Verslun
Leit

Samþykktar á ársþingi KSÍ 22. febrúar 2025

Samþykktar af stjórn KSÍ 28. febrúar 2025 

Siðareglur KSÍ á pdf formi

1. grein - Gildissvið

  1. Siðareglur þessar gilda um alla þá sem taka að sér hlutverk fyrir knattspyrnuhreyfinguna á 
    Íslandi, svo sem stjórnarmenn, starfsfólk, leikmenn, umboðsmenn, sjálfboðaliða og hverja þá
    aðra sem sinna trúnaðarstörfum í einhverju formi fyrir KSÍ, aðildarfélög og aðrar einingar
    knattspyrnuhreyfingarinnar. Reglurnar gilda jafnframt, og eftir atvikum samhliða, um þær 
    einingar sem kunna að samanstanda af framangreindum einstaklingum, svo sem stjórn KSÍ, 
    einstakar nefndir sambandsins, skrifstofu þess, aðildarfélög og aðrar einingar 
    knattspyrnuhreyfingarinnar.
  2. Ákvæði annarra reglugerða eða reglna á vettvangi knattspyrnuhreyfingarinnar sem eiga við um 
    þá sem 1. mgr. fjallar um og tengjast viðfangsefnum siðareglna þessara halda gildi sínu, en sé 
    efnisreglu um sömu háttsemi að finna þar og í siðareglunum gilda ákvæði siðareglna KSÍ bæði 
    um efni og málsmeðferð.

2. grein – Skipan siðanefndar KSÍ

  1. Siðanefnd KSÍ skal skipuð þremur fulltrúum og jafnmörgum til vara. Fulltrúar í nefndina 
    skulu kosnir á ársþingi KSÍ og þar af einn beinni kosningu sem formaður. Kosið skal um alla 
    fulltrúa og varafulltrúa í nefndinni á sama tíma til tveggja ára í senn.
  2. Siðanefnd KSÍ ákvarðar/úrskurðar í málum sem falla undir ákvæði siðareglna þessara.
  3. Siðanefnd setur sér nánari starfsreglur sem samþykktar skulu af stjórn KSÍ.

3. grein – Lögsaga og hlutverk

  1. Siðanefnd KSÍ fjallar um og úrskurðar í þeim málum sem til hennar er beint og falla undir 
    siðareglur KSÍ.
  2. Siðanefnd KSÍ er heimilt að fresta meðferð máls vegna meintra brota þeirra sem falla undir 
    grein 1.1 ef mál viðkomandi er til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða 
    samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Siðanefnd KSÍ er aðeins heimilt að fjalla um mál 
    sem frestað hefur verið þegar niðurstaða í máli liggur fyrir hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi 
    og/eða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.
  3. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ skal hafa lögsögu yfir þeim málefnum sem upp koma innan 
    vébanda Knattspyrnusambands Íslands samkvæmt reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál og 
    varða ekki siðareglur KSÍ.

