Íslenska karlalandsliðið beið lægri hlut gegn Hvít Rússum í fyrsta leik æfingamótsins á Möltu. Lokatölur urðu 2-0 fyrir Hvít Rússa eftir að staðan hafði verið 1-0 í hálfleik. Ísland leikur gegn Möltu á mánudaginn.
Leikurinn fór rólega af stað en eftir um 15 mínútna leik tók íslenska liðið yfirhöndina og stjórnaði leiknum. Færin létu þó á sér standa og á 32. mínútu skoruðu Hvít Rússar með sínu fyrsta skoti á markið. Íslenska liðið hélt áfram að sækja eftir markið og í lok fyrri hálfleiks fékk Tryggvi Guðmundsson mjög gott færi en það nýttist ekki.
Hvít Rússar fengu óskabyrjun í síðari hálfleik og bættu við marki eftir aðeins tveggja mínútna leik í síðari hálfleik. Eftir það róaðist leikurinn og það var ekki fyrr en þegar um 20 mínútur voru eftir að Íslendingar náðu yfirhöndinni í leiknum að nýju. Helgi Sigurðsson átti gott skot að marki og Gunnar Heiðar fékk gott færi þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum. Allt kom þó fyrir ekki og Hvít Rússar fóru með sigur af hólmi.
Íslendingar leika sinn annan leik á þessu móti þegar leikið verður við Möltu á mánudaginn. Hefst leikurinn kl. 18:45 að íslenskum tíma.
Hér að neðan má sjá stutta textalýsingu frá leiknum sem birt var meðan á leiknum stóð.
Leikurinn er hafinn á þjóðarleikvangi Möltu, aðstæður fínar og völlurinn mýkri heldur en æfingavöllur íslenska liðsins. Hitinn er 19 gráður á leikvellinum. Leikurinn fer rólega af stað, bæði lið að þreifa fyrir sér. Hvít Rússar fengu fyrstu hornspyrnu leiksins eftir um 10 mínútna leik og fyrsta hornspyrna Íslendinga kom eftir 12 mínútur. Engin færi hafa litið dagsins ljós á fyrstu 15 mínútunum.
Ísllenska liðið hefur tekið yfirhöndina í leiknum og eru líklegra liðið. Nokkrar góðar sóknir hafa litið dagsins ljós en færin látið á sér standa. Eitt þokkalegt færi hefur þó litið dagsins ljós en eftir hálftíma leik er staðan ennþá 0-0.
Hvít Rússar eru komnir yfir eftir 32. mínútna leik. Skot frá vítateigslínu hafnaði efst í horninu fjær, óverjandi fyrir Stefán Loga í markinu. Fysta skot Hvíta Rússlands á markið í leiknum. Ísllenska liðið hefur haft yfirhöndina í leiknum, spurning hvernig þeir bregðast við þessu marki? Ísland - Hvíta Rússand 0-1.
Staðan er 0-1 í hálfleik. Íslendingar hafa verið betri aðilinn í leiknum og héldu áfram yfirhöndinni eftir að hafa fengið á sig markið. Theodór Elmar fékk ágætis færi stuttu eftir markið en besta færi Íslendinga fékk Tryggvi Guðmundsson í uppbótartíma en markvörðurinn varði frá honum úr úrvals færi. Ein breyting verður gerð á liðinu í hálfleiknum, Baldur Aðalsteinsson kemur inn fyrir Theodór Elmar Bjarnason.
Seinni hálfleikurinn byrjar ekki vel, Hvít Rússar bæta öðru marki sínu við með skoti af um 30 metra færi. Ísland - Hvíta Rússlandi 0-2.
Síðari hálfleikur hefur verið tíðindalítill ef frá er skilið markið í byrjun hálfleiksins. Leikurinn fer að mestu fram á miðjum vellinum og engin marktækifæri sem teljast geta. Hvít Rússar eru því enn með tveggja marka forystu þegar 20 mínútur eru eftir.
Leiknum er lokið með sigri Hvít Rússa, 0-2. Íslenska liðið hresstist mjög á lokakaflanum og átti Helgi Sigurðsson gott skot að marki sem markvörður Hvít Rússa varði og hann var aftur vel á verði þegar að Gunnar Heiðar Þorvaldsson fékk gott færi á 85. mínútu.