍ

16.1. Stjórn KSÍ kýs fyrsta og annan varaformann úr hópi stjórnarmanna til eins árs í senn.

16.2. Stjórn KSÍ skal koma saman til fundar minnst sex sinnum á ári. Formaður boðar til funda og stýrir þeim. Ef 5 aðalmenn óska eftir fundi, skal formaður boða til hans. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundi en verði atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns.

16.3. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti en ákveðið er í lögum þessum og setur sér starfsreglur.

17. grein - Starfssvið stjórnar KSÍ

17.1. Stjórn KSÍ fer með málefni sambandsins og skal annast um að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í góðu horfi. Undir starfssvið stjórnarinnar fellur m.a. eftirfarandi:

1. að framkvæma ályktanir knattspyrnuþings,
2. að bera ábyrgð á fjármálum KSÍ,
3. að ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur og setja honum starfslýsingu,
4. að vinna að eflingu knattspyrnu í landinu,
5. að setja nauðsynlegar reglur og bráðabirgðaákvæði um knattspyrnumál á Íslandi,
6. að annast útgáfu á knattspyrnulögunum og reglugerðum fyrir knattspyrnu, og sjá til þess að þær séu jafnan í samræmi við alþjóðareglur,
7. að hafa yfirstjórn með landsmótum,
8. að ákveða stað og tíma fyrir alþjóðamót á Íslandi í samræmi við alþjóðlega leikdaga í samræmi við ákvarðanir FIFA og UEFA,
9. að taka ákvarðanir um þátttöku íslenskra knattspyrnuliða á alþjóðavettvangi þegar það á við,
10. að tefla fram landsliðum í knattspyrnu í keppni á alþjóðavettvangi,
11. að ráða landsliðsþjálfara til starfa,
12. að koma fram erlendis fyrir hönd knattspyrnuhreyfingarinnar í landinu,
13. að skera úr ágreiningi eða taka ákvarðanir um málefni sem lög þessi eða/og reglugerðir KSÍ ná ekki yfir,
14. að taka ákvarðanir um veitingu heiðursmerkja og viðurkenninga,
15. Að bera ábyrgð á fjármálum KSÍ, þ.m.t. að fylgja eftir samþykktri fjárhagsáætlun. Stjórn KSÍ skal ekki víkja frá samþykktri fjárhagsáætlun nema hún telji gildar ástæður til og að fenginni umsögn fjárhags- og endurskoðunarnefndar. Í því tilviki skal hún leggja fyrir á næsta ársþingi greinargerð með skýringum á frávikunum. Ákvarðanir um meiriháttar skuldbindingar skal bera undir ársþing KSÍ eða aukaþing.

17.2. Stjórn KSÍ hefur eftirlit með því að lög KSÍ, reglugerðir KSÍ og leikreglur séu haldin og getur hún vísað brotum aðila til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.

17.3. Stjórn KSÍ og allir þeir sem koma fram á vegum KSÍ skulu fara eftir þeim lögum og reglugerðum, sem gilda á hverjum tíma.

18. grein – Formaður stjórnar KSÍ

18.1. Formaður stjórnar KSÍ er, ásamt framkvæmdastjóra, málsvari sambandsins og ber ásamt stjórn ábyrgð á framkvæmd stefnumála, stefnumótunar og samþykkta ársþings. Formaðurinn skal kappkosta að ávallt séu sem best tengsl og samstarf milli sambandsins og aðildarfélaga.

18.2. Formaður stjórnar KSÍ annast samskipti við knattspyrnusambönd annarra ríkja og álfusambönd. Hann kemur fram fyrir hönd KSÍ á alþjóðavettvangi og gagnvart FIFA og UEFA.

