Stefnumótun KSÍ
Inngangur
Á undanförnum árum hefur samstaða þjóðarinnar spilað stórt hlutverk á tímum heimsfaraldurs og við vonum að sú samheldni verði enn til staðar á árum stefnumótunar KSÍ 2023-2026 – Frá grasrót til stórmóta.
Í kjölfar viðamikils samstarfs við UEFA Grow og þeirra stuðning við smíði stefnumótunarinnar eru þeir hlutir sem útlistaðir eru hér að neðan ekki einungis yfirlit yfir starfið þessi 4 ár, heldur einnig spennandi ferðalag sem við leggjum af stað í, þar sem allir hafa einhverju hlutverki að gegna. Okkar ástríða fyrir knattspyrnu, og sameiginlegt markmið okkar sem fámenn þjóð að ná árangri, skilur okkur frá öðrum þjóðum á alþjóðavettvangi. Stefnumótunin útlistar þau atriði sem drífa verkefnið áfram í von um að skapa bjarta framtíð fyrir íslenska knattspyrnu.
Áhugi þjóðarinnar á knattspyrnu og þátttaka í knattspyrnuhreyfingunni setur okkur í forystu íslenskrar íþróttahreyfingar. Á þessum 4 árum er það á okkar ábyrgð að hlúa að og halda í þennan áhuga og þátttöku svo hægt sé að ná sem bestum árangri, bæði innan sem utan vallar, með sérstakri áherslu á:
- Að þróa tækifæri fyrir þátttöku fólks
- Að nýta gögn til að styðja við þróun landsliða okkar
- Nánara samstarf við aðildarfélög okkar
- Þróun vandaðra innviða
- Að gera grein fyrir framlögum okkar til samfélagsmála og sjálfbærni
Nú þegar höfum við hafið gríðarmikla vinnu og árangur hennar orðinn sýnilegur sem er mjög hvetjandi að sjá. Við erum komin vel af stað, langt frá byrjunarreit þeirra viðmiða sem við byggjum á. Ein helsta vísbending þess árangurs er í því hvernig knattspyrna getur talist vera lífsstíll á Íslandi þar sem þúsundir barna, foreldra og forsjáraðila taka þátt á einn eða annan hátt innan aðildarfélaga okkar og stuðla þannig að stórkostlegu umhverfi knattspyrnunnar.
Nú viljum við byggja á þessu til framtíðar og erum staðráðin í því að yfirfæra þennan anda og eldmóð sem við búum yfir í yngstu flokkum og á unglingastigi, yfir á afreksumhverfi landsliða okkar og félagsliða, bæði karla og kvenna.
KSÍ er aðeins hluti hinnar gríðarstóru knattspyrnuhreyfingar á Íslandi og við munum ekki geta náð okkar markmiðum ein. Til að gera okkar sýn að veruleika þurfa þessi 4 ár að taka mið af þeirri samheldni sem við höfum sýnt sem þjóð að undanförnu. Við viljum þakka ykkur öllum fyrirfram fyrir ykkar stuðning við stefnumótunina og aðgerðaráætlunina – við hlökkum til að fara saman í vegferðina Frá grasrót til stórmóta.
- FIFA aðild 1947
- UEFA aðild 1954
- 32 starfsmenn í fullu starfi (skrifstofa, leikvangur, þjálfarar)
- Fjöldi stjórnarmanna – 14 (10 í aðalstjórn, þ.m.t. formaður, 4 í varastjórn)
- Fjöldi nefnda – 17 (þ.m.t. nefndir sem eru kosnar á ársþingi; án starfshópa)
- Staða A-landsliðs karla á styrkleikalista FIFA – 71 (desember 2023)
- Stærsti sigur (mótsleikur) 7-0 gegn Liechtenstein (mars 2023)
- Þátttaka á stórmótum – 1 Heimsmeistaramót (2018, riðlakeppni), 1 Evrópumeistaramót (2016, undanúrslit)
- Staða A-landsliðs kvenna á styrkleikalista FIFA – 15 (desember 2023)
- Stærsti sigur (mótsleikur) 12-0 gegn Eistlandi (september 2009)
- Þátttaka á stórmótum – 0 Heimsmeistaramót, 4 Evrópumeistaramót (2009, 2013, 2017, 2022, besti árangur 8-liða úrslit)
- Karlkyns leikmenn – 20000 (17 ára og yngri: 16000, 18 ára og eldri: 4000)
- Kvenkyns leikmenn – 10000 (17 ára og yngri: 9000, 18 ára og eldri: 1000)
- Karlkyns þjálfarar – 1720 sem hafa hlotið þjálfaramenntun KSÍ (25 KSÍ Pro)
- Kvenkyns þjálfarar – 380 sem hafa hlotið þjálfaramenntun KSÍ (4 KSÍ Pro)
- Fjöldi þjálfaranámskeiða á ári – Um 30, heildarfjöldi þátttakenda er um 400-600 að meðaltali.
- 90% af þjálfurum í grasrótinni eru með tilskilda menntun.
- Heildarfjöldi félaga – Um 100
- U.þ.b. 60 af 100 félögum hafa starfsemi yngri flokka
- Keppnisleikir (skipulagðir af KSÍ) frá 11-12 ára aldri – Yngri flokka mót (skipulögð af aðildarfélögum) frá 5 ára aldri
- Fjöldi deildarkeppna og liða
- Karlar 5 deildir
- Besta deildin. 12 lið, 22 umferðir – í kjölfarið er deildinni skipt í tvennt, 6 lið í efri helmingi, 6 lið í neðri helmingi, og 5 umferðir spilaðar í hvorum helmingi (neðstu 2 lið í neðri helmingi falla)
- Lengjudeildin. 12 lið, 22 umferðir og 2 umferðir í umspili (2 leikir í undanúrslitum, heima og heiman, 1 úrslitaleikur), (2 lið fara upp um deild, 2 lið falla)
- 2. deild 12 lið, 22 umferðir, (2 lið fara upp um deild, 2 lið falla)
- 3. deild 12 lið, 22 umferðir, (2 lið fara upp um deild, 2 lið falla)
- 4. deild 10 lið, 18 umferðir, (2 lið fara upp um deild, 2 lið falla)
- 5. deild 2 riðlar með 8 liðum, 14 umferðir og tvær umferðir í umspili þvert á riðla (undanúrslit heim/heiman, 1 úrslitaleikur) (2 lið fara upp um deild, 2 lið falla)
- Utandeild – 7 lið í riðli, 14 umferðir (2 lið fara upp um deild)
- Konur 3 deildir
- Besta deildin. 10 lið, 18 umferðir – í kjölfarið er deildinni skipt í tvennt, 6 lið í efri helmingi (5 umferðir), 4 lið í neðri helmingi (3 umferðir), (neðstu 2 lið í neðri helmingi falla)
- Lengjudeildin. 10 lið, 18 umferðir (2 lið fara upp um deild, 2 lið falla)
- 2. deild. 12 lið, 22 umferðir, (2 lið fara upp um deild)
- Karlar 5 deildir
- Karlkyns dómarar – U.þ.b. 600 (4 FIFA dómarar, 7 FIFA aðstoðardómarar)
- Kvenkyns dómarar – U.þ.b. 40 (1 FIFA dómari, 1 FIFA aðstoðardómari)
- Komdu í fótbolta: 60 félög, 1200 þátttakendur (aukning úr 33 félögum og 700 þátttakendum árið 2019)
- Knattspyrna er vinsælasta íþrótt á Íslandi samkvæmt mælingum.
