Barnaheill - Verndarar barna


„Við hjá Völsungi fengum fræðslu frá Barnaheillum og KSÍ og var þetta mjög fræðandi og þarft málefni. Við þökkum kærlega fyrir okkur“ – Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs.

KSÍ og Barnaheill – Save the Children á Íslandi sömdu á vormánuðum 2022 um tveggja ára samstarf um fræðsluverkefnið Verndarar barna með það að markmiði að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, þekkja einkenni ofbeldis og læra að bregðast við. Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn verður eitt af hverjum fimm börnum á Íslandi fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. 

Sérfræðingur frá Barnaheillum mun á þessu tveggja ára tímabili fara í heimsókn til knattspyrnufélaga um allt land. Bundnar eru miklar vonir við þátttöku félaganna og er markmið KSÍ og Barnaheilla að í lok samstarfsins hafi öll aðildarfélög KSÍ fengið heimsókn og fræðslu.

Öll þau sem koma á einhvern hátt að knattspyrnustarfi barna eru hvött til að mæta á fræðslu hjá sínu félagi. Starfsfólk á skrifstofu félagsins, þjálfarar, húsverðir, sjálfboðaliðar, foreldrar og allir sem finnst þeir eiga erindi. Fræðslan tekur fjóra klukkutíma og er aðildarfélögum KSÍ að kostnaðarlausu. 

Eins og fram kemur í stefnu KSÍ um samfélagsleg verkefni lítur Knattspyrnusamband Íslands á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn.

KSÍ og Barnaheill hvetja félögin til að hafa samband með tölvupósti á netfangið verndararbarna@barnaheill.is með ósk um dagsetningu á námskeiðinu og/eða fyrir nánari upplýsingar.