Verslun
Leit

Atkvæðagreiðsla á ársþingi KSÍ

Í 14. grein laga KSÍ er fjallað um atkvæðagreiðslur á ársþingi

14.1 Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á knattspyrnuþingi, nema um lagabreytingar sé að ræða, en þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða þingfulltrúa. Meiri en helmingur þingfulltrúa þurfa að vera mættir á knattspyrnuþing svo atkvæðagreiðsla teljist gild en að öðrum kosti skal boða til annars knattspyrnuþings innan 7 daga. 

14.2 Þingfulltrúar á knattspyrnuþingi greiða atkvæði um mál með handauppréttingu. Ef ¼ þingfulltrúa óska eftir skriflegri atkvæðagreiðslu, skal þingforseti verða við ósk þeirra. Kosning til stjórnar skal vera skrifleg. Þó er ávallt heimilt að kosningar á knattspyrnuþingi séu framkvæmdar með rafrænum hætti. 

14.3 Ákvarðanir sem teknar eru á knattspyrnuþingi skulu taka gildi þegar í stað nema annað sé ákveðið á knattspyrnuþingi. Stjórn KSÍ skal ljúka gerð og birtingu nýrra reglugerða eða breytinga á reglugerðum, sem knattspyrnuþing samþykkir, innan fjögurra vikna. 

Kosning stjórnar KSÍ

Í 17. grein laga KSÍ er fjallað um kosningu stjórnar KSÍ

17.1 Stjórn KSÍ er kosin á knattspyrnuþingi og hafa allir kjörnir þingfulltrúar atkvæðisrétt. Árlega skal kosið um fjóra stjórnarmenn. Kosning skal fara þannig fram: 

  1. Kosning formanns, annað hvert ár, til tveggja ára í senn. Formaður skal ekki sitja lengur en sex kjörtímabil samfleytt. 
  2. Kosning fjögurra manna í stjórn til tveggja ára. Tilnefning og staðfesting eins fulltrúa ÍTF til tveggja ára í stjórn KSÍ, skv. grein 16.2. Stjórnarmaður skal ekki sitja lengur en tíu kjörtímabil samfleytt. 
  3. Kosning 3ja manna til vara í stjórn til tveggja ára. Tilnefning og staðfesting eins fulltrúa ÍTF til vara í stjórn KSÍ, skv. grein 16.2. Kjör í varastjórn er ekki háð tímamörkum og rýrir ekki tímalengd til setu í stjórn ef viðkomandi er kjörinn/kjörin til stjórnarsetu. 

17.2 Þau sem bjóða sig fram til embætta sem kosið er um samkvæmt grein 17.1. skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða skattalögum. Óheimilt er að velja einstaklinga sem vitað er til að hafi hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 til starfa innan íþróttahreyfingarinnar. Þau sem kosin eru og staðfest í stjórn KSÍ og þau sem kosin eru og staðfest til vara í stjórn KSÍ skulu hvorki vera í launuðu starfi hjá aðildarfélögum KSÍ né sitja í stjórnum eða vera formaður ráða þeirra. 

17.3 Sá sem býður sig fram til formanns eða stjórnar skulu hafa skrifleg meðmæli aðildarfélaga sem fara samanlagt með a.m.k. 12 atkvæði á knattspyrnuþingi. 

17.4 Tilkynning um framboð til embætta sem kosið er um samkvæmt grein 17.1. og skrifleg meðmæli samkvæmt grein 17.3. skulu berast skrifstofu KSÍ minnst hálfum mánuði fyrir þing. Kjörnefnd er þó heimilt að samþykkja framboð sem fram kemur síðar ef nægjanlegur fjöldi hefur ekki tilkynnt framboð sitt innan tilkynningarfrests. 

17.5 Allar kosningar eru leynilegar og skriflegar nema frambjóðendur séu jafn margir og kjósa skal. Kosning skal vera bundin við þá sem gefa kost á sér og er atkvæði aðeins gilt, ef kosnir eru jafnmargir og kjósa á. 

17.6 Til þess að ná kjöri sem formaður KSÍ, þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu, skal kjósa á ný, bundinni kosningu, um þá tvo menn, sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða. Verði þeir jafnir skal kjósa á ný með sama hætti og verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. 

17.7 Við kosningu í önnur embætti á knattspyrnuþingi gildir sú regla, að þeir sem flest atkvæði fá eru rétt kjörnir. Fái fleiri en þeir, sem kjósa á, jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. apríl 2024