Yngri landslið og skólanám

Nám leikmanna yngri landsliða í forgangi

Veturinn 2019-2020 kynnti KSÍ nýtt fyrirkomulag á æfingum yngri landsliða Íslands. Um er að ræða þriggja daga æfingadagskrá, að jafnaði tvisvar sinnum á skólaönn fyrir hvern árgang.  

KSÍ leggur mikla áherslu á góð samskipti við skólana og óskar eftir því að skólar gefi nemendum sínum leyfi til að taka þátt í þessum æfingum.  Afreksíþróttafólk verður að stunda sitt nám af fullum krafti og nemendum er gert það kleift í tengslum við æfingar og keppnisferðir á vegum KSÍ, m.a. með rafrænum hætti. Nám þeirra drengja og stúlkna sem spila fyrir landsliðin er í forgangi.  Sé einhver nemandi í þeirri stöðu að mega alls ekki missa úr skóla sökum námsárangurs, eða ef nemandi sem valinn hefur verið í landslið er ekki að sinna sínu námi af bestu getu, þá óskar KSÍ eftir að fá vitneskju um það frá viðkomandi skóla og leikmaðurinn verður ekki boðaður á æfingar.

Vorið 2019 var það fyrirkomulag tekið upp til reynslu að taka kennara með í keppnisferð til að aðstoða með nám. Með góðu samstarfi við skólana gátu leikmenn viðkomandi landsliðs klárað öll þau verkefni og próf sem fyrirhuguð voru á meðan keppnisferðinni stóð. Reynslan af þessu var mjög góð og því er stefnan að halda áfram á sömu braut – í æfingabúðum og keppnisferðum – með það fyrir augum að kennari sem er með liðinu í landsliðsverkefni geti þannig undirbúið og skipulagt próf og annað nám á rafrænan hátt, eða eins og hentar hverju sinni.