4. grein – Kærur

  1. Kærandi í máli fyrir siðanefnd KSÍ getur verið einstaklingur, félag eða önnur eining knattspyrnuhreyfingarinnar, sem misgert er við og hefur hagsmuni af úrlausn málsins. Auk þess getur stjórn KSÍ eða framkvæmdastjóri KSÍ lagt fram kæru til siðanefndar KSÍ. Varnaraðili  getur verið hver sá sem bundinn er af siðareglum KSÍ skv. grein 1.1.
  2. Kærur skulu berast til siðanefndar KSÍ innan fimm ára frá því atvik að baki kæru áttu sér stað. Berist nefndinni kæra eftir þetta tímamark skal nefndin vísa málinu frá. Varði kæra atvik sem 
    refsidómur hefur fallið um skal fresturinn þó aldrei teljast liðinn fyrr en 12 mánuðum eftir að endanlegur dómur var kveðinn upp í málinu.
  3. Kæra skal berast til nefndarinnar skriflega ásamt fylgigögnum og samanstanda að lágmarki af eftirtöldu:
    1. Nafni/heiti kæranda, kennitölu, heimilisfangi, símanúmeri og netfangi, eftir því sem við getur átt.
    2. Nafni/heiti kærða, kennitölu, heimilisfangi, símanúmeri og netfangi, eftir því sem við getur átt.
    3. Nafni fyrirsvarsmanns kæranda og kærða ásamt ofangreindum upplýsingum, eftir því sem við getur átt.
    4. Skýrri kröfugerð.
    5. Lýsingu helstu málavaxta.
    6. Tilvísun til þeirra laga og reglugerða, sem byggt er á í málinu.
    7. Lýsingu á helstu málsástæðum kæranda.
    8. Lýsingu á helstu gögnum er fylgja kæru og þýðingu þeirra.
    9. Upptalningu á mögulegum vitnum, sem kærandi óskar eftir að kalla til skýrslutöku, eftir því sem við getur átt.
  4. Mál telst höfðað þegar kæra berst skrifstofu KSÍ, sem skal senda kæranda skriflega staðfestingu á móttöku kæru. Kæra skal lögð fyrir næsta fund siðanefndar KSÍ eftir að hún berst en áður skal 
    formaður nefndarinnar taka afstöðu hvort einhverjir formgallar séu á kæru sem varði frávísun ex officio með ákvörðun hans. Telji formaður slíka frávísunarástæðu fyrir hendi skal hann gefa 
    kæranda kost á að bæta úr þeim ágalla og leggja málið fyrir að nýju, verði yfirleitt úr ágallanum bætt. Kærandi getur krafist endurskoðunar Siðanefndar KSÍ á ákvörðun formanns um ex officio frávísun og skal slík krafa þá tekin fyrir á næsta fundi nefndarinnar eftir að hún berst. Verði ákvörðun formanns snúið við skal málið lagt efnislega fyrir næsta fund nefndarinnar þar á eftir.
  5. Siðanefnd skal senda kærða (varnaraðila) án tafar og með sannanlegum hætti kæru og fylgigögn ásamt áskorun um að halda uppi vörnum í málinu. Kærða skal gefinn allt að 14 daga frestur til að skila greinargerð í málinu og skal hún fullnægja sömu kröfum og fram koma í grein 4.3., eftir því sem við getur átt. Einstaklingi, félagi eða annarri einingu knattspyrnuhreyfingarinnar
    sem hefur hagsmuni af niðurstöðu máls skal einnig send afrit kæru ásamt gögnum og viðkomandi gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu.
  6. Þegar öll gögn málsins hafa borist siðanefnd skal nefndin taka ákvörðun um hvort mál skuli í reynd flutt, þá munnlega eða skriflega, hvort taka skuli vitna- eða aðilaskýrslur fyrir nefndinni eða annað það sem taka þarf ákvörðun um varðandi málsmeðferð málsins eftir móttöku þess.
  7. Kærur skulu skráðar í málaskrá siðanefndar KSÍ. Þar skulu jafnframt vistuð öll gögn sem henni tengjast eftir að máli lýkur. Skrifstofa KSÍ sér um skjalavörslu fyrir hönd siðanefndar KSÍ að 
    máli loknu.

5. grein – Uppkvaðning úrskurða og gildistaka

  1. Úrskurðir nefndarinnar skulu kveðnir upp svo fljótt sem verða má eftir að gagnaöflun telst lokið og málið tekið til úrskurðar. Leitast skal við að kveða upp úrskurð innan fjögurra vikna frá því að málið var tekið til úrskurðar.
  2. Úrskurðir siðanefndar taka gildi við uppkvaðningu þeirra eða eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

6. grein – Efni úrskurða og birting

  1. Úrskurðir siðanefndar skulu vera skriflegir og rökstuddir og skal eftirfarandi koma fram:
    1. Hverjir séu aðilar máls.
    2. Kröfugerð og málavaxtalýsing.
    3. Helstu málsástæður og röksemdir málsaðila.
    4. Rökstuðningur og niðurstaða nefndarinnar.
    5. Sératkvæði minnihluta, ef um slíkt er að ræða.
    6. Greint frá heimild aðila til áfrýjunar og áfrýjunarfresti.
  2. Úrskurðir skulu staðfestir af þeim nefndarmönnum, sem þátt tóku í afgreiðslu viðkomandi máls. 
    Afl atkvæða ræður úrslitum máls. Ef nefndin er ósammála um niðurstöðuna skal þess getið sérstaklega.
  3. Siðanefnd sendir málsaðilum staðfest endurrit úrskurða jafnskjótt og þeir hafa verið kveðnir upp með tölvupósti til kæranda og kærða sem getið er í kæru og greinargerð. Áhætta af
    mistökum við afhendingu tölvupósts hvílir alfarið á móttakanda.
  4. Úrskurður siðanefndar að teknu tilliti til viðkvæmra upplýsinga skal einnig birtur á heimasíðu KSÍ strax eftir uppkvaðningu hans.

