Um leyfiskerfið

Stefnuyfirlýsing KSÍ um leyfiskerfið

Leyfiskerfinu er ætlað að bæta íþróttina á öllum sviðum

Það er kunnara en frá þurfi að greina að knattspyrnuíþróttin nýtur stöðugt vaxandi vinsælda um allan heim. Þær væntingar sem nú eru lagðar á knattspyrnufélög og koma frá stuðningsmönnum, félagsmönnum, leikmönnum, þjálfurum, styrktaraðilum, fjölmiðlum, almenningi og yfirvöldum ríkis og sveitarfélaga eru ekki lengur eingöngu íþróttalegs eðlis. Starfsemi félaga í fremstu röð knattspyrnunnar líkist æ meir þjónustu fyrirtækis.

 Til þess að bregðast við þessari þróun ákvað Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) að koma á leyfiskerfi til þess að bæta íþróttina á öllum sviðum. UEFA ákvað að öll félög sem taka þátt í Evrópukeppni frá og með haustinu 2004 skuli hafa útgefið leyfi frá knattspyrnusambandi sínu. Í kerfinu verða félög að mæta lágmarkskröfum UEFA á 5 sviðum.

 Knattspyrnusamband Íslands ákvað í kjölfarið að taka upp leyfiskerfi í efstu deild karla 2003 þannig að þau félög sem ynnu sér rétt til að leika í Evrópukeppni hefðu tilskilið leyfi KSÍ. Fyrir keppnistímabilið 2007 var leyfiskerfið síðan útvíkkað, þannig að það náði einnig til 1. deildar og undirgangast nú tvær efstu deildir Íslandsmóts karla kerfið. Leyfiskerfi var jafnframt tekið upp í efstu deild kvenna fyrir keppnistímabilið 2021 og var það stórt framfaraskref fyrir kvennaknattspyrnu á Íslandi.

 Leyfiskerfið á að gera félögum kleift að bæta skipulag sitt samkvæmt viðurkenndum lágmarksviðmiðum, gera fjármál íþróttarinnar sýnilegri sem ætti að leiða til aukinnar tiltrúar fjárfesta og meiri fjárfestinga utanaðkomandi aðila í íþróttinni, og bæta öryggi og ánægju áhorfenda á leið til leiks, meðan á leik stendur og að honum loknum. Knattspyrnan þarf að veita viðskiptavinum sínum fyrsta flokks þjónustu. Jafnframt þarf að bjóða upp á vöru sem höfðar jafnt til sjónvarps og styrktaraðila.

 KSÍ skuldbindur sig til að fylgja öllum viðeigandi lögum og reglugerðum, starfsreglum og siðferðilegum gildum og að fylgja Leyfisstaðli UEFA að fullu og mun gangast undir frammistöðumat á ári hverju, sem framkvæmt verður af hlutlausum aðila. Í framhaldi af árlegu frammistöðumati mun KSÍ skoða hvort úrbóta sé þörf. Jafnframt skuldbindur KSÍ sig til að góð þjónusta og trúnaður gagnvart leyfisumsækjendum verði ávallt í fyrirrúmi.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ

Stefnuyfirlýsingin á pdf-formi

Um leyfiskerfi KSÍ:  Kröfur og markmið

Leyfiskerfi KSÍ tekur mið af lágmarkskröfum UEFA nema þar sem UEFA hefur samþykkt undanþágu en undanþága er aðeins veitt til eins árs í senn.

Með leyfiskerfi í efstu tveimur deildum Íslandsmóts meistaraflokks karla er leitast við að ná fram ákveðnum markmiðum.

Mælanleg markmið eru sett á ári hverju í tengslum við árlegt endurmat.

Með Leyfiskerfi KSÍ (og Leyfiskerfi UEFA) leitast UEFA og KSÍ við að ná eftirfarandi markmiðum:

  • a) Að efla frekar og auka sífellt gæði á öllum sviðum knattspyrnunnar á Íslandi (og í Evrópu), ásamt aukinni áherslu á uppeldi ungra leikmanna,
  • b) Að tryggja framvindu Evrópukeppna félagsliða yfir keppnistímabilið.
  • c) Að fylgjast með því að sanngirni og heiðarleiki hvað varðar fjármál sé hafður að leiðarljósi í mótunum.
  • d) Að þróa samræmd viðmið fyrir félagslið hvað varðar fjárhagslegar, knattspyrnulegar, lagalegar, starfsmannahaldslegar, stjórnunarlegar og mannvirkjalegar forsendur um alla Evrópu.
  • e) Að tryggja að stjórnun og skipulag hvers félags sé traust.
  • f) Að bæta knattspyrnumannvirki félaga til að sjá leikmönnum, áhorfendum og fulltrúum fjölmiðla fyrir vel búnum, vel staðsettum og öruggum leikvöngum, sem henta fyrir íslenskar aðstæður.
  • g) Að efnahagsleg og fjárhagsleg geta félaga batni, gegnsæi og trúverðugleiki þeirra aukist, og nauðsynleg áhersla sé lögð á að félögin standi skil á skuldbindingum sínum.

Með Leyfiskerfi KSÍ leitast KSÍ sérstaklega við að ná eftirfarandi markmiðum:

  • a) Að þjálfun og umönnun ungra leikmanna í félögunum verði efld og sé ætíð höfð í fyrirrúmi.
  • b) Að draga úr mun á milli efstu deildar og 1. deildar karla með því að auka gæðakröfur í 1. deild.

Félögin verða að uppfylla ákveðnar forsendur í fimm flokkum:

  • Knattspyrnulegar forsendur
  • Mannvirkjaforsendur
  • Starfsfólk og stjórnun
  • Lagalegar forsendur
  • Fjárhagslegar forsendur

1 - Knattspyrnulegar forsendur

Markmið knattspyrnulegu forsendnanna eru eftirfarandi:

  • Leyfisumsækjendur þurfa að vera með áætlun um knattspyrnulega þjálfun fyrir yngri leikmenn með gæði að leiðarljósi.
  • Leyfisumsækjendur skulu sjá um knattspyrnulega þjálfun yngri leikmanna og jafnframt styðja þá í að afla sér annarrar menntunar.
  • Leyfisumsækjendur skulu gæta þess að leikmenn njóti læknisþjónustu eftir þörfum.
  • Leyfisumsækjendur skulu efla háttvísi (fair play) innan vallar og utan og bæta skilning á dómgæslu hjá öllum sem koma að knattspyrnuleik (dómurum, leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum).

2 - Mannvirkjaforsendur

Markmiðin með mannvirkjaforsendunum eru að:

  • Leyfisumsækjandi hafi aðgang að vottuðum leikvangi fyrir leiki jafnt í Evrópumótum félagsliða sem mótum innanlands, sem hann hefur unnið sér rétt til að taka þátt í, þar sem áhorfendur, fjölmiðlar og aðrir njóta leiks í vel búnu, öruggu, þægilegu og vinsamlegu umhverfi.
  • Heppileg æfingaaðstaða sé í boði fyrir leikmenn félaganna til að stuðla að bættri leiktækni þeirra.

3 - Starfsfólk og stjórnun - forsendur

Kröfurnar eiga að tryggja að:

  • Félagið sé rekið á fagmannlegan hátt.
  • Vel menntaðir, hæfir og færir sérfræðingar með ákveðna þekkingu og reynslu séu tiltækir fyrir knattspyrnufélagið.
  • Leikmenn meistaraflokks og annarra liða séu þjálfaðir af hæfum þjálfurum sem bæta frammistöðu þeirra og njóti jafnframt aðstoðar hæfs sjúkrastarfsliðs eftir þörfum.

4 - Lagalegar forsendur

  • Lagalegur grundvöllur félagsins.
  • Sjálfstæði í ákvarðanatöku.
  • Aðild að KSÍ og ÍSÍ.

5 - Fjárhagslegar forsendur

Fjárhagslegu forsendurnar beinast fyrst og fremst að eftirfarandi:

  • Að bæta efnahagslega og fjárhagslega getu félaga,
  • Að auka gegnsæi og trúverðugleika félaga,
  • Að mikilvægir hagsmunir lánardrottna séu hafðir í fyrirrúmi,
  • Að vanskil séu ekki við leikmenn og þjálfara eða aðra aðila innan knattspyrnuhreyfingarinnar,
  • Að tryggja framvindu móta í gegnum keppnistímabilið, og
  • Að gæta þess að tekjum af Evrópumótum sé dreift á sanngjarnan hátt.

 

Vinnuferli leyfiskerfis KSÍ: