Samfélagsleg verkefni

Opinber stefna KSÍ um samfélagsleg verkefni 2023-2026

Knattspyrnusamband Íslands lítur á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn. Samfélagsleg verkefni og þátttaka í þeim er hluti af stefnumótun KSÍ fyrir árin 2023-2026.

Knattspyrnan nær til margra og það er eftir því tekið sem gerist í knattspyrnuhreyfingunni. Við erum stór hluti af enn stærra samfélagi og við getum haft jákvæð áhrif á það samfélag. KSÍ er með opinbera stefnu um samfélagsleg verkefni, þar sem nálgun KSÍ á slík verkefni er lýst. Þessi stefna hefur beina tengingu við heildarstefnumótun KSÍ fyrir árin 2023-2026.

KSÍ hefur unnið markvisst eftir þessari nálgun frá árinu 2018 og meðal verkefna má nefna Parkinson/Parkinsdóttir verkefni KSÍ sem hlaut Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands 2018, Samferða með KSÍ sem ætlað var að vekja athygli á góðgerðarsamtökunum Samferða og almennu mikilvægi góðgerðarsamtaka í íslensku samfélagi, auk eigin verkefna KSÍ - Ekki harka af þér höfuðhögg og Litblinda í fótbolta - sem bæði vöktu mikla athygli. Átaksverkefni KSÍ til að hvetja konur til þátttöku í knattspyrnu hefur vakið athygli. Samstarfsverkefni KSÍ og Barnaheilla er eitt stærsta samfélagsverkefni sem KSÍ hefur ráðist í og hófst það á haustmánuðum 2022.

Mikilvægasta markmið KSÍ með þátttöku í samfélagslegum verkefnum er að gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn í samfélaginu.  Það er okkar leiðarljós, og sú stefna sem við höfum markað í samfélagslegum verkefnum endurspeglar það.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ

Bakgrunnur

Knattspyrnuhreyfingin telur um 10% íslensku þjóðarinnar. Knattspyrnusamband Íslands lítur því á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn. Samfélagsleg verkefni og þátttaka í þeim er hluti af stefnumótun KSÍ fyrir árin 2023-2026 og gert er ráð fyrir samfélagslegum verkefnum í fjárhagsáætlun hvers árs.

Í samræmi við þetta hefur KSÍ ákveðið að velja að hámarki tvö samfélagsleg verkefni á hverju ári og einbeita sér að þeim. Gerður er samningur við tiltekna aðila um afmörkuð verkefni, sem getur þá staðið yfir í eitt ár eða lengur, eftir samkomulagi og umfangi verkefnis. Með þessari nálgun vill KSÍ einbeita sér að tilteknum verkefnum í tiltekinn tíma, og leggja kraft í þau til að þátttakan vegi sem þyngst og geri viðkomandi verkefni og samfélaginu raunverulegt og áþreifanlegt gagn.

Við öflun og afmörkun verkefna er sérstaklega horft til tengingar við knattspyrnu og jafnframt er litið til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (UN Sustainable Development Goals) og regluverks og stuðningsnets UEFA (UEFA HatTrick V).

Framtíðarsýn KSÍ er að knattspyrnustarfið, með tengingu við KSÍ, landslið, aðildarfélög eða knattspyrnuhreyfinguna í heild, verði talið álitlegur kostur til að koma samfélagslega mikilvægum verkefnum sem best á framfæri.


Val á verkefnum og umsóknir um samstarf

Áhugasömum samtökum eða öðrum aðilum býðst að sækja um formlegt samstarf við KSÍ um samfélagsleg verkefni. Með hverri umsókn þurfa að fylgja upplýsingar um viðkomandi samtök og þeirra fulltrúa/tengiliði eins og við á, ásamt tillögu að og lýsingu á verkefni og/eða málstað.

Grunnatriði samstarfsins:

  • Auglýsing frá samtökunum/samstarfsaðilanum eru á LED-skiltum (risaskjár og skilti við völl) á landsleikjum þegar við á og minnt er á verkefnið með ýmsum hætti í tengslum við landsleiki og önnur verkefni landsliða.
  • Reglulega eru unnar fréttir og annað efni um verkefnið til birtingar á vef og samfélagsmiðlum KSÍ, í samráði við viðkomandi samtök/samstarfsaðila og framgang verkefnisins.
  • Að auki styður KSÍ við framkvæmd viðkomandi verkefnis með ýmsum hætti.

Umsóknir skulu berast með tölvupósti til samskiptadeildar KSÍ (media@ksi.is) eigi síðar en fyrir lok nóvember á ári hverju og kemur þá verkefnið (sé það samþykkt) til framkvæmdar á komandi ári (eða samkvæmt samkomulagi).

Við val á samstarfsaðilum/verkefnum er horft til ýmissa þátta og heildarmyndin metin umfram einstaka þætti.  Sérstaklega skal horft til þess að verkefnið hafi tengingu við knattspyrnuíþróttina með einhverjum hætti, þó það sé ekki skylda.  KSÍ og samstarfsaðilinn smíða verkefnið í sameiningu (tilgangur og markmið, tímarammi, kostnaðarskipting, hagsmunahópar, lykilskilaboð, árangursmælingar, o.s.frv.). 

Markmið verða að vera mælanleg með einhverjum hætti og er það metið hverju sinni hvaða leið er best til þess fallin að mæla árangur af verkefninu í heild eða af verkhlutum (huglægir eða hlutlægir þættir).  Dæmi um mælanleg markmið eru ánægja með tiltekna þjónustu eða viðburð (huglægir þættir), fjöldi áhorfa á myndband á samfélagsmiðlum eða fjöldi þátttakenda í tilteknum viðburði (hlutlægir þættir).

Skoða þarf gaumgæfilega hvaða leiðir eru best til þess fallnar að nýta styrkleika KSÍ við að koma verkefninu og lykilskilaboðum þess á framfæri.  Styrkur KSÍ felst m.a. í því að ná til margra í samfélaginu (einstaklingar og fyrirtæki) í gegnum sína miðla (vefur, samfélagsmiðlar, viðburðir og annað).  Þennan styrk þarf að nýta eins og best verður á kosið og smíða framkvæmda- og samskiptaáætlun verkefnisins með þessar leiðir í huga. 

Verkefni 

Samfélagsleg verkefni eru í nokkrum flokkum og verkefnin af ýmsu tagi.  Hér að neðan eru nokkur dæmi um möguleg verkefni (ekki tæmandi listi) skipt niður í fjóra flokka. Flokkarnir eru byggðir á sjálfbænistefnu UEFA:

Jafnrétti og þátttaka:

Verkefni sem vinna gegn hvers kyns samfélagslegri útilokun (eins og rasisma, hómófóbíu, o.þ.h.).  Verkefni sem miða að því að hvetja konur sérstaklega til að gerast þátttakendur í knattspyrnu (sem starfsmenn félaga, sjálfboðaliðar, dómarar, þjálfarar). Verkefni sem hjálpa börnum innflytjenda að hefja æfingar hjá næsta knattspyrnufélagi.  Verkefni sem styðja við þátttöku einstaklinga sem glíma við fötlun eða aðrar takmarkanir (líkamlegar, andlegar, fjárhagslegar) - til að spila knattspyrnu eða taka þátt með öðrum hætti. Verkefni sem vekja athygli á ýmsum áskorunum og/eða hindrunum fólks sem tekur nú þegar þátt í knattspyrnu eða myndi vilja taka þátt (litblinda eða annað).

Heilsa og vellíðan:

Verkefni sem vekja athygli á þeim jákvæðu áhrifum sem þátttaka í knattspyrnu (að spila knattspyrnu eða taka þátt með öðrum hætti) getur haft á heilsu og vellíðan fólks (líkamlega, andlega), sér í lagi með verkefnum sem sýna að fólk með líkamlegar og/eða andlegar áskoranir er velkomið í knattspyrnufjölskylduna og getur tekið þátt í öruggum aðstæðum.