18.3. Formaður stjórnar KSÍ ber ábyrgð á samskiptum sambandsins við ríki, sveitarfélög og ÍSÍ.

18.4. Formaður stjórnar KSÍ fær greitt fyrir störf sín, sbr. gr. 32 um kjaranefnd.

19. grein – Framkvæmdastjóri KSÍ

19.1. Framkvæmdastjóri KSÍ annast daglegan rekstur sambandsins og framfylgir stefnu stjórnar. Framkvæmdastjóri skal hafa prókúru fyrir sambandið.  Hann er yfirmaður starfsmanna sem ráðnir eru til sambandsins. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn. Framkvæmdastjóri skal uppfylla sömu hæfisskilyrði og stjórnarmenn, sbr. grein 15.2. Allar meiriháttar skuldbindingar af hálfu KSÍ skulu samþykktar af stjórn.

19.2. Framkvæmdastjóri KSÍ getur vísað brotum aðila á lögum KSÍ, reglugerðum KSÍ og leikreglum til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ til úrskurðar.

20. grein - Reglugerðir

20.1. Stjórn KSÍ setur nauðsynlegar reglugerðir um þau málefni, sem snúa að allri framkvæmd laga þessara. Nær það til breytinga á gildandi reglugerðum sem og setningu nýrra reglugerða. Allar reglugerðir skulu vera aðgengilegar og birtar á vefsíðu KSÍ.

20.2. Nýjar reglugerðir og breytingar á gildandi reglugerðum skulu kynntar aðildarfélögum með dreifibréfi og taka þær gildi samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar KSÍ. Ekki þarf að birta þær með sérstökum hætti svo þær öðlist gildi heldur er nægjanlegt að þær séu kynntar með dreifibréfi og gerðar aðgengilegar í samræmi við grein 20.1.

VI. NEFNDIR KSÍ

21. grein - Fastanefndir

21.1. Stjórn KSÍ skal að loknu knattspyrnuþingi skipa eftirtaldar fastanefndir:

a. Dómaranefnd
b. Fjárhags- og endurskoðunarnefnd
c. Fræðslu- og útbreiðslunefnd
d. Laga- og leikreglnanefnd
e. Landsliðsnefndir
f. Mannvirkjanefnd
g. Mótanefnd
h. Samninga- og félagaskiptanefnd

21.2. Fastanefndir starfa í umboði stjórnar KSÍ skv. lögum og reglugerðum sambandsins. Stjórn KSÍ skal setja fastanefndum nauðsynlegar starfsreglur. Fastanefndir hafa ekki sérstakan fjárhag.

21.3. Formaður fastanefndar skal vera stjórnarmaður KSÍ eða kjörinn varafulltrúi í stjórn, en að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Formaður boðar til funda og stýrir þeim.

21.4 Stjórn KSÍ skal gæta þess að í nefndum á vegum sambandsins séu skipaðir aðilar af báðum kynjum og þar á meðal fulltrúar félaga eða hagsmunasamtaka félaganna.

22. grein - Dómaranefnd

22.1. Dómaranefnd hefur umsjón með dómaramálum KSÍ, ber ábyrgð á flokkun og vali dómara á leiki á vegum sambandsins og sér um fræðslumál dómara. Nefndin annast útgáfu knattspyrnulaganna á íslensku og sér um að dómarar framfylgi þeim. Dómaranefnd skal að mestu vera skipuð reyndum fyrrverandi dómurum.

23. grein - Fjárhags- og endurskoðunarnefnd

23.1. Fjárhags- og endurskoðunarnefnd hefur umsjón með fjármálum KSÍ og gerir tillögu að fjárhagsáætlun. Nefndin annast eftirlit og skoðar reglulega framgang rekstraráætlana sambandsins sbr. ákvæði laga um ársreikninga.

24. grein – Fræðslu- og útbreiðslunefnd

24.1. Fræðslu- og útbreiðslunefnd hefur umsjón með og skipuleggur fræðslumál KSÍ og annast sér í lagi menntun knattspyrnuþjálfara og leiðtoga. Nefndin skal einnig vera vettvangur nýrra hugmynda og þróunar í íslenskri knattspyrnu og vinna að eflingu knattspyrnunnar, afreksstefnu og útbreiðslu með það að markmiði að sem flestir fái tækifæri á að taka þátt í leik og starfi innan vébanda knattspyrnusambandsins.

