John Toshack, landsliðsþjálfari Wales, hefur tilkynnt landsliðshóp sinn fyrir tvo vináttulandsleiki gegn Íslandi og Hollandi. Hann hefur tilkynnt 35 manna hóp og þar af eru sjö nýliðar.
Nánast allir leikmenn hópsins koma úr ensku deildarkeppninni og margir hverjir úr ensku úrvalsdeildinni. Þá er hinn 17 ára Aaron Ramsey úr Cardiff í hópnum en hann er eftirsóttur af mörgum liðum á Englandi og hefur ekki leikið A landsleik áður.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands, mun tilkynna hóp sinn næstkomandi miðvikudag.
Miðvikudagurinn 28. maí verður mikill landsleikjadagur hjá Íslendingum því kvennalandsliðið verður einnig í eldlínunni þennan dag. Þá sækir liðið Serba heima í riðlakeppni fyrir EM 2009 en þar er íslenska liðið í baráttunni um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.
Leikur Serbíu og Íslands hefst kl. 15:00 að íslenskum tíma en landsleikur Íslands og Wales hefst kl. 19:35 á Laugardalsvelli.