Samkeppnisréttarstefna KSÍ
Samþykkt af stjórn KSÍ 19. maí 2022
Með samkeppnisréttarstefnu þessari er skjalfestur sá ásetningur stjórnar og stjórnenda Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) að starfsemi sambandsins og aðildarfélaga þess sé í góðu samræmi við gildandi samkeppnislög og viðurkennd viðmið í samkeppnisrétti. Innleiðing stefnunnar felur í sér viðleitni af hálfu KSÍ til að lágmarka hættu á árekstrum við ákvæði samkeppnislaga vegna ákvarðana eða háttsemi sem KSÍ getur borið ábyrgð á.
Stefnan er unnin á vettvangi stjórnar KSÍ sem og af viðkomandi stjórnendum og starfsmönnum, auk sérfróðs ráðgjafa.
Stjórn KSÍ er ábyrgðaraðili fyrir innleiðingu og framkvæmd samkeppnisréttarstefnunnar. Henni skal dreift til aðildarfélaga til kynningar og hún skal einnig vera aðgengileg á heimasíðu KSÍ.
Samkeppnislög eru sett til að efla virka samkeppni og vinna gegn viðskiptaháttum sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að samkeppni sé raskað eða hún takmörkuð. KSÍ leggur ríka áherslu á að aðildarfélög sambandsins ástundi öfluga og sanngjarna samkeppni og virði í hvívetna ákvæði samkeppnislaga. Að sama skapi gerir KSÍ ríkar kröfur hvað varðar eftirfylgni með samkeppnislögum gagnvart eigin starfsemi sambandsins.
Stjórn KSÍ og stjórnendur aðildarfélaga bera ábyrgð á því að kynna fyrir aðildarfélögum og starfsmönnum þeirra samkeppnisréttarstefnu KSÍ og sjá til þess að henni sé fylgt í hvívetna. Verði aðilar uppvísir að því að brjóta gegn samkeppnislögum í störfum sínum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi kann því að fylgja ábyrgð samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga.
KSÍ áréttir mikilvægi þess að allt starf á vettvangi sambandsins, hvort sem það er starfsemi stjórnar, skrifstofu KSÍ eða í nefndum eða ráðum á vegum sambandsins, sé ávallt framkvæmt að teknu tilliti til ákvæða samkeppnislaga. Tekur þetta einnig til ráðgjafa og verkefnaráðinna starfsmanna KSÍ. Það sama á við um alla stefnumótum eða áætlunargerð á vettvangi KSÍ sem skal ávallt vera unnin að teknu tilliti til ákvæðasamkeppnislaga.
Með framangreint í huga leggur KSÍ áherslu á eftirfarandi:
Mikilvægt er að koma í veg fyrir eða takmarka eins og unnt er áhættu af samkeppnisbroti. Slík brot geta enda haft alvarlegar afleiðingar í för með sér:
Til þess að tryggja framgöngu samkeppnisréttarstefnu KSÍ skulu stjórnendur og starfsmenn sambandsins fá nauðsynlega fræðslu og þjálfun um samkeppnisreglur og lög. Í þessu skyni skal, þegar tilefni er til, haldið námskeið og útbúið og/eða haft aðgengilegt upplýsingaefni um samkeppnismál.
Tilgangur þessa er að:
Samkeppnislög og -reglur eru matskennd og víðtæk. Samkeppnisréttarstefnu þessari er ekki ætlað að veita svör við öllum álitaefnum sem upp geta komið í tengslum við samkeppnismál. Ábyrgðaraðili samkeppnisréttarstefnunnar er stjórn KSÍ.
Lögfræðingur KSÍ gegnir mikilvægu hlutverki varðandi innleiðingu og umsjón með samkeppnisréttarstefnunni. Hlutverk hans er m.a. að vera stjórnendum og starfsmönnum til stuðnings og ráðgjafar varðandi álitaefni sem upp kunna að koma. Séu stjórnendur eða starfsmenn í vafa um hvort fyrirætlanir eða kringumstæður séu samþýðanlegar samkeppnisreglum ber þeim að leita ráðgjafar lögfræðings KSÍ. Þeir skulu jafnframt leita til lögfræðings KSÍ telji þeir að brot gegn samkeppnislögum hafi átt sér stað sem varði starfsemi eða hagsmuni KSÍ. Lögfræðingur KSÍ, eftir atvikum í samráði við stjórn KSÍ, getur leitað utanaðkomandi ráðgjafar eða aðstoðar vegna samkeppnisréttarlegra álitaefna eða framkvæmdar samkeppnisréttarstefnunnar.
Ef atvik benda til þess að brot gegn samkeppnislögum hafi átt sér stað sem varðar starfsemi eða hagsmuni KSÍ ber lögfræðingi sambandsins að grípa til viðeigandi ráðstafana. Hann skal láta vinna nauðsynlega innri athugun og meta hvort málið sé þess eðlis að leita beri til Samkeppniseftirlitsins vegna þess.
Helstu verkefni lögfræðings KSÍ vegna umsjónar með samkeppnisréttarstefnunni eru að:
Ef starfsmaður verður þess var að samskipti hafi átt sér stað eða háttsemi viðhöfð sem geta falið í sér brot á samkeppnislögum er starfsmaður eindregið hvattur til að upplýsa lögfræðing KSÍ um slíkt án tafar.
Lögfræðingur KSÍ skal bregðast þegar við og framkvæma nauðsynlega athugun eins og hægt er til að leggja rökstutt mat á hvort ábending eigi við rök að styðjast. Hann skal jafnframt upplýsa stjórn KSÍ um tilvikið.
Þegar lögfræðingur KSÍ hefur lokið athugun skal hann kynna niðurstöður sínar fyrir stjórn KSÍ sem skal að því loknu meta hvort mál sé þess eðlis að það skuli kynnt fyrir Samkeppniseftirlitinu. Í því getur falist að upplýsa um atvik, gefa yfirlýsingu um samstarfsvilja KSÍ við rannsókn og/eða óska eftir hlífðarmeðferð (e. leniency), þ.e. niðurfellingu eða lækkun hugsanlegra sekta sem við broti geta legið.
Skilyrði aðildar að KSÍ skulu vera gegnsæ, málefnaleg og hlutlaus og skal gerð grein fyrir þeim í lögum og reglugerðum KSÍ á hverjum tíma. Skal öllum er uppfylla skilyrðin heimil innganga í samtökin enda uppfylli viðkomandi félag önnur aðildarskilyrði laga og reglugerða ÍSÍ.
Þátttaka í starfi KSÍ felur m.a. í sér miðlun á upplýsingum og reynslu og þátttöku í umræðu um sameiginleg hagsmunamál aðildarfélaga. Við öflun og miðlun upplýsinga á vettvangi KSÍ skal í hvívetna gætt að trúnaði og verklag ávallt vera með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að viðkvæmar eða sérgreinanlegar upplýsingar einstakra aðildarfélaga geti borist í hendur annarra aðildarfélaga eða þriðja aðila.