Verndun barna:

Verkefni með það að markmiði að koma í veg fyrir hvers kyns ofbeldi gegn börnum, til dæmis með fræðslu fyrir foreldra, iðkendur, starfsmenn og sjálfboðaliða hjá íþróttafélögum. Verkefni sem miða að því að bæta og/eða hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu barna.

Umhverfisvernd:

Uppbygging „grænnar“ menningar á vinnustaðnum KSÍ með þátttöku alls starfsfólks. Unnið verður markvisst að því að taka „græn skref“ í átt að sjálfbærari vinnustað. Verkefni sem stuðla að hringrásarhagkerfi fótboltaumhverfisins til dæmis grænir kostir við ferðalög á leiki.

Möguleg verkefni hafa verið greind, flest myndu henta í styttri verkefni (1 ár) á meðan önnur skapa tækifæri til að smíða langtímaverkefni (2-4 ár) og þurfa lengri tíma til undirbúnings.  Í verklagi KSÍ fyrir samfélagsleg verkefni kemur fram að hægt sé að sækja um samstarf við KSÍ á hverju ári og því verklagi er ætlað að tryggja að KSÍ geti sett fullan kraft í þau verkefni sem verða fyrir valinu og að sem flestir aðilar eigi möguleika á að ganga til samstarfs við KSÍ um slík verkefni.

Valin verkefni ættu að öllu jöfnu að vera í samræmi við heildarstefnumótun KSÍ, en engin verkefni verða þó útilokuð því sú staða getur komið upp að þrátt fyrir að tiltekið verkefni sé ekki með beina og augljósa tengingu við stefnumörkun KSÍ, þá getur það gefið jákvæða samfélagslega niðurstöðu og þannig um leið jákvæða niðurstöðu fyrir ímynd KSÍ.

Samstarfsaðilar, hagsmunaaðilar og stöðumat

Fullt samráð er haft við samstarfsaðila við smíði og framkvæmd verkefna og er metið hverju sinni hvernig best er að það samráð eigi sér stað og þá við hvaða hagsmunaaðila, eins og við á. 

Hagsmunaaðilar

Innra starf KSÍ:  Stjórn, starfsfólk, nefndir, starfshópar, landslið (leikmenn, þjálfarar og annað starfslið), KSÍ-dómarar.

Knattspyrnuhreyfingin:  Aðildarfélög, starfsfólk og aðrir fulltrúar félaga (sjálfboðaliðar og aðrir), leikmenn, dómarar, þjálfarar, stuðningsmenn og annað knattspyrnuáhugafólk, fjölmiðlar sem fjalla um knattspyrnu, leikmannasamtök, þjálfarasamtök, dómarasamtök, deildarsamtök.

Aðrir:  Yfirvöld (ríki og sveitarfélög), skólar og menntastofnanir/fræðasetur, almenningur, fjölmiðlar sem allajafna fjalla ekki um knattspyrnu, fyrirtæki, stofnanir, samtök, önnur íþróttasamtök (sérsambönd eða önnur).

Stöðumat og greining

KSÍ hefur ekki yfir stórum hópi starfsfólks að ráða, sem er veikleiki sem þarf að taka tillit til þegar skoða á og meta möguleg verkefni (ef ekki er tekið tillit til þessarar staðreyndar þá getur það verið ógnun við gæði hvers verkefnis, smíði þess og framkvæmd).  Þau verkefni sem KSÍ ræðst í verða að vera vel skilgreind og afmörkuð, viðráðanleg og raunhæf.  Styrkur KSÍ liggur í hraðri ákvarðanatöku, skilvirkni og stuttum boðleiðum, og í getu KSÍ til að skila af sér tiltölulega einföldum lausnum sem gefa góðan árangur, sér í lagi varðandi árveknisátök, þar sem samfélagsmiðlar KSÍ skapa tækifæri til að ná til umtalsvert margra Íslendinga. 

