U20 karla - 0-3 tap gegn Englandi
U20 ára landslið karla tapaði 0-3 gegn Eglandi í vináttuleik, en leikurinn fór fram á Adams Park í High Wycombe.
England var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, voru mun meira með boltann en áttu í erfiðleikum með að skapa sér opin færi. Eftir 18. mínútna leik átti Danny Loader ágætan skalla framjá. Tveimur mínútum síðar fór skot Englands framhjá úr teignum.
Ísland komst betur og betur inn í leikinn þegar liða tók á fyrri hálfleik og þegar sjö mínútur voru eftir af honum komst Valdimar Þór Ingimundarson í gegn, en Billy Crellin í mark Englands náði boltanum.
Staðan markalaus í hálfleik.
England byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og strax eftir fimm mínútna leik skoraði Danny Loader eftir góðan sprett.
Á 57. mínútu var gerð sexföld skipting. Inn komu Þórir Jóhann Helgason, Ísak Óli Ólafsson, Jónatan Ingi Jónsson, Ágúst Eðvald Hlynsson, Viktor Örlygur Andrason og Guðmundur Andri Tryggvason. Útaf fóru Finnur Tómas Pálmason, Daníel Hafsteinsson, Alex Þór Hauksson, Kolbeinn Birgir Finnsson, Kolbeinn Þórðarson og Brynjólfur Darri Willumsson.
England hélt áfram að stjórna leiknum á meðan íslenska liðið varðist sóknum þeirra. Ian Poveda Ocampo skoraði tvö mörk með stuttu millibili, á 71. og 73. mínútu og staðan því orðin 3-0 fyrir Englandi.
Á 77. mínútu komu Stefán Árni Geirsson og Bjarki Steinn Bjarkason inn á. Útaf fóru þeir Davíð Ingvarsson og Valdimar Þór Ingimundarson.
Undir lok leiks var Ísak Óli nálægt því að skora, en skalli hans eftir hornspyrnu fór rétt framhjá.
Ekki litu fleiri færi dagsins ljós og 0-3 tap staðreynd gegn Englandi.