7. grein - Sönnunargögn og sönnunarkrafa

  1. Siðanefnd KSÍ leggur sjálfstætt mat á gildi sönnunargagna sem lögð eru fram við meðferð máls.
  2. Í málum sem rekin eru á grundvelli þessa kafla, telst brot sannað telji nefndin fullnægjandi líkur leiddar að því að brot hafi verið framið. 

8. grein - Almennar reglur

  1. Framferði þeirra sem bundnir eru af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal í senn endurspegla stuðning þeirra við grundvallarreglur og markmið KSÍ, aðildarfélaga þess, UEFA og FIFA. Þeir skulu vera trúverðugir, sýna heilindi og ber að forðast allt sem skaðað getur orðstír framangreindra aðila, heiður þeirra og tilgang. 
  2. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki misnota aðstöðu sína við skyldustörf með neinum hætti, allra síst með því að nýta sér stöðu sína til eigin hags eða framdráttar.
  3. Þeir sem bundnir eru af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skulu kynna sér ákvæði þeirra. Með því að taka að sér störf sem falla undir reglurnar teljast þeir þar með hafa undirgengist þær.
  4. Siðanefnd KSÍ getur beitt eftirfarandi viðurlögum við brotum á ákvæðum greinar þessarar:
    1. Áminningu
    2. Ávítum
    3. Tillögum um tímabundna brottvikningu úr starfi, stjórn eða öðru trúnaðarhlutverki.
    4. Tillögum um ótímabundna brottvikningu úr starfi, stjórn eða öðru trúnaðarhlutverki.

9. grein - Hlutleysi

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal gæta stjórnmálalegs hlutleysis í samskiptum sínum við opinberar stofnanir, innlend og alþjóðleg samtök og hópa í samræmi við 
    markmið og meginreglur aðildarfélaga, KSÍ, UEFA og FIFA og bregðast almennt við af heilindum með þeim hætti að það samræmist hlutverki hans.
  2. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að hámarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri 
    þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár.

10. grein - Trúnaður

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 ber trúnaðarskyldu gagnvart aðildarfélögum, KSÍ, UEFA og FIFA. Viðkomandi telst hafa brotið gegn trúnaðarskyldu sinni m.a. þegar hann gegnir ábyrgðar- eða trúnaðarstöðu í knattspyrnuhreyfingunni og sýnir af sér framkomu sem skaðar orðspor og/eða hagsmuni aðildarfélaga, KSÍ, UEFA og/eða FIFA.
  2. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að hámarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár.

11. grein - Þagnarskylda

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal, með hliðsjón af hlutverki sínu, gæta leyndar og trúnaðar um viðkvæmar upplýsingar sem hann aflar eða honum berast vegna skyldustarfa sinna, enda séu upplýsingarnar veittar í þeim skilningi eða með þeim skilaboðum að um trúnaðarupplýsingar sé að ræða og að upplýsingarnar samræmist grundvallarreglum FIFA.
  2. Viðkomandi skal áfram bera þagnarskyldu skv. 1. mgr. þrátt fyrir að hafa ekki lengur stöðu sem fellir hann undir siðareglur þessar skv. grein 1.1.
  3. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að hámarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár.

12. grein - Tilkynningarskylda

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal tilkynna beint til Siðanefndar KSÍ 
    eða skrifstofu KSÍ um brot á reglunum sem hann verður áskynja um.
  2. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að hámarki kr. 250.000 ásamt banni frá 
    allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár.

13. grein - Samstarf

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ávallt aðstoða og vinna af einlægni og í góðri trú með Siðanefnd KSÍ, hvort sem hann er málsaðili, vitni eða tengist máli með öðrum hætti. Í þessu felst m.a. að verða að öllu leyti við óskum siðanefndar, þ. á m. um að skýra málsatvik, veita munnlegan eða skriflegan vitnisburð, veita upplýsingar, afhenda gögn eða annað efni og upplýsa um tekjur og fjárhag, telji siðanefnd þess þörf.
  2. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 og beðinn er um að aðstoða siðanefnd KSÍ við meðferð tiltekins máls, hvort sem hann er aðili að máli, vitni eða tengist því á annan hátt, skal gæta leyndar og trúnaðar um veittar upplýsingar og aðkomu sína, nema siðanefnd gefi fyrirmæli um annað.
  3. Enginn sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal aðhafast nokkuð það sem í raun, eða sem virðist hafa að markmiði, að hindra, forðast, fyrirbyggja eða trufla með öðrum 
    hætti meðferð raunverulegs eða mögulegs máls fyrir siðanefnd.
  4. Enginn sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal í tengslum við raunverulegt eða mögulegt mál fyrir siðanefnd leyna markverðum staðreyndum, gefa markvert rangar eða  villandi yfirlýsingar eða staðhæfingar, eða leggja fram ófullnægjandi, markvert rangar eða villandi upplýsingar eða annað efni.
  5. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki áreita, hræða, hóta eða hefna sín á einhverjum vegna raunverulegrar eða hugsanlegrar aðstoðar viðkomandi við Siðanefnd KSÍ eða samstarfs hans við hana.
  6. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að hámarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár.