25. grein - Laga- og leikreglnanefnd

25.1. Laga- og leikreglnanefnd er stjórn KSÍ til ráðgjafar um lög og reglugerðir sambandsins. Nefndin fer yfir tillögur sem berast fyrir knattspyrnuþing og metur hvort þær séu rétt fram settar og uppfylli kröfur til þinglegrar afgreiðslu.

26. grein - Landsliðsnefndir

26.1. Landsliðsnefndir hafa umsjón með tilteknu landsliði eða landsliðum. Nefndirnar hafa umsjón með þátttöku viðkomandi liða í alþjóðakeppni.

27. grein - Mannvirkjanefnd

27.1. Mannvirkjanefnd er stjórn KSÍ og aðildarfélögum sambandsins til ráðgjafar um knattspyrnumannvirki. Nefndin annast flokkun knattspyrnuvalla og gerir tillögur til stjórnar KSÍ um veitingu keppnisleyfa fyrir knattspyrnuvelli.

28. grein - Mótanefnd

28.1. Mótanefnd annast yfirstjórn mótamála KSÍ, þar með talið skipulag landsmóta, niðurröðun þeirra og eftirlit með framkvæmd, sbr. reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.

29. grein - Samninga- og félagaskiptanefnd

29.1. Samninga- og félagaskiptanefnd hefur eftirlit með félagaskiptum leikmanna og samningum leikmanna við aðildarfélög KSÍ. Nefndin starfar skv. reglugerð KSÍ um samninga og stöðu félaga og leikmanna og reglugerð KSÍ um félagaskipti leikmanna.

29.2. Um hæfi þeirra sem skipa samninga- og félagaskiptanefnd skal farið eftir hæfisreglum stjórnsýslulaga. Þeir sem skipaðir eru í samninga- og félagaskiptanefnd skulu ekki sitja í stjórnum aðildarfélaga.

30. grein - Aðrar nefndir

30.1. Knattspyrnuþing KSÍ getur skipað sérstakar tímabundnar nefndir, sem starfa á milli knattspyrnuþinga, til að fjalla um málefni, sem nánar eru ákvörðuð á þinginu.

30.2 Stjórn KSÍ getur skipað sérstakar nefndir til að fjalla um afmörkuð verkefni.

VII. AGA- OG ÚRSKURÐARNEFND KSÍ

31. grein - Aga- og úrskurðarnefnd

31.1. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ skal skipuð formanni og tveimur varaformönnum, sem skulu allir löglærðir, og auk þeirra fimm mönnum. Skulu þeir kosnir á knattspyrnuþingi til tveggja ára í senn.

31.2. Nefndin starfar skv. aga- og úrskurðarreglum KSÍ og skulu a. m. k. þrír taka þátt í ákvörðun nefndarinnar og skal a. m. k. einn þeirra vera formaður eða varaformaður.

31.3. Nefndin getur tekið ákvörðun um viðurlög skv. lögum þessum, reglugerðum KSÍ og aga- og úrskurðarreglum KSÍ gegn aðildarfélögum, forráðamönnum, leikmönnum, þjálfurum, starfsmönnum, umboðsmönnum og öðrum þeim, sem eru innan vébanda aðildarfélaga KSÍ.

31.4. Um hæfi þeirra sem skipa aga- og úrskurðarnefnd skal farið eftir hæfisreglum stjórnsýslulaga. Þeir sem skipaðir eru í aga- og úrskurðarnefnd skulu hvorki sitja í stjórn knattspyrnusambandsins eða stjórnum aðildarfélaga.

