• 10.02.2014 00:00
  • Pistlar

Frábær árangur landsliða

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Árið 2013 var afar gott knattspyrnuár. Árangur íslenskra liða í alþjóðlegri keppni var betri en nokkru sinni fyrr. Góður árangur leiðir oft af sér fleiri leiki og sú varð raunin. Landsleikir Íslands hafa aldrei verið fleiri á einu ári eða alls 75 leikir og Evrópuleikir félagsliða voru fleiri en nokkru sinni eða 22. Að auki fóru fram 2 leikir í Evrópukeppni félagsliða í Futsal. Árangurinn var í heildina þannig, að réttilega er liðið ár sagt hið besta í íslenskri knattspyrnusögu. Góð uppskera byggir á mörgum þáttum en fyrst og fremst á traustum grunni. Þessi grunnur er fyrst og síðast góð þjálfun og vel skipulagt mótahald. Ytri skilyrði hafa auðvitað sitt að segja og bætt aðstaða á allan hátt hefur aukið gæði þjálfunar og keppni. Vinsældir leiksins og fjármagn skiptir miklu og ekki síður þátttaka sjálfboðaliða sem halda starfinu gangandi á öllum stigum leiksins.

A landslið karla náði sínum besta árangri frá upphafi með því að komast alla leið í umspil um sæti í lokakeppni HM 2014 í Brasilíu.  Í raun má segja að íslenska liðið hafi verið einum hálfleik frá því að komast í lokakeppnina og þar með orðið lang fámennasta þjóðin í sögunni til að ná þeim áfanga.  Lokaspretturinn í riðlakeppninni var ævintýri líkastur og gríðarleg spenna í riðlinum allt til loka.  Frammistaða þessa liðs, sem enn er tiltölulega ungt að árum, í sumum leikjanna var hreint út sagt aðdáunarverð og eftir þessum árangri var tekið um allan heim. Athygli knattspyrnuheimsins hefur aldrei áður verið beint að Íslandi í jafn miklum mæli.  Að Ísland skuli eiga landslið sem hélt hreinu á móti Króatíu í fyrri leiknum í umspilinu, og kom til Zagreb í seinni leikinn með raunverulegan möguleika á að komast á HM í Brasilíu í farteskinu, er nokkuð sem fæstir höfðu reiknað með.  Vonbrigðin voru því auðvitað gríðarleg þegar úrslitin lágu fyrir, en engu að síður geta Íslendingar borið höfuðið hátt og stefnan hefur verið sett á úrslitakeppni EM í Frakklandi 2016.  Þar munu í fyrsta skipti 24 þjóðir taka þátt og ljóst að margar þjóðir eygja þar möguleikann á að komast í lokakeppni stórmóts.  Ísland er ein af þeim þjóðum og eins og árangurinn í undankeppni HM 2014 sýndi er sá möguleiki raunhæfur.

Líkt og A landslið karla náði A landslið kvenna sínum besta árangri frá upphafi þegar liðið hafnaði í 5.-8. sæti í úrslitakeppni EM sem fram fór í Svíþjóð í júlí.  Liðið var reynslunni ríkara eftir þátttöku í úrslitakeppni EM 2009 en leikmannahópurinn var að mestu sá sami. Liðið toppaði á réttum tíma og náði í sín fyrstu stig í úrslitakeppni. Sigurður Ragnar Eyjólfsson ákvað að stíga til hliðar í ágúst eftir 7 ára farsælt starf sem þjálfari liðsins og það sama gerði Guðni Kjartansson aðstoðarþjálfari. Freyr Alexandersson tók við liðinu og framundan er tími þróunar og breytinga, en vitanlega er stefnan sett á úrslitakeppni HM sem fram fer í Kanada 2015 og í fyrsta sinn taka þátt 24 þjóðir í úrslitakeppninni í stað 16 áður.