- 56% þjóðarinnar hafa áhuga á knattspyrnu
- 70% karla (meðaltal í Evrópu er 63%)
- 42% kvenna (meðaltal í Evrópu er 34%)
- 56% þjóðarinnar hafa áhuga á knattspyrnu
Með því að byggja á þeim þáttum sem nefndir voru hér að framan mun framtíðarstarf okkar samrýmast eftirfarandi sýn, markmiðum og gildum, og við munum framkvæma aðgerðir og stýra verkefnum sem snerta á öllum stefnumótunarþáttum.
Sýn – Frá grasrót til stórmóta
Markmið – Þróa tækifæri til þátttöku í knattspyrnu fyrir alla, og með því skapa umhverfi og umgjörð sem vinnur jafnt að faglegum gæðum og samfélagslegum breytingum, sem skilar sér í knattspyrnuupplifun sem við getum öll verið stolt af.
Gildi – Við erum samheldin, bjóðum alla velkomna, erum heiðarleg, ákveðin í að gera vel, árangursdrifin og metnaðarfull.
Þátttaka – Þróa möguleika og tækifæri til þátttöku í knattspyrnu fyrir alla, óháð aldri, getu, tekjum eða kyni.
Afreksstarf – Þróa teymi sérfræðinga sem hafa aðgang að gögnum og öðrum nauðsynlegum tólum í þeim tilgangi að styðja sem best við landslið okkar og hámarka möguleika þeirra á að ná árangri.
Aðildarfélög – Halda áfram að efla og þróa reglulegt samtal við aðildarfélögin til að þekkja sem best þeirra stöðu og áskoranir, til að geta stutt við þeirra starf og verkefni eftir fremsta megni.
Innviðir – Tryggja stuðning til að byggja upp innviði og aðstöðu KSÍ, s.s. þjóðarleikvang og æfingasvæði, til að efla knattspyrnulega umgjörð og auka rekstrartekjur.
Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni – Gera grein fyrir áhrifum starfs okkar á samfélagið til að auka skilning almennings á því hlutverki sem við gegnum á Íslandi og í heimi knattspyrnunnar, umfram frammistöðu landsliða okkar.
Grunnstoðir þessarar stefnumótunar eru stjórnunarlegir og fjárhagslegir þættir, sem og víðtækt samstarf við innleiðingu.
Þrátt fyrir að knattspyrna sé sú íþrótt sem flestir á Íslandi tengjast og hafa áhuga á eru enn möguleikar fyrir fleiri einstaklinga til að taka þátt og upplifa knattspyrnu, með kostum þeirrar virkni sem henni fylgir og þeirrar vináttu sem hún skapar.
Lykilframmistöðuvísir (KPI) fyrir 2026: Þróa möguleika og tækifæri til þátttöku í knattspyrnu fyrir alla, óháð aldri, getu, tekjum eða kyni.
Við erum í þeirri forréttindastöðu á Íslandi hvað knattspyrnu varðar að mikill meirihluti landsmanna tengist íþróttinni nú þegar á einn eða annan hátt. Þessi tengsl byrja oft mjög snemma á lífsleið fólks og vegna þess er knattspyrna lífsstíll fyrir marga. Við erum stolt af því hvernig sú þátttaka skilar sér inn í félög um landið allt, til leikmanna, þjálfara og dómara. Þrátt fyrir að þessi tækifæri kunni að virka óendanleg fyrir ungmenni okkar, er staðreyndin sú að þessum tækifærum fækkar með aldri og getu, en við trúum því að það þurfi ekki að vera svo. Knattspyrna er fyrir alla og möguleikar til þátttöku, umfram þau sem eru í boði fyrir ungmenni okkar, þurfa að endurspeglast í því.
Landsliðin okkar eru helstu fyrirmyndir knattspyrnunnar á öllu landinu auk þess að leika lykilhlutverk tekjuöflunar. Öflugur stuðningur við þau mun efla vöxt íslenskrar knattspyrnu til margra ára.
Lykilframmistöðuvísir (KPI) fyrir 2026: Þróa teymi sérfræðinga sem hafa aðgang að gögnum og öðrum nauðsynlegum tólum í þeim tilgangi að styðja sem best við landslið okkar og hámarka möguleika þeirra á að ná árangri.
Hvernig sem okkar hlutverk þróast erum við ævinlega metin af þeim árangri sem við náum með landsliðin. Þrátt fyrir þessa þröngu sýn velta möguleikar okkar á að hafa áhrif á framlag og frammistöðu landsliða okkar oft á því hversu vel við náum árangri á mörgum öðrum stefnumótandi áherslusviðum okkar og leið leikmanna upp landsliðsstigann. Hvort sem það eru gæði innviða og aðstaða sem veita bestu mögulegu umgjörð fyrir afreksleikmenn okkar eða þær leiðir sem við höfum til að laða að og viðhalda hæfileikaríkasta fólki sem landið okkar hefur upp á að bjóða, þá er þróun afreksíþróttamanna tengd okkar vinnu á öllum sviðum knattspyrnunnar. Til þess að koma á fót viðeigandi umgjörð fyrir hæsta stig knattspyrnu á Íslandi munum við leggja áherslu á að viðhalda háum gæðastöðlum, efla sérfræðigetu okkar og samstarf við aðildarfélögin, til þess að vinna í sameiningu að betri árangri landsliða okkar.
Aðildarfélög KSÍ eru þungamiðja allrar knattspyrnu í landinu. Markmið félaganna er að tryggja umgjörð í hæsta gæðaflokki þegar kemur að því að móta bestu leikmenn, þjálfara og dómara sem Ísland hefur upp á að bjóða.
Lykilframmistöðuvísir (KPI) fyrir 2026: Halda áfram að efla og þróa reglulegt samtal við aðildarfélögin til að þekkja sem best þeirra stöðu og áskoranir, til að geta stutt við þeirra starf og verkefni eftir fremsta megni.
Áður en við lítum fram á veginn til þess sem við vonumst til að ná með aðildarfélögum okkar fyrir árið 2026, er vert að nefna að stefnumótunarferlið hefur gefið okkur tíma til að endurspegla og vera stolt af því umhverfi sem hefur verið þróað hingað til. Frá 5-6 ára aldri er ekki óalgengt að leikmenn æfi 3-4 sinnum í viku, hafi þjálfara með UEFA þjálfaramenntun, í skemmtilegu og lifandi umhverfi með fjölmörgum öðrum iðkendum. Þetta er draumastaða fyrir byrjendur í fótbolta. Þetta er sérstaklega raunin þegar horft er til þess að tækifærin eru í jafnvægi fyrir stráka og stelpur. Til að byggja á þessum árangri mun tímabil þessarar stefnumótunar snúa að því að þróa rétta starfsfólkið og umgjörð með aðildarfélögum okkar og tryggja að menntun og þróun sé í hæsta gæðaflokki. Með þessari nálgun reynum við að styðja sem best við aðildarfélög okkar í viðleitni þeirra við að ná árangri og dafna í sínu starfi og þátttöku í mótum og keppnum, í breyttu mótafyrirkomulagi þar sem við á.
Til að gera vinnu okkar kleift að blómstra bæði innan sem utan vallar þarf að ráðstafa bæði tíma og auðlindum í þróun og viðhald á innviðum. Gæði aðstöðu okkar og umhverfis verka sem viðmið fyrir það sem við gerum.
Frammistöðuvísir (KPI) fyrir 2026: Tryggja stuðning til að byggja upp innviði og aðstöðu KSÍ, s.s. þjóðarleikvang og æfingasvæði, til að efla knattspyrnulega umgjörð og auka rekstrartekjur.
