Fjárhagsleg leyfisgögn hafa borist frá öllum 24 félögunum sem undirgangast leyfiskerfið fyrir keppnistímabilið 2013. Tveir endurskoðendur hafa yfirfarið gögnin ásamt leyfisstjóra síðustu daga og lýkur yfirferð þeirra í dag, föstudag. Að lokinni yfirferð verða athugasemdir sendar til félaganna, þar sem við á, og í framhaldinu unnið með félögunum að nauðsynlegum úrbótum.
Yfirferð gagna, annarra en fjárhagslegra, lauk jafnframt í vikunni og hafa athugasemdir þegar verið sendar til viðkomandi félaga.
Leyfisráð mun funda mánudaginn 11. mars. Þar gefur leyfisstjóri skýrslu um stöðu félaga, eins og kveðið er á um í vinnuferli leyfisstjórnar, og leyfisráð tekur ákvarðanir um veitingu þátttökuleyfa. Á fundinum 11. mars verða gefin út þátttökuleyfi til þeirra félaga sem þegar uppfylla öll skilyrði, en öðrum félögum gefinn frestur til að ganga frá útistandandi atriðum.