Frábær árangur yngri landsliða KSÍ setti einnig svip sinn á starfsárið. U19 og U17 liðin  komust öll í milliriðla í undankeppni EM og nýtt lið skipað drengjum fæddum 1999 og síðar vann sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikum ungmenna, sem fram fara í Kína 2014.  U21 landslið karla lék vel og náði góðum árangri í undankeppni EM 2015; vann 4 leiki af 5 og eygir von á umspilssæti komandi haust. Ungir íslenskir leikmenn vekja sem fyrr athygli fyrir góðan árangur og vel er fylgst með þeim á alþjóðlegum vettvangi.

Mótahald KSÍ var í föstum skorðum en landsdeildum í meistaraflokki karla var fjölgað um eina og leikið í fyrsta sinn í 10 liða 3. deild.  Breyting var gerð í keppni yngstu iðkenda, en keppni í 6. flokki fór fram i 5 manna liðum í stað 7 manna áður.  Það varð til þess að aldrei hafa fleiri lið tekið þátt í mótum KSÍ utanhúss eða alls 996.  KR varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í 26. sinn og setti um leið stigamet. Það sama gerði Stjarnan í meistaraflokki kvenna. Félagið varð Íslandsmeistari og vann alla leiki sína. Fram varð bikarmeistari í meistaraflokki karla eftir 24 ára bið eftir sigur á Stjörnunni og Breiðablik varð bikarmeistari í meistaraflokki kvenna í 10. sinn eftir sigur á Þór/KA. Glæsilegur árangur íslenskra félagsliða í Evrópukeppni setti svip sinn á síðastliðið starfsár. FH var nærri sæti í umspili Meistaradeildarinnar, en fór í umspil Evrópudeildarinnar. Breiðablik féll úr leik eftir vítaspyrnukeppni á Laugardalsvelli þegar í húfi var sæti í umspili Evrópudeildarinnar. ÍBV og KR komust í 2. umferð og alls léku því liðin fjögur 20 Evrópuleiki sem er út af fyrir sig met.

Áfram var haldið að auka hvers kyns fræðslu innan vébanda KSÍ og voru haldnir 26 fræðsluviðburðir, sem er met, auk þess sem þátttakendur á vegum KSÍ tóku þátt í fjölda námskeiða erlendis. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, sem stýrt hefur fræðslustarfi KSÍ einkar farsællega í 12 ár, ákvað að skipta um vettvang og einbeita sér að þjálfun félagsliðs.  Í stað hans var Arnar Bill Gunnarsson ráðinn fræðslustjóri og er mikils vænst af störfum hans.

Mikill vöxtur einkenndi starfsemi KSÍ á liðnu starfsári og má segja að það sé sama hvert litið er í því sambandi. Þessi vöxtur skapaðist að miklu leyti af góðum árangri á leikvellinum og aldrei fyrr hefur KSÍ staðið fyrir jafnmörgum landsleikjum á einu ári. Þetta setti sitt mark á fjármál KSÍ og kostnaður fór fram úr áætlun, en engu að síður var rekstrarhagnaður af hefðbundinni starfsemi upp á rúmar 44  milljónir króna. Með framlögum og styrkjum til aðildarfélaga (um 53 m. kr. í mannvirki og um 85 m. kr. í aðra styrk) og fjármagnsliðum varð niðurstaðan hins vegar tap upp á tæpar 28 milljónir króna. Fjárhagsstaða KSÍ er traust við þessi tímamót.

Stjórn KSÍ þakkar aðildarfélögunum fyrir afar gott knattspyrnustarf á liðnu starfsári. Samstarf við forystumenn félaganna var mikið og gott og ber að þakka þeim þeirra mikilvægu störf. Stjórn KSÍ þakkar einnig öllum þeim sem lagt hafa knattspyrnunni lið á árinu, s.s. dómurum, eftirlitsmönnum, nefndarmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og starfsmönnum hreyfingarinnar, og síðast en ekki síst öllum þeim fjölda iðkenda sem gera leikinn svo skemmtilegan.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