Stefnumótun KSÍ


Stefnumótun KSÍ 2018-2022

Stefnumótun Knattspyrnusambands Íslands fyrir árin 2018-2022 var samþykkt á 2205. fundi stjórnar KSÍ þann 13. apríl 2018. Í framhaldi af umfangsmikilli stefnumótunarvinnu var innleitt nýtt skipurit og skipulag fyrir skrifstofu KSÍ. Þá voru gildi KSÍ skilgreind ásamt framtíðarsýn og helstu markmiðum.

Stefnumótun Knattspyrnusambands Íslands - Samantekt

Gildi KSÍ

Virðing – Samstaða – Gleði – Framsækni

Framtíðarsýn KSÍ - árið 2022

Leiðtogahlutverk knattspyrnunnar

KSÍ er leiðandi á sviði íþrótta á Íslandi í krafti iðkendafjölda og mikilvægur þátttakandi í að stuðla að heilbrigði, hollu líferni og þroska ungmenna samkvæmt rannsóknum. Með markvissu starfi, einstöku samstarfi við stuðningsmenn og gegnsæjum vinnubrögðum hefur okkur tekist að fjölga iðkendum, þátttakendum og áhorfendum og styrkja ímynd sambandsins í huga almennings, félaganna og samstarfsaðila.

Árangur innan vallar

Tekist hefur að nýta meðbyr og lærdóm af góðum árangri landsliða til að festa Ísland í sessi í 1-2. styrkleikaflokki A-landsliða. Íslenskt félagslið hefur náð inn í riðlakeppni Evrópu og einstök samfella hefur náðst í félagsstarfi, þjálfun, ferlum og uppbyggingu aðstöðu fyrir okkar fólk frá yngri flokkum upp í afreksstarf.

Traustur fjárhagur

Hallalaus rekstrarsaga, verðmæt framlög til aðildarfélaga og vönduð ákvarðanataka í bland við skýra upplýsingagjöf hafa aukið einingu og traust innan hreyfingarinnar. Góður knattspyrnulegur árangur og markaðsstarf hefur rennt sterkum stoðum undir tekjuöflun sambandsins.

Aukin sjálfvirknivæðing

Markvisst hefur verið unnið í þróun ferla og kerfa í átt að aukinni sjálfvirkni. Við höfum markvisst haldið áfram að bæta aðstöðu og fræðslu. Hlutfall menntaðra þjálfara í yngri flokkum og umfang aðstöðu á hverja þúsund íbúa eiga sér fáar hliðstæður. Nýr þjóðarleikvangur sérsniðinn að þörfum okkar er kominn á byggingarstig. Við höfum náð miklum árangri í að skrásetja helstu ferla, auka áreiðanleika og aðgengi að upplýsingagrunnum og tryggja þannig samfellu í starfinu.

Aukin starfsánægja

Við höfum aukið frumkvæði okkar í samstarfi við aðildarfélögin og beitt okkur í að fjölga sjálfboðaliðum innan hreyfingarinnar. Starfsmannahópurinn er samheldinn, vinnur í anda gilda okkar og hreyfingarinnar í heild og hefur sett sér það markmið að viðhalda gleðinni í starfinu innan og utan vallar.

Helstu markmið

  • Fjölga þátttakendum.
  • Auka aðsókn á leiki.
  • Viðhalda góðri stöðu á heimslista.
  • Halda jákvæðu viðhorfi til KSÍ.
  • Halda jákvæðri afkomu og góðum framlögum til félaga.
  • Auka hlut rafrænna ferla og sjálfsafgreiðslu.
  • Viðhalda góðri starfsánægju
  • Efla samskipti við aðildarfélög