Taka þarf tillit til fyrrgreindra þátta við val og smíði á samfélagslegum verkefnum.  Allt efni (texti, myndbönd, myndefni eða annað), viðburðir eða aðrar leiðir sem eru nýttar til að vekja athygli á og kynna verkefni ættu að vera innan þess ramma sem settur er utan um verkefnið og þeirra takmarkana sem eru til staðar (fjármagn, mannafli, tími, o.s.frv.).

Árangursmat og mælikvarðar

Fyrir hvert verkefni ætti að skilgreina mælanleg og raunhæf markmið (SMART) og árangur þarf að meta með reglulegum hætti eins og hentar hverju verkefni. Árangursmælingar fyrri verkefna er hægt að nýta til hliðsjónar og við skilgreiningu markmiða fyrir ný verkefni af svipuðum toga.  Árangur verkefna má mæla með huglægum (álit) eða hlutlægum (tölfræði) mælikvörðum. 

Árangur er mældur a.m.k. einu sinni á ári (eða við lok hvers verkefnis), en æskilegt er að árangur sé jafnframt mældur með reglulegum hætti innan ársins eins og hentar og á við hverju sinni. 

Fylgst er vel og reglulega með árangri af árveknisátökum á samfélagsmiðlum KSÍ og er sá verkþáttur mældur reglulega yfir hvert tímabil.  Mælistikur (KPI´s) hvers árveknisátaks eru áætlaður árangur og virkni á samfélagsmiðlum KSÍ (áhorf, smellir, o.s.frv.).  Samanburður við fyrri verkefni af svipuðum toga gefa vísbendingar um stöðu núverandi verkefnis, og gefur þannig til kynna hvort verkefnið sé að ná viðeigandi mælistikum, og þá hvort breyta þurfi um nálgun.

Þar sem hentar, og í fullu samráði við samstarfsaðila/hagsmunaaðila eins og við á, ætti að setja verkefnum hlutlæg og auðmælanleg markmið (fjölgun fylgjenda á samfélagsmiðlum, fjölgun þátttakenda í verkefni, fjölgun og aukning fjárframlaga, o.s.frv.).

Greina ætti hagsmunaaðilum frá árangri af hverju verkefni eins og við á, a.m.k. við lok viðkomandi verkefnis (fréttatilkynning og/eða færsla á samfélagsmiðlum, grein(ar) í ársskýrslu, tölvupóstur til viðeigandi aðila, fundur/ráðstefnur eða aðrir viðburðir, o.s.frv.).  Með því að skuldbinda sig til að greina frá árangrinum með viðeigandi hætti sýnir KSÍ gegnsæi og ábyrgð gagnvart hverju verkefni og öllum hagsmunaaðilum.

Aðgerðaáætlun og samskipti

KSÍ starfar eftir samþykktri samskiptastefnu.  Í samskiptastefnunni er sérstaklega fjallað um innri og ytri samskipti.  Tryggt er að samskiptaáætlun fyrir samfélagsleg verkefni verði í samræmi við stefnu KSÍ í samfélagslegum verkefnum.  Hver og einn miðill KSÍ (vefur KSÍ og samfélagsmiðlar) hefur síðan skilgreint verklag, þar sem m.a. er fjallað um það efni sem birt er.

Innri samskipti:  Starfsfólk KSÍ er upplýst um samfélagsleg verkefni og árangur af þeim (eins og við á) á mánaðarlegum starfsmannafundum og í gegnum spjallforrit starfsfólks.

Ytri samskipti:  Sérstök samskiptaáætlun er smíðuð fyrir hvert samfélagslegt verkefni, þar sem lykilþættir eru skilgreindir (tilgangur og markmið, efni og miðlar, birtingaáætlun og dreifing á miðla, lykilskilaboð, markhópar, tímarammi, kostnaður/fjárfesting, og árangursmælingar).

Að gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn í samfélaginu.

  • Stefnumörkun KSÍ 2023-2026.
  • Samskiptastefna KSÍ (janúar 2021).
  • Samskiptaáætlanir verkefna (Samskiptadeild).
  • Vinnulag á miðlum KSÍ (Samskiptadeild).