Íslenska kvennalandsliðið hækkaði sig upp um eitt sæti á nýjum styrkleikalista FIFA er gefinn var út í dag. Ísland er nú í 18. sæti listans og í því 11. ef aðeins eru taldar Evrópuþjóðir.
Bandaríkin tróna á toppi listans og Þjóðverjar koma þar á eftir. Næstu mótherjar Íslendinga, Slóvenar eru ein þeirra þjóða er hæst stökkva upp listann. Fara þeir upp um fimm sæti og eru í 54. sæti. Tveimur sætum þar fyrir ofan koma svo Grikkir sem mæta á Laugardalsvöllinn 26. júní. Frakkar, sem tróna á toppi riðils Íslands í undankeppni EM, eru hinsvegar í 8. sæti styrkleikalistans.
Næsti leikur Íslands verður við Slóveníu á degi kvennaknattspyrnunnar, laugardaginn 21. júní kl. 14:00.