Ísland tapaði 1-3 gegn Tyrklandi í Izmir í leik í Þjóðadeildinni.
Tyrkir komust yfir strax á 2. mínútu leiksins, svo sannarlega ekki byrjunin sem íslenska liðið hafði vonast eftir. Það tók Ísland svolítinn tíma að komast inn í leikinn, en það kom með tímanum og 37. mínútu jafnaði Guðlaugur Victor Pálsson metin með frábærum skalla eftir hornspyrnu Jóhanns Bergs Guðmundssonar. Staðan jöfn í hálfleik.
Tyrkir hófu seinni hálfleikinn eins og þann fyrri og komust aftur yfir eftir sjö mínútna leik. Ísland átti góða spilkafla eftir markið, en liðinu tókst aldrei að komast í opin færi og Tyrkir gulltryggðu sigurinn undir lok leiksins. Tveggja marka tap staðreynd í Izmir.
Næsta verkefni liðsins eru tveir heimaleikir í Þjóðadeildinni í október. Fyrst mætir liðið Wales föstudaginn 11. október og svo Tyrklandi mánudaginn 14. október.