VIII. KJARANEFND

32. grein - Skipan og hlutverk

32.1. Kjaranefnd er skipuð þremur fulltrúum og einum til vara og er kosin á ársþingi KSÍ til tveggja ára.

32.2. Hlutverk nefndarinnar er eftirfarandi:

a. Að gera tillögu til stjórnar KSÍ um laun, viðmiðun launabreytinga og starfstengd kjör formanns KSÍ og ganga frá launasamningi við hann að fenginni staðfestingu stjórnar KSÍ á tillögu nefndarinnar.
b. Að gera tillögu til stjórnar KSÍ að reglum varðandi greiðslu dagpeninga, útlagðan kostnað og ferðakostnaðar fulltrúa í stjórn KSÍ og annarra sem fallið gætu undir slíkar reglur.
c. Að gera tillögu að öðrum þeim reglum sem lúta að greiðslum til kjörinna fulltrúa og fulltrúa í fastanefndum KSÍ.

32.3. Kjaranefnd skal halda fundargerðir um fundi sína og leggja fyrir stjórn KSÍ.  Ákvarðanir nefndarinnar skulu bókaðar og rökstuddar. 

32.4. Um hæfi þeirra sem kosnir eru í kjaranefnd skal farið eftir hæfisreglum stjórnsýslulaga. Þeir sem kosnir eru í kjaranefnd skulu ekki sitja í stjórn KSÍ eða stjórnum aðildarfélaga.

IX. KNATTSPYRNUMÓT

33. grein - Knattspyrnumót

33.1. Í Íslandsmóti meistaraflokks karla skal þátttökuliðum skipt í 7 deildir, efsta deild skal skipuð 12 liðum, 1. deild 12 liðum, 2. deild 12 liðum, 3 deild 12 liðum, 4. deild 10 liðum, 5. deild 16 liðum sem leika í tveimur riðlum og utandeild skal skipuð þeim aðilum, sem ekki eiga lið í sex efstu deildunum.

33.2. Í Íslandsmóti meistaraflokks kvenna skal þátttökuliðum skipt í 3 deildir, efsta deild skal skipuð 10 liðum, 1. deild 10 liðum og 2. deild skal skipuð þeim aðilum, sem ekki eiga lið í tveimur efstu deildunum.

33.3. Stjórn KSÍ getur ákveðið að gefa deildum karla og kvenna nafn.

33.4. Í landsdeildum karla og kvenna er leikin að lágmarki tvöföld umferð þar sem hvert lið leikur tvo leiki gegn hverju hinna liðanna, heima og heiman. Í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót skal kveðið nánar á um fyrirkomulag móta, s.s. fjölda leikja í hverri deild, reglur um færslu liða á milli deilda og deildarmeistara. Breytingar á keppnisfyrirkomulagi skulu gerðar að höfðu samráði við þátttökulið þeirra deilda sem breytingin hefur áhrif á. Breytingar skulu kynntar aðildarfélögum KSÍ eigi síðar en 15. nóvember ár hvert fyrir komandi keppnistímabil. Endanlegar reglur um keppnisfyrirkomulag skulu vera staðfestar í reglugerð eigi síðar en 1. desember ár hvert fyrir komandi keppnistímabil.

33.5. Öll knattspyrnumót og knattspyrnuleikir skulu fara fram samkvæmt lögum þessum og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og leitast skal við að þau séu í samræmi við móta- og keppendareglum ÍSÍ, svo og starfsreglur knattspyrnuráða, sem samþykktar hafa verið af viðkomandi héraðssambandi og staðfestar af KSÍ.

Ákvæði til bráðabirgða vegna 2022: 

 1. Þrátt fyrir ákvæði 33.1 skal þátttökuliðum í Íslandsmóti meistaraflokks karla keppnistímabilið 2022 skipt í 5 deildir, efsta deild skal skipuð 12 liðum, 1. deild 12 liðum, 2. deild 12 liðum, 3 deild 12 liðum og 4. deild skal skipuð þeim aðilum, sem ekki eiga lið í fjórum efstu deildunum.
 2. Þrátt fyrir ákvæði 33.4 er stjórn KSÍ heimilt að breyta ákvæðum í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót um mótafyrirkomulag Íslandsmóts efstu deildar karla þannig að breytingarnar taki til fyrirkomulags efstu deildar keppnistímabilið 2022, og skulu slíkar breytingar staðfestar í reglugerð eigi síðar en 1. apríl 2022.

