Verslun
Leit
Landslið
Knattspyrnusamband Frakklands
fff_nouveau

Ísland tapaði naumlega gegn Frakklandi í lokaumferð riðlakeppni Opna Norðurlandamótsins, sem fram fer í Þrándheimi í Noregi. Lokatölur leiksins voru 4-2, Frökkum í vil og komu tvö síðustu mörk franska liðsins undir lok leiksins.

Íslenska liðið lék vel lengst af í leiknum og leiddi með tveimur mörkum gegn einu í hálfleik. Sandra Sif Magnúsdóttir og Elísa Pálsdóttir gerðu mörk íslenska liðsins.

Í síðari hálfleik fór hitinn að segja til sín hjá íslenska liðinu, en um 35 stiga hiti var þegar leikurinn fór fram. Frakkar gengu á lagið og skoruðu þrjú mörk, þar af tvö undir lok leiksins eins og fyrr segir.

Leikurinn í dag var sá lang besti hjá íslenska liðinu í riðlakeppninni og voru okkar stúlkur síst lakari en þær frönsku.

Ísland leikur um 7. sætið á laugardag og hefst leikurinn kl. 09:00 að íslenskum tíma. Þegar þetta er ritað er ekki ljóst hvort mótherjarnir verða Finnar eða Hollendingar.