4. grein – Kærur
- Kærandi í máli fyrir siðanefnd KSÍ getur verið einstaklingur, félag eða önnur eining knattspyrnuhreyfingarinnar, sem misgert er við og hefur hagsmuni af úrlausn málsins. Auk þess getur stjórn KSÍ eða framkvæmdastjóri KSÍ lagt fram kæru til siðanefndar KSÍ. Varnaraðili getur verið hver sá sem bundinn er af siðareglum KSÍ skv. grein 1.1.
- Kærur skulu berast til siðanefndar KSÍ innan fimm ára frá því atvik að baki kæru áttu sér stað. Berist nefndinni kæra eftir þetta tímamark skal nefndin vísa málinu frá. Varði kæra atvik sem
refsidómur hefur fallið um skal fresturinn þó aldrei teljast liðinn fyrr en 12 mánuðum eftir að endanlegur dómur var kveðinn upp í málinu.
- Kæra skal berast til nefndarinnar skriflega ásamt fylgigögnum og samanstanda að lágmarki af eftirtöldu:
- Nafni/heiti kæranda, kennitölu, heimilisfangi, símanúmeri og netfangi, eftir því sem við getur átt.
- Nafni/heiti kærða, kennitölu, heimilisfangi, símanúmeri og netfangi, eftir því sem við getur átt.
- Nafni fyrirsvarsmanns kæranda og kærða ásamt ofangreindum upplýsingum, eftir því sem við getur átt.
- Skýrri kröfugerð.
- Lýsingu helstu málavaxta.
- Tilvísun til þeirra laga og reglugerða, sem byggt er á í málinu.
- Lýsingu á helstu málsástæðum kæranda.
- Lýsingu á helstu gögnum er fylgja kæru og þýðingu þeirra.
- Upptalningu á mögulegum vitnum, sem kærandi óskar eftir að kalla til skýrslutöku, eftir því sem við getur átt.
- Mál telst höfðað þegar kæra berst skrifstofu KSÍ, sem skal senda kæranda skriflega staðfestingu á móttöku kæru. Kæra skal lögð fyrir næsta fund siðanefndar KSÍ eftir að hún berst en áður skal
formaður nefndarinnar taka afstöðu hvort einhverjir formgallar séu á kæru sem varði frávísun ex officio með ákvörðun hans. Telji formaður slíka frávísunarástæðu fyrir hendi skal hann gefa
kæranda kost á að bæta úr þeim ágalla og leggja málið fyrir að nýju, verði yfirleitt úr ágallanum bætt. Kærandi getur krafist endurskoðunar Siðanefndar KSÍ á ákvörðun formanns um ex officio frávísun og skal slík krafa þá tekin fyrir á næsta fundi nefndarinnar eftir að hún berst. Verði ákvörðun formanns snúið við skal málið lagt efnislega fyrir næsta fund nefndarinnar þar á eftir.
- Siðanefnd skal senda kærða (varnaraðila) án tafar og með sannanlegum hætti kæru og fylgigögn ásamt áskorun um að halda uppi vörnum í málinu. Kærða skal gefinn allt að 14 daga frestur til að skila greinargerð í málinu og skal hún fullnægja sömu kröfum og fram koma í grein 4.3., eftir því sem við getur átt. Einstaklingi, félagi eða annarri einingu knattspyrnuhreyfingarinnar
sem hefur hagsmuni af niðurstöðu máls skal einnig send afrit kæru ásamt gögnum og viðkomandi gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu.
- Þegar öll gögn málsins hafa borist siðanefnd skal nefndin taka ákvörðun um hvort mál skuli í reynd flutt, þá munnlega eða skriflega, hvort taka skuli vitna- eða aðilaskýrslur fyrir nefndinni eða annað það sem taka þarf ákvörðun um varðandi málsmeðferð málsins eftir móttöku þess.
- Kærur skulu skráðar í málaskrá siðanefndar KSÍ. Þar skulu jafnframt vistuð öll gögn sem henni tengjast eftir að máli lýkur. Skrifstofa KSÍ sér um skjalavörslu fyrir hönd siðanefndar KSÍ að
máli loknu.
5. grein – Uppkvaðning úrskurða og gildistaka
- Úrskurðir nefndarinnar skulu kveðnir upp svo fljótt sem verða má eftir að gagnaöflun telst lokið og málið tekið til úrskurðar. Leitast skal við að kveða upp úrskurð innan fjögurra vikna frá því að málið var tekið til úrskurðar.
- Úrskurðir siðanefndar taka gildi við uppkvaðningu þeirra eða eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
6. grein – Efni úrskurða og birting
- Úrskurðir siðanefndar skulu vera skriflegir og rökstuddir og skal eftirfarandi koma fram:
- Hverjir séu aðilar máls.
- Kröfugerð og málavaxtalýsing.
- Helstu málsástæður og röksemdir málsaðila.
- Rökstuðningur og niðurstaða nefndarinnar.
- Sératkvæði minnihluta, ef um slíkt er að ræða.
- Greint frá heimild aðila til áfrýjunar og áfrýjunarfresti.
- Úrskurðir skulu staðfestir af þeim nefndarmönnum, sem þátt tóku í afgreiðslu viðkomandi máls.
Afl atkvæða ræður úrslitum máls. Ef nefndin er ósammála um niðurstöðuna skal þess getið sérstaklega.
- Siðanefnd sendir málsaðilum staðfest endurrit úrskurða jafnskjótt og þeir hafa verið kveðnir upp með tölvupósti til kæranda og kærða sem getið er í kæru og greinargerð. Áhætta af
mistökum við afhendingu tölvupósts hvílir alfarið á móttakanda.
- Úrskurður siðanefndar að teknu tilliti til viðkvæmra upplýsinga skal einnig birtur á heimasíðu KSÍ strax eftir uppkvaðningu hans.
7. grein - Sönnunargögn og sönnunarkrafa
- Siðanefnd KSÍ leggur sjálfstætt mat á gildi sönnunargagna sem lögð eru fram við meðferð máls.
- Í málum sem rekin eru á grundvelli þessa kafla, telst brot sannað telji nefndin fullnægjandi líkur leiddar að því að brot hafi verið framið.