Það er stundum sagt að tíminn líði hratt þegar maður hefur nóg að gera, og það hefur svo sannarlega verið nóg að gera á þessu tæpa ári sem ég hef verið formaður KSÍ. Vissulega kem ég inn í starfið í erfiðum aðstæðum en starfið hefur engu að síður snúist um svo margt og auðvitað fyrst og fremst um fótboltann, enda gengur allt sem við gerum hjá KSÍ út á það að efna og styrkja íslenska knattspyrnu. Verkefnin hafa verið ærin og mörg. Mig langaði í þessum stutta pistil að nefna nokkur verkefni sérstaklega, verkefni sem eru annað hvort þegar komin til framkvæmda, eða í vinnslu og langt komin.
Ég hef haft mikinn áhuga á málefnum ungra iðkenda og vil sjá meiri aðkomu þess stóra og mikilvæga hóps að ákvarðanatöku í okkar hreyfingu. Við eigum að hlusta á þau. Hvernig líður krökkunum okkar? Hvernig finnst þeim að fótboltinn á Íslandi eigi að vera? Hvað finnst þeim um hina ýmsu þætti sem við fullorðna fólkið erum að ákveða fyrir þau? Í þessu sambandi höfum við ákveðið að setja upp barna- og ungmennaþing líklega í nóvember og í framhaldi af því stofna sérstakt ungmennaráð, sem verður skipað ungum iðkendum á ýmsum aldri. Það eru til fyrirmyndir að ungmennaráðum bæði hérlendis og erlendis og þau hafa gefið góða raun. Ungir iðkendur eru stærsti hópurinn í okkar hreyfingu og þeirra rödd verður að heyrast.
Við höfum opnað verulega á samtal við opinbera aðila og höfum átt fundi með Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum, ráðherrum og fulltrúum úr ríkisstjórninni um ýmis mál sem skipta miklu máli fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Það þarf að vekja athygli opinberra aðila á stöðu mála og benda á hvernig þeir aðilar geti betur stutt við knattspyrnustarfið í landinu. Aðkoma ríkis og sveitarfélaga getur skipt sköpum fyrir starfið hjá mörgum félögum.
Loks langar mig að nefna ýmis verkefni sem KSÍ hefur unnið að og snúa að forvörnum gegn og fræðslu um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni, og verkefni sem snúa að jafnréttismálum. Ýmsar tillögur að úrbótum hafa komið fram hjá nefndum og starfshópum og staðan er einfaldlega þannig að flest þau atriði sem eru nefnd í skýrslunum hafa þegar verið virkjuð.
Ég nefndi það hér í byrjun að verkefnin hafi verið ærin og mörg og það væri of langt mál að telja upp allt það starf sem unnið er að innan KSÍ á hverju ári. Hápunktarnir í starfinu hverfast þó alltaf um íþróttina sem okkur þykir svo vænt um að gefur okkur svo margt – fótboltann og fótboltaleikina. Landsliðin okkar halda áfram að gera góða hluti á alþjóðavettvangi.
A landslið kvenna vann hug og hjörtu knattspyrnuáhugafólks á EM í Englandi og var nálægt því að ná sínum markmiðum. Framundan er svo umspilsleikur um sæti í lokakeppni HM eftir ótrúlega svekkjandi tap í Hollandi. Ég er þess fullviss að stelpurnar muni eiga góðan leik í umspilinu og HM-draumurinn lifir góðu lífi. A landslið karla er að ljúka keppni í Þjóðadeildinni og þegar þetta er skrifað er möguleiki á því að leikurinn við Albaníu 27. september verði úrslitaleikur um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar, sem væri frábær árangur. Einnig má nefna U21 landslið karla, sem er að fara í umspilsleiki um sæti í úrslitakeppni EM.
Það styttist í að mótunum hér heima ljúki og vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem að mótunum koma fyrir þeirra mikla og góða starf – leikmönnum, þjálfurum, starfsfólki liða, stuðningsmönnum og öllum öðrum. Það verður sérstaklega spennandi að sjá hvernig hið nýja fyrirkomulag Bestu deildar karla mun reynast á lokaspretti Íslandsmótsins.
Áfram íslensk knattspyrna!
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