14. grein - Hagsmunaárekstur

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki rækja skyldustörf sín (einkum við undirbúning og töku ákvarðana) við aðstæður þar sem raunverulegur eða mögulegur hagsmunaárekstur kann að hafa áhrif störf hans. Hagsmunaárekstur rís þegar viðkomandi hefur, eða virðist hafa, annarra hagsmuna að gæta sem kunna að hafa áhrif á burði hans til að rækja skyldur sínar með sjálfstæðum og markvissum hætti. Aðrir hagsmunir geta m.a. falið í sér, en eru ekki takmarkaðir við, að afla viðkomandi eða tengdum aðilum mögulegs ávinnings.
  2. Áður en sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1, er kjörinn, skipaður eða ráðinn til starfa, skal hann upplýsa um öll tengsl og hagsmuni sem gætu leitt til hagsmunaáreksturs í væntanlegu starfi.
  3. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki rækja skyldustörf sín (einkum við undirbúning eða töku ákvarðana) ef hætta er á að hagsmunaárekstur hafi áhrif á störf hans. Viðkomandi skal þegar í stað greina þeim sem hann starfar fyrir frá hvers kyns slíkum hagsmunaárekstri.
  4. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér viðeigandi sekt að lágmarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár. Ef brot telst alvarlegt eða ef um ítrekun er að ræða, getur bann frá allri þátttöku í knattspyrnu numið allt að fimm árum.

15. grein - Gjafir og önnur fríðindi

  1. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er aðeins heimilt að bjóða eða þiggja gjafir eða önnur fríðindi til eða frá einstaklingum innan eða utan knattspyrnuhreyfingarinnar,
    eða milliliðum eða tengdum aðilum, þar sem slíkar gjafir eða fríðindi:
    1. hafa táknrænt eða lítilvægt gildi;
    2. eru ekki boðin eða þegin í því skyni að hafa áhrif á neinn sem bundinn er af siðareglum þessum til að framkvæma eða láta hjá líða að framkvæma neitt það sem tengist verksviði hans eða fellur undir það;
    3. eru ekki boðin eða þegin í bága við skyldustörf neins sem bundinn er af siðareglum þessum;
    4. fela ekki í sér óeðlilegan fjárhagslegan ávinning eða annan ágóða; og
    5. skapa ekki hagsmunaárekstur;
      Gjafir eða önnur fríðindi sem ekki uppfylla öll framangreind skilyrði eru óheimil.
  2. Í vafatilvikum skal ekki þiggja, gefa, bjóða, lofa, taka við, biðja um eða sækjast eftir gjöfum eða öðrum fríðindum. Undir engum kringumstæðum skal neinn sem bundinn er af siðareglum  þessum skv. grein 1.1 þiggja, gefa, bjóða, lofa, taka við, biðja um eða sækjast eftir reiðufé, í neinu formi eða fjárhæð, frá aðila innan eða utan knattspyrnuhreyfingarinnar, milliliðum eða tengdum aðilum.
  3. Ef það myndi móðga gefanda á grundvelli menningarlegra sjónarmiða að afþakka gjöf eða fríðindi, er þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 heimilt að þiggja gjöf eða 
    fríðindi fyrir hönd þeirrar einingar sem viðkomandi starfar fyrir og skal hann þá þegar í stað tilkynna um gjöfina eða fríðindin og, ef við á, afhenda þau þar til bærum aðila.
  4. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að lágmarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár. Hver sú fjárhæð sem þegin hefur verið í bága við ákvæði 
    þessarar greinar skal vera innifalin í sektarákvörðun. Auk sektar skal, þegar það er mögulegt og viðeigandi, skila gjöf eða fríðindum sem þegin hafa verið í bága við ákvæði þessarar greinar.
    Ef brot telst alvarlegt eða ef um ítrekun er að ræða, getur bann frá allri þátttöku í knattspyrnu 
    numið allt að fimm árum.

16. grein - Þóknun

  1. Stjórnarmönnum, starfsfólki, leikmönnum og umboðsmönnum er óheimilt að þiggja, gefa, bjóða, lofa, taka við, biðja um eða sækjast eftir þóknun fyrir sjálfan sig eða aðra vegna samningsgerðar eða annarra skyldustarfa sinna.
  2. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að lágmarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár. Hver sú fjárhæð sem þegin hefur verið í bága við 1. mgr. skal vera innifalin í sektarákvörðun. Ef brot telst alvarlegt eða ef um ítrekun er að ræða, getur bann frá allri þátttöku í knattspyrnu numið allt að fimm árum.

17. grein - Mismunun og ærumeiðingar

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki vega að heiðri eða heilindum lands, þjóðar, einstaklings eða hóps með orðum eða gjörðum sem fela í sér fyrirlitningu, mismunun eða lítilsvirðingu á grundvelli kynþáttar, húðlitar, uppruna, þjóðernis, félagslegrar stöðu, kyns, fötlunar, kynhneigðar, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, auðs, fæðingarstöðu, annarrar stöðu eða nokkurrar annarrar ástæðu.
  2. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er óheimilt að gefa opinbera yfirlýsingu sem felur í sér fyrirlitningu gagnvart KSÍ, UEFA, FIFA eða neinum sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 í tengslum við viðburði á vegum áðurnefndra samtaka.
  3. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að lágmarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að tvö ár. Ef brot telst alvarlegt eða ef um ítrekun er að ræða, getur bann frá allri þátttöku í knattspyrnu numið allt að fimm árum.

18. grein - Líkamleg og andleg helgi

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal verja, virða og vernda helgi og reisn annarra.
  2. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki nota niðrandi látbragð og orðbragð til að móðga einhvern á nokkurn hátt eða hvetja aðra til haturs eða ofbeldis.
  3. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal hvorki beita nokkru formi líkamlegs eða andlegs ofbeldis né hafa í frammi nokkurs konar áreitni eða fjandsamlega háttsemi sem miðar að því að einangra, útskúfa eða lítillækka aðra.
  4. Hótanir, loforð um ávinning, þvingun og hverskyns kynferðisleg misnotkun, áreitni og misneyting eru sérstaklega bönnuð.
  5. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að lágmarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í a.m.k. tvö ár. Ef um er að ræða kynferðislega misneytingu eða misnotkun, ef brot telst alvarlegt eða um ítrekun er að ræða getur bann frá allri þátttöku í knattspyrnu numið a.m.k. 10 árum.
  6. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 og kann að hafa verið brotaþoli kynferðislegrar misnotkunar eða áreitni, er heimilt að áfrýja niðurstöðu siðanefndar KSÍ til 
    áfrýjunardómstóls KSÍ í samræmi við málsmeðferðarreglur dómstólsins. Viðkomandi skal fá afhentan úrskurð siðanefndar svo og öll skjöl sem aðilar máls hafa lagt fram við meðferð 
    málsins, auk uppritunar allra munnlegra skýrslna. Frestur til að áfrýja úrskurði siðanefndar KSÍ skal byrja að líða frá þeim degi sem aðilum er tilkynnt um hann.
  7. Knattspyrnusamband Íslands skal tafarlaust tilkynna FIFA um niðurstöður siðanefndar eða áfrýjunardómstóls KSÍ sem varða viðurlög vegna brota gagnvart grein þessari.

19. grein - Fölsun

  1. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er óheimilt að falsa skjal, breyta ófölsuðu skjali og nota falsað eða breytt skjal.
  2. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að lágmarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í a.m.k. tvö ár.

20. grein - Misnotkun á stöðu

  1. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki misnota stöðu sína á nokkurn hátt, sérstaklega ekki til þess að ná fram persónulegum markmiðum eða ávinningi.
  2. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að lágmarki kr. 250.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í a.m.k. tvö ár. Viðurlög skulu þyngri sé viðkomandi háttsettur innan knattspyrnuhreyfingarinnar og jafnframt með hliðsjón af þýðingu og fjárhæð móttekins ávinnings.

21. grein - Þátttaka í veðmálum, fjárhættