Tengiliður við stuðningsmenn

SLO – Supporters Liaison Officer

Tengiliður við stuðningsmenn (Supporters Liaison Officer – SLO) er starfsheiti sem kemur til sem krafa gagnvart félagsliðum í gegnum leyfiskerfi UEFA.  Uppruni starfsins er hjá félögum í Þýskalandi og hafa þýsk knattspyrnufélög líklega þróað starfið og hlutverk þess lengst allra.  Sams konar tengiliði er líka að finna hjá t.d. enskum liðum og í fleiri löndum, en með eilítið öðruvísi sniði.  UEFA hefur hvatt knattspyrnusamböndin til að taka þetta upp og tilnefna tengilið við stuðningsmenn landsliða. 

Tengiliðurinn

Tengiliður milli stuðningsmannahópa landsliða Íslands í knattspyrnu og KSÍ (SLO) er skipaður af KSÍ.  SLO þarf að hafa þekkingu á því umhverfi sem stuðningsmenn lifa og hrærast í, enda eldheitur stuðningsmaður sjálfur.  SLO er sjálfboðaliði í þessu hlutverki og þiggur ekki laun fyrir (líkt og tengiliður við fatlaða stuðningsmenn - DAO).  

Sveinn Ásgeirsson (slo@ksi.is) er tengiliður KSÍ við stuðningsmenn landsliða.

Hlutverk

Hlutverk tengiliðs við stuðningsmenn er m.a. að viðhalda tengslum og afla nýrra tengsla við smáa sem stóra stuðningsmannahópa sem vilja sækja landsleiki og taka þátt í að skapa stemmningu á vellinum.  Hafi litlir eða stórir hópar stuðningsmanna, skipulagðir eða óskipulagðir, áhuga á að koma sjónarmiðum eða hugmyndum sínum á framfæri við KSÍ, um aðgengi að leikjum, aðstöðu, mögulega aðstoð eða þjónustu frá KSÍ, eða hvaðeina, er þeim bent á að hafa samband við þennan tengilið.  Tengiliðurinn er lykilmaður í því að byggja upp menningu og hefð fyrir öflugum stuðningsmannahópum landsliða Íslands í knattspyrnu. Jafnframt er tengiliður stuðningamannahópa landsliða Íslands tengiliður við stuðningsmannahópa þeirra gestaliða sem koma hingað til lands til að leika við íslensk landslið, og hann starfar með sama hætti eftir atvikum fyrir hönd íslenskra stuðningsmannahópa sem ferðast á útileiki landsliða og í lokakeppnir stórmóta. SLO starfar í nánum tengslum við öryggisstjóra í aðdraganda leikja og á leikdegi.

Tólfan og aðrir hópar

Rétt er að fram komi að nýir stuðningsmannahópar þurfa ekki að vera hluti af Tólfunni og enginn þarf að vera meðlimur í Tólfunni til að geta nýtt þau tengsl sem tengiliður við stuðningsmenn íslensku landsliðanna hefur.  Vonandi fjölgar þeim einstaklingum eða hópum sem vilja taka þátt í að skapa kraftmikla stemmningu á vellinum, hvort sem það er sem hluti af Tólfunni eða öðrum hópum sem sækja landsleiki.

Tenglar