Sálfræði í knattspyrnu


Undanfarin ár hafa Knattspyrnusamband Íslands og Háskólinn í Reykjavík verið í samstarfi varðandi mælingar á hugrænni færni leikmanna æfingahópa Íslands í knattspyrnu. Í kjölfarið var ákveðið að gera sambærilegar mælingar á öllum 16 ára knattspyrnuiðkendum landsins. Markmiðið með þessum mælingum er að auka vitund leikmanna, þjálfara og foreldra á hugrænum þáttum í knattspyrnu, og hvernig þessir þrír hópar geta stuðlað að bætingu leikmanna á þessu sviði. 

Í framhaldi af þessum mælingum var gefin út bók sem nefnist „Sálfræði í Knattspyrnu“. Bókin er hugsuð sem grunnfræðsla á þessum hugrænu þáttum, og hvernig leikmenn geta farið að stunda hugræna færnisþjálfun sjálfir með aðstoð þjálfara og foreldra. Bókin á því jafnt við um leikmenn sem og þjálfara og foreldra, enda skiptir stuðningur þeirra við leikmanninn og manneskjuna sem þar er á bakvið miklu máli. 

Ritstjóri er Grímur Gunnarsson, sálfræðingur Knattspyrnusambands Íslands. Skrif þessarar bóka hófst þegar Grímur var nemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík þar sem leiðbeinandi hans var Dr. Hafrún Kristjánsdóttir forseti Íþróttafræðideildar við Háskólann í Reykjavík. 

Þess ber að nefna að eftirfarandi fræðsla er hugsuð sem grunnfræðsla um sálfræði í knattspyrnu (og í íþróttum almennt), og er því ekki tæmandi. Þessi bók kemur ekki í stað viðtalstíma hjá íþróttasálfræðiráðgjafa eða hjá sálfræðingi. Grímur hefur starfað undanfarin ár sem sálfræðingur Knattspyrnusambands Íslands ásamt því að sinna viðtölum á stofunni Heil-Heilsumiðstöð. Grímur starfar fyrst og fremst með íþróttafólki.

Markmið verkefnisins er að ungir iðkendur líti á hugræna færni sem færni sem hægt er að þjálfa eins og alla aðra færni í knattspyrnu.

Bókina má finna hér að neðan:

Sálfræði í knattspyrnu