Samstarfsverkefni KSÍ og Bergsins Headspace, Tæklum tilfinningar, er umræðuefnið í nýjum heimildarþætti hjá UEFA.
Undanfarin misseri hefur UEFA undir merkjum "take care" verkefnisins notað heim knattspyrnunnar til að hvetja til heilbrigðari lífstíls. "Take Care" verkefnið er hugsað til þess að bjóða upp á fjölbreytt verkfæri sem styðja við starf knattspyrnusambanda, deilda, félaga og annarra hagaðila í knattspyrnu við að efla heilsu og vellíðan. Verkefnið er sérstaklega sniðið að lykiláhrifavöldum í lífi barna og ungmenna, svo sem foreldrum eða forráðamönnum, kennurum, þjálfurum og starfsfólki, með það að markmiði að hvetja til heilbrigðari lífsstíls og búa til jákvæðari venjur.
Verkefnið samanstendur af sex þáttum:
- Líkamleg hreyfing
- Næring
- Andleg heilsa
- Net- og skjáfíkn
- Vitundarvakning um vímuefni
- Umferðaröryggi
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér.
Samstarfsverkefni KSÍ og Bergsins er umfjöllunarefni í þættinum um andlega heilsu. Heimildarþátturinn fjallar um mikilvægi andlegrar heilsu og samspil hennar við knattspyrnuiðkun. Meðal þeirra sem koma fram í myndbandinu eru Rio Ferdinand, Andrés Iniesta, Luis Enriqu, Gianluigi Buffon og Davíð Ernir Kolbeins, starfsmaður KSÍ, ásamt þátttakendum í verkefninu.
Bergið Headspace og KSÍ standa saman að verkefninu „Tæklum tilfinningar“. Um er að ræða tvíþætt verkefni, annars vegar þar sem aðildarfélögum KSÍ býðst að fá fræðsluerindi frá Berginu fyrir unga þátttakendur (leikmenn, þjálfara eða dómara), og hins vegar þar sem ungmennum hjá aðildarfélögum KSÍ stendur til boða að koma í einstaklingsviðtal hjá Berginu.
Smelltu hér til að sjá myndbandið í heild