34. grein - Hlutafélög

34.1. Þátttökuréttur í mótum á vegum KSÍ er bundinn við aðildarfélög. Aðildarfélög geta með skriflegum samningi falið sérstökum hlutafélögum rekstur tiltekinna þátta starfsemi sinnar. Aðildarfélagið skal fara með meirihluta atkvæða á aðalfundi hlutafélagsins og megintilgangur hlutafélagsins skal vera bundinn við rekstur íþróttafélags og tengd efni. Eftirfarandi skal koma fram í samningi aðila:

a. Hlutafélagið skuldbindur sig til að fara eftir lögum þessum, ákvörðunum KSÍ, reglugerðum KSÍ, starfsreglum KSÍ og gangast undir allar þær sömu skyldur og aðildarfélög bera samkvæmt lögum þessum.
b. Leikmenn skulu vera félagar í aðildarfélaginu.
c. Aðildarfélagið skal halda áfram starfsemi sinni svo það fullnægi öllum kröfum sem gerðar eru til aðildar þess í lögum þessum.
d. Hlutafélagið getur með engum hætti framselt rétt sinn gagnvart aðildarfélaginu, hvaða nafni sem kann að nefnast.
e. Ef hlutafélagið verður gjaldþrota eða lagt niður með öðrum hætti þá færast öll réttindi skv. samningi aðila aftur til aðildarfélagsins.
f. Hlutafélagið skuldbindur sig til að upplýsa og afhenda KSÍ öll þau gögn sem krafist er varðandi rekstur félagsins og nær þetta einnig til leyfiskerfis KSÍ.
g. Samning aðila skal leggja fyrir stjórn KSÍ innan 7 daga frá dagsetningu hans og tekur ekki gildi fyrr en við samþykki stjórnar KSÍ.

34.2. Ekki er heimilt að fleiri en eitt aðildarfélag sé með samning við eitt og sama hlutafélagið né að hlutafélagið eigi hluti í öðru hlutafélagi sem er með slíkan samning við aðildarfélag. Jafnframt mega eigendur hlutafélags með samning við aðildarfélag ekki vera í nánum tengslum við annan aðila með slíkan samning. Með nánum tenglum er átt við þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast, með beinum eða óbeinum hætti, eignarhaldi á minnst 5% hlutafjár eða yfirráð yfir 5% af atkvæðisrétti.

34.3. Ef brotið er gegn ákvæði þessu þá getur stjórn KSÍ fellt úr gildi samning sem áður var samþykktur.

34.4 Stjórn KSÍ setur nánari reglur varðandi hlutafélög í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og/eða öðrum reglugerðum þar sem við á.

35. grein - Leyfiskerfi

35.1. Aðildarfélög, sem eiga rétt á þátttöku í efstu og 1. deild Íslandsmótsins í meistaraflokki karla og í efstu deild Íslandsmótsins í meistaraflokki kvenna skulu árlega sækja um þátttökuleyfi.

35.2. Til þess að fá þátttökuleyfi skulu félögin uppfylla tilteknar kröfur KSÍ varðandi skipulag, aðstöðu og fjármál. Kröfurnar eru byggðar á samræmdum staðli UEFA og íslenskum aðstæðum.

35.3. Stjórn KSÍ skal gefa út leyfisreglugerð KSÍ, sem gerir grein fyrir ofangreindum kröfum og leyfisferlinu. Leyfisreglugerðin skal vera samþykkt af UEFA.

35.4. Leyfisnefndir, kjörnar á knattspyrnuþingi, stýra leyfisferlinu ásamt leyfisstjóra sem starfar á skrifstofu KSÍ.

X. ÁFRÝJUNARDÓMSTÓLL KSÍ

36. grein – Almennt

36.1. Áfrýjunardómstóll KSÍ starfar skv. lögum þessum og reglugerð KSÍ um áfrýjunardómstól.

37. grein – Skipun

37.1. Áfrýjunardómstóll KSÍ skal skipaður 3 löglærðum dómurum og 5 löglærðum til vara.

37.2. Dómarar skulu kosnir á reglulegu knattspyrnuþingi til setu fram að næsta reglulega knattspyrnuþingi og kýs dómstóllinn sér forseta úr hópi aðalmanna.

37.3. Dómstóllinn starfar skv. lögum þessum og reglugerð KSÍ um áfrýjunardómstól KSÍ og skulu a. m. k. þrír dómarar fara með mál og skipar forseti í dóminn í hverju máli fyrir sig.

38. grein - Áfrýjanir

38.1. Dómstóllinn tekur fyrir áfrýjanir vegna úrskurða aga- og úrskurðarnefndar sem ekki eru endanlegir samkvæmt reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarnefnd.

38.2. Ákvarðanir dómstólsins eru endanlegar og bindandi fyrir málsaðila. Þó er heimilt að áfrýja til áfrýjunardómstóls ÍSÍ þeim málum, sem hafa almennt gildi fyrir íþróttahreyfinguna í heild.

39. grein - Lögsaga o.fl.

39.1. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ og áfrýjunardómstóll KSÍ hafa fullnaðarlögsögu yfir þeim málefnum sem koma upp innan vébanda Knattspyrnusambands Íslands, sem varða lög og reglugerðir KSÍ eftir því sem við á.

39.2. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ og áfrýjunardómstóll KSÍ skulu lúta lögum þessum og reglugerðum og skulu öll ágreiningsmál gagnvart aðildarfélögum KSÍ, forráðamönnum félaganna, leikmönnum, þjálfurum, liðsstjórum, umboðsmönnum og öðrum þeim sem eru innan vébanda aðildarfélaga KSÍ rekin fyrir aga- og úrskurðarnefnd KSÍ og áfrýjunardómstól KSÍ nema það sé sérstaklega heimilað í lögum eða reglugerðum KSÍ að reka málið fyrir nefndum innan KSÍ. Aldrei skal heimilt að reka ágreiningsmál vegna laga- og reglugerða KSÍ fyrir almennum dómstólum.

39.3. Ágreiningsmál aðila innan vébanda KSÍ gagnvart aðila innan vébanda erlends knattspyrnusambands skal fara með samkvæmt reglum FIFA eða UEFA og hefur FIFA eða UEFA lögsögu í slíkum málum. Ákvarðanir FIFA eða UEFA í slíkum málum eru endanlegar og bindandi fyrir alla aðila en ákvörðunum FIFA eða UEFA er hægt að skjóta til Íþróttadómstólsins (Court of Arbitration for Sport, skammstafað CAS) í Lausanne í Sviss sem leysir þá endanlega úr ágreiningsmálinu í samræmi við reglur um gerðardómsmeðferð mála á íþróttasviði (Code of Sports-related Arbitration). Er sú niðurstaða endanleg og bindandi fyrir aðila.

39.4. Um hæfi þeirra sem skipa áfrýjunardómstól KSÍ skal farið eftir hæfisreglum stjórnsýslulaga.  Þeir sem skipaðir eru í áfrýjunardómstól KSÍ skulu hvorki sitja í stjórn knattspyrnusambandsins eða stjórnum aðildarfélaga.

XI. VIÐURLÖG OG REFSINGAR

40. grein - Viðurlög

40.1. Viðurlög við brotum á lögum þessum og reglugerðum KSÍ geta verið eftirfarandi gagnvart félögum:

a. Áminning.
b. Félagaskiptabann.
c. Leika án áhorfenda.
d. Leika á hlutlausum velli.
e. Bann að leika á tilteknum leikvelli.
f. Ógilding leiks.
g. Brottvísun úr móti.
h. Ósigur í leik.
i. Stig frádregin.
j. Fall í lægri deild.
k. Fésekt.
l. Dagsektir.

40.2. Viðurlög við brotum á lögum þessum og reglugerðum KSÍ geta verið eftirfarandi gagnvart einstaklingum:

a. Áminning.
b. Brottvísun.
c. Leikbann.
d. Bann frá búningsklefum og/eða varamannabekk.
e. Bann frá leikvangi.
f. Bann frá allri þátttöku í knattspyrnu.

XII. REIKNINGAR

41. grein - Reikningsárið

41.1. Reikningsár KSÍ er almanaksárið.

41.2. Reikningar KSÍ skulu undirritaðir af meirihluta stjórnar og framkvæmdastjóra.

41.3. Endurskoðendur KSÍ skulu vera löggiltir endurskoðendur og óháðir KSÍ.

41.4. Reikningar KSÍ skulu endurskoðaðir og áritaðir af kjörnum endurskoðanda.

XIII. ÝMIS ÁKVÆÐI

42. grein - Réttindi

42.1. KSÍ og félögin innan KSÍ eru eigendur alls réttar, sem tengist mótahaldi KSÍ og/eða öðrum viðburðum skipulögðum af KSÍ. Þessi réttur og hagnýting hans nær m.a. til hvers kyns fjárhagslegra réttinda, upptöku- og útsendingaréttinda af öllu tagi, t.d. í sjónvarpi, í útvarpi, á internetinu og í síma, markaðsréttinda, kynningar- og höfundarréttar að höfðu samráði aðila.

42.2.Lúti hagnýting réttinda, svo sem sjónvarpsréttinda, markaðsréttinda, nafnaréttinda deilda, sala auglýsinga og markaðssetning að ákveðnum deildum, fara félög í þeirri deild eða deildum, eða viðurkennd hagsmunasamtök þeirra, með samningsumboð og ráðstöfun allra réttinda.

43. grein - Heiðursformaður 

43.1. Knattspyrnuþing má kjósa heiðursformann Knattspyrnusambands Íslands, ef 4/5 mættra þingfulltrúa samþykkja kjörið.

43.2. Heiðursformenn KSÍ hafa rétt til setu á knattspyrnuþingum og hafa þar málfrelsi. Heiðursformenn KSÍ koma fram fyrir hönd sambandsins, þegar stjórn þess eða formaður kunna að óska og fela þeim það.

44. grein - Önnur atvik

44.1. Stjórn KSÍ hefur lokaákvörðun um öll þau málefni varðandi knattspyrnuna innan vébanda ÍSÍ, sem lög þessi eða reglugerðir KSÍ ná ekki sérstaklega til eða þegar meiriháttar utanaðkomandi atburðir krefjast þess.

45. grein - Sambandsslit

45.1. Tillögu um að leggja KSÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu knattspyrnuþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst 3/4 hluta atkvæða.

45.2. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þinggerðinni, og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulegs þings. Með fulltrúakjöri sínu til þess þings, taka aðilar afstöðu til tillögunnar. Verði tillagan samþykkt aftur, er það fullgild ákvörðun um að leggja KSÍ niður. Ákveður það þing síðan hvernig ráðstafa skuli eignum KSÍ, en þeim má aðeins verja til eflingar knattspyrnuíþróttar í landinu.

46. grein - Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi við samþykki þeirra á knattspyrnuþingi í febrúar 2020 og að lokinni staðfestingu framkvæmdastjórnar ÍSÍ og falla þá eldri lög úr gildi.

Samþykkt af ársþingi KSÍ 26. febrúar 2022.

Samþykkt af framkvæmdastjórn ÍSÍ 13. maí 2022.