Viðbragðsáætlun


Viðbragðsáætlun KSÍ vegna meintra alvarlegra brota einstaklinga

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í apríl 2024 að stofnaður yrði starfshópur sérfróðra aðila utan KSÍ sem falið yrði það verkefni að endurskoða viðbragðsáætlun KSÍ vegna meintra alvarlegra brota einstaklinga.  Starfshópurinn skilaði af sér tillögum í maí 2024 og stjórn KSÍ samþykkti tillögurnar í júní sama ár.

Hér að neðan má sjá orðalag viðbragðsáætlunar KSÍ (samþykkt af stjórn KSÍ 12. júní 2024):

Haft sé að leiðarljósi, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum og/eða í formlegri meðferð hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það gildir um leikmenn og starfslið landsliða Íslands. Stjórnendur skulu þó ávallt hafa svigrúm til að beita heilbrigðri skynsemi að teknu tilliti til atvika hvers máls þegar kemur að mati og ákvarðanatöku um val á leikmönnum eða starfsliði landsliða með hliðsjón af viðbragðsáætlun.

Nánar má lesa um verkefni starfshópsins, aðdraganda og tillögur í samantekt hér að neðan.

Almennt:

Viðbragðsáætlun getur ekki verið þannig orðuð að hún skyldi stjórnendur í öllum tilfellum til tiltekinna viðbragða. Mál geta verið ólík og fjölbreytt og er það nauðsynlegt að stjórnendur hafi svigrúm til að beita heilbrigðri skynsemi m.t.t. allra atvika. Í viðbragðsáætlun megi hins vegar vera almenn viðmið sem ná utan um flest mál sem upp koma og viðbrögð við þeim.

Setja þarf skýrari viðmið um það hvenær viðbragðsáætlun verður virk (upphafspunktur) og hvenær túlka megi svo að mál einstaklings sé ekki lengur til meðferðar (endapunktur).

Upphafspunktur:

  • Almennt má miða við þann tímapunkt þegar kæra hefur verið lögð fram hjá lögreglu og/eða þegar mál er tekið til formlegrar meðferðar hjá samskiptaráðgjafa. 
  • Þó verði, sem fyrr, að vera svigrúm til að beita heilbrigðri skynsemi. Viðbragðsáætlun megi, að mati hópsins, ekki gefa færi á að hana megi misnota, t.d. í hagræðingartilgangi.
  • Svigrúm verður að vera fyrir stjórnendur að bregðast við í máli, jafnvel mjög nýlegu máli, sem upplýsingar liggja fyrir um þó ekki endilega liggi fyrir kæra.

Endapunktur:

  • Viðbragðsáætlun KSÍ gerir ráð fyrir því viðmiði að sá sem sakaður er um brot nýtur ekki vafa þegar mál eru komin til meðferðar, þ.e. að viðkomandi skuli stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það sé eðlilegt enda gert af virðingu við hvert mál, til stuðnings þolanda og gert með ímynd KSÍ í huga.
  • Taka verði hæfilegt tillit til grundvallarreglu í sakamálum. Það er, með þeim hætti að þegar mál hafa verið felld niður, eða að loknum sýknudómi, þá megi einstaklingur njóta vafans þannig að mál teljist ekki vera til meðferðar frá þeim tímapunkti. Það eigi við þó svo ákvörðun um niðurfellingu sé kærð eða sýknudómi áfrýjað.
  • Vitanlega muni mál aftur teljast vera til meðferðar ef sýknudómi lægra dómstigs hefur verið snúið við eða ákvörðun um niðurfellingu hefur verið felld úr gildi. Því skuli, sem fyrr, haldið til haga að mál geti verið afar misjöfn og þó svo að viðmið í þessa veru sé sett, þá hafi stjórnendur ávallt svigrúm til annarra viðbragða að teknu tilliti til allra atvika.

Börn og ungmenni:

  • Mál barna- og ungmenna geta verið viðkvæmari og meira svigrúm þarf að vera um viðbrögð stjórnenda í slíkum málum. Almennt eigi þó að miða við sömu viðbragðsáætlun og fyrir þá sem eldri eru.
  • Eðlilegt er, þegar málum lýkur með skilorðsbundinni frestun ákæru, að það hafi sömu áhrif og niðurfelling máls enda um að ræða barn eða ungmenni. Þó, sem fyrr, er settur fyrirvari um fjölbreytileika mála og heilbrigða skynsemi stjórnenda.

Mengi:

  • Mikill munur getur verið á því hvers konar samningssamband er á milli KSÍ og þess einstaklings sem borinn er sökum eða grunaður um brot. Vegna þess eigi að einangra þessa viðbragðsáætlun aðeins við fulltrúa landsliða (leikmenn og starfslið). Ímynd vegi þyngra í ákvarðanatöku vegna fulltrúa landsliða og réttindi og samningssamband er öðruvísi.

Smellið hér til að skoða alla greinargerð starfshóps um viðbragðsáætlun