Allir meðlimir knattspyrnuhreyfingarinnar ættu hafa aðgang að fyrsta flokks aðstöðu til að iðka og njóta knattspyrnu. Að því sögðu geta ólíkir landfræðilegir þættir og veðurfar haft áhrif á aðgengi að knattspyrnuaðstöðu eftir því hvar fólk býr. Þótt þessir þættir verði ávallt áskorun vitum við að þeir eru ekki ástæða þess að gæðamunur er á aðstöðu milli aðildarfélaga, né ástæða fyrir því að ekki skuli reisa nýja eða betri aðstöðu. Það þýðir einfaldlega að við þurfum að huga enn betur að staðsetningu, kostnaði og áætlanagerð mannvirkja þegar við leitum leiða við að þróa innviði okkar á skilvirkan hátt. Með allt þetta í huga skulu framkvæmdir ávallt vera byggðar á þeim þörfum sem eru fyrir hendi. Hvort sem það er í formi endurnýjunar á aðstöðu ungmenna eða nýrrar aðstöðu fyrir afreksíþróttamenn erum við staðráðin í því að byrja á því að þróa og bæta núverandi aðstöðu þar sem mögulegt er og fylgja bestu sjálfbærniaðferðum fyrir nýja uppbyggingu.
Með hið gríðarstóra hlutverk sem knattspyrnan leikur í okkar samfélagi ber okkur skylda til að vinna bæði á ábyrgan og sjálfbæran hátt, sem og að gera grein fyrir áhrifum vinnu okkar og hvernig aðrir geta lagt sitt af mörkum.
Lykilframmistöðuvísir (KPI) fyrir 2026: Gera grein fyrir áhrifum starfs okkar til að auka skilning almennings á því hlutverki sem við gegnum í samfélaginu á Íslandi og í heimi knattspyrnunnar, umfram frammistöðu landsliða okkar.
Með því að byggja á árangursríkri framkvæmd á stefnu KSÍ um samfélagsleg verkefni, mun næsta stig vinnu okkar snúa að því að virkja innri og ytri hagsmunaaðila til að hámarka áhrif aðgerða. Einnig munum við leitast eftir því að bæta leiðir til að meta og miðla aðgerðum okkar til almennings í þeirri von um að auka vitund og skilning á því sem við gerum til að styðja við samfélagið og stuðla að sjálfbærni.
Besta leiðin til að vinna þessi mál er að vera raunsæ í því hverju við viljum áorka. Þessi stefnumótun mun því ekki verða til þess að leysa öll vandamál sem kunna að blasa við. Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni knattspyrnunnar eru gríðarstór mál sem tengjast öllu starfi sem fer fram innan sambandsins. Því er samræmd og yfirveguð nálgun lykilatriði í vegferð okkar að breytingum til hins betra.
Þrátt fyrir að áhersla okkar þessi fjögur ár verði á þau fyrirhuguðu verkefni og aðgerðir sem þegar hefur verið fjallað um væri ekkert af því mögulegt án góðrar undirstöðu á sviði stjórnunar, fjármála og samstarfs. Þessar mikilvægu stoðir er grunnur allrar ákvarðanatöku og veita upphafspunkt sem allar stefnumarkandi aðgerðir eru unnar út frá. Með því að bæta þessa þætti er hægt að bæta alla vinnu sem fer fram innan sambandsins.
Stjórnun:
Góð framkvæmd fyrirhugaðra stefnumarkandi aðgerða okkar veltur á skilvirkni okkar sem knattspyrnusambands. Skilvirkni verður að vera forgangsatriði svo auðlindir okkar séu nýttar sem best til að veita okkar frábæra starfsfólki það sem þarf til að ná árangri, samhliða því að innræta sjálfsöryggi og traust í knattspyrnuhreyfinguna sem við þjónum.
Til að veita innsýn í sum fyrirhuguð verkefni og aðgerðir munum við:
- Rýna hlutverk, kjörtímabil og verklag við atkvæðagreiðslur stjórnar og nefnda svo unnt sé að styðja sem best við þróun knattspyrnuíþróttarinnar.
- Rýna skipurit og endurskoða eins og þörf krefur til að styðja sem best við áætlun um innleiðingu stefnumótunar og stuðla að skýru skipulagi verkefna og ábyrgðar innan samtakanna.
- Vera gagnsæ og opin í samskiptum, taka ábyrgð á verkefnum og aðgerðum, og miðla þekkingu innan knattspyrnuhreyfingarinnar.
Fjármagn:
Fjármagn er eldsneyti allra aðgerða. Án fjármagns og skilvirkrar skipulagningar fyrir áætlanir næstu ára getur vistkerfi knattspyrnunnar sem við höfum þróað staðnað. Til þess að vernda leikinn fyrir bæði núverandi og framtíðar kynslóðir þarf að fjölga tekjuleiðum og auka fjölbreytni. Við megum ekki reiða okkur á eina uppsprettu. Við þurfum að búa til virði úr þeim eignum sem við höfum og vega og meta útgjöld með afrakstur í huga.
Til að veita innsýn í sum verkefni og aðgerðir munum við:
- Kanna alþjóðlegar og evrópskar fjármögnunarleiðir, aðrar en þær sem nú eru til staðar frá og í gegnum UEFA og FIFA.
- Setja saman markaðs- og réttindapakka með það fyrir augum að hámarka virði eigna okkar og hugverka, og gæði þjónustunnar sem við veitum.
- Þróa leiðir sem styðja við tekjuöflun allrar knattspyrnuhreyfingarinnar.
Samstarf:
Áhrif okkar á knattspyrnu næst ekki með framlagi eins einstaklings heldur með framlagi allra hagsmunaaðila, bæði innan sem utan sjálfs knattspyrnusambandsins. Hvort sem það er með fjármögnun, þekkingu eða tíma, þá myndar ástríða okkar fyrir knattspyrnu tengingu og möguleika á gríðarlegum áhrifum innan hreyfingarinnar. Það er því mikilvægt að líta á samsetningu teymis KSÍ sem meira en þá sem eru inni á vellinum og skrifstofum okkar, heldur líta til allra þeirra sem hafa áhuga á og ástríðu fyrir knattspyrnu sem mögulegra samstarfsaðila til að styðja við okkar vinnu.
Til að veita innsýn í sum verkefni og aðgerðir munum við:
- Vinna náið með yfirvöldum, sveitarstjórnum og öðrum íþróttahreyfingum á Íslandi til að sýna fram á markmið okkar um samfélagslega breytingu.
- Viðhalda og styrkja tengsl við þá samstarfsaðila sem þegar eru hluti af okkar vegferð að styðja íslenska knattspyrnu.
- Vera markviss og sníða samskipti okkar að hverjum og einum þannig allir hagsmunaaðilar, bæði núverandi eða hugsanlegir, séu meðvitaðir um framlag okkar til samfélagsins og hvernig þeir geta tekið þátt.
Nú ætti það að vera ljóst að þrátt fyrir að hafa smíðað þessa stefnumótun okkar þá er það einungis hluti af því sem hefur verið skipulagt fyrir þróun knattspyrnu á Íslandi þessi fjögur ár. Á þessum tíma, með tilliti til þess að verkefni okkar og aðgerðir þurfi að vera sveigjanlegar til að mæta mögulegum breytingum, þá mun okkar skuldbinding við þau stefnumótandi áhersluatriði og undirstöður sem hefur verið fjallað um ekki breytast í ljósi þess að þetta er það sem þarf fyrir langtímaframþróun og vöxt íslenskrar knattspyrnu.
Sem hluti af þessari vegferð, og með aðstoð UEFA Grow, þá hefur verið ánægjulegt og gefandi að setja upp markvissa áætlun um langtíma nálgun á þróun knattspyrnu á Íslandi. Við viljum þakka öllum stjórnarmönnum, starfsmönnum, samstarfsaðilum og öðrum þátttakendum fyrir þeirra framlag og fyrir áframhaldandi viðleitni þeirra til að aðstoða við að gera markmið okkar að veruleika.