Frá stjórn KSÍ vegna kröfu Breiðabliks um endurskoðun ákvörðunar stjórnar um að synja beiðni um frestun á leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deild karla
Stjórn KSÍ staðfestir fyrri ákvörðun sína um að staðfesta ákvörðun mótanefndar KSÍ um að synja beiðni um frestun á leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deild karla.
Skýring
Stjórn KSÍ hefur móttekið beiðni/kröfu Breiðabliks um endurskoðun ákvörðunar stjórnar um að synja beiðni um frestun á leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deild karla. Stjórnin hefur fullan skilning á erindinu og myndi samþykkja frestun ef það væri nokkur raunhæfur möguleiki, en vegna neikvæðra áhrifa á önnur félög þá var ekki hægt að verða við því.
Beiðni um frestun hefur því nú fengið umfjöllun mótanefndar, sem synjaði beiðninni og stjórnar, sem hefur nú tvisvar fjallað um beiðnina og komist að sömu niðurstöðu í bæði skipti.
Helst voru skoðaðar tvær mögulegar lausnir, þar sem ekki er hægt að þétta úrslitakeppnina. Annars vegar að lengja mótið í heild og hins vegar að nota landsleikjahléið í september. Eftir að hafa skoðað þessa möguleika vandlega og leitað lausna er niðurstaðan að synja beiðni um frestun, þrátt fyrir góðan vilja allra sem komu að málinu.
Varðandi möguleikana tvo:
Varðandi fregnir af því að andstæðingar Breiðabliks í Evrópukeppninni hafi fengið leikjum frestað, þá breytir færsla á leikjum í öðrum löndum ekki forsendum leikja í mótum á Íslandi. Auk þess er deildin í N-Makedóníu rétt að hefjast og því auðveldara um vik að breyta leikjum.
Stjórn KSÍ tekur þessa ákvörðun með hagsmuni heildarinnar í huga og eftir vandlega íhugun. Stjórnin hefur fullan skilning á sjónarmiðum Breiðabliks og hefði sannarlega viljað geta komið til móts við félagið. Stjórn KSÍ vann þetta mál af bestu samvisku og ákvörðunin var vissulega erfið að taka.
Stjórnin vonar innilega að Breiðablik nái enn lengra í Evrópukeppni og óskar liðinu alls hins besta í komandi leik gegn FC Struga.