Grasrótarverðlaunum KSÍ er skipt upp í þrjá flokka: Grasrótarverkefni ársins, Grasrótarfélag ársins og Grasrótarpersóna ársins. Þetta er í annað sinn sem verðlaunum er þrískipt með þessum hætti.
Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margar flottar tilnefningar bárust í öllum þremur flokkunum í ár og greinilegt að grasrótarstarf í fótbolta er í miklum blóma víðs vegar um land. Það var verðugt verkefni að velja úr og margar tilnefningar komu til greina.
Grasrótarfélag KSÍ árið 2023 er Reynir Hellissandi fyrir jákvæð og heilsueflandi áhrif á samfélag sitt.
Í umsögn með tilnefningu Reynis H. segir m.a.: Félagið hefur haft gríðarlega mikil og jákvæð og heilsueflandi áhrif á samfélagið og haldið stórum hópi einstaklinga lengur í þessari fallegu íþrótt sem fótbolti er. Ekki má gleyma áhrifum heimildarmyndarinnar Heimaleikurinn sem slegið hefur í gegn og virðist ætla að sigra heiminn. Myndin, sem fjallar um langþráðan vígsluleik á Reynisvelli á Hellissandi, hefur nú þegar unnið til þriggja verðlauna á heimildamyndahátíðum erlendis og á þessu ári verður myndin sýnd á fjölmörgum hátíðum um allan heim. Í myndinni má sjá mannlegan og skemmtilegan vinkil sem flest knattspyrnuáhugafólk getur tengt við. Yngri flokkar starfa undir merki Víkings/Reynis og er haldið úti í samstarfi með nágrönnunum í Víking Ólafsvík. Þessir flokkar keppa svo í nafni Snæfellsnessamstarfsins með krökkum frá Grundarfirði og Stykkishólmi.
Á myndinni eru Gunnar Örn Arnarson stjórnarmaður hjá Reyni og markmaður og Kári Viðarsson formaður meistaraflokksráðs hjá Reyni og miðjumaður ásamt Sóleyju Guðmundsdóttur frá KSÍ