Það styttist í að leyfisgögnum félaga í Pepsi-deild karla og 1. deild karla rigni yfir leyfisstjórn KSÍ. Skiladagur er 15. janúar og skila leyfisumsækjendur þá gögnum sem snúa að öðrum þáttum en fjárhagslegum.
Á meðal gagna sem skilað er í janúar eru ráðningarsamningar þjálfara og annarra lykilstarfsmanna, staðfestingar vegna lagalegra þátta og mannvirkja, og upplýsingar um stefnu í knattspyrnulegu uppeldi ungra leikmanna.
Fjárhagsgögnum, m.a. endurskoðuðum ársreikningum og staðfestingum á engum vanskilum vegna félagaskipta og vegna greiðslna til leikmanna og þjálfara, er svo skilað eigi síðar en 20. febrúar.
Nú þegar hafa fimm félög skilað sínum gögnum, eitt félag í 1. deild (Fjölnir) og fjögur Pepsi-deildarfélög (FH, Fylkir, Keflavík og Valur). Leyfisstjórn fer yfir gögnin, gerir athugasemdir þar sem við á og vinnur að úrbótum með félaginu áður en umsóknin fer fyrir leyfisráð í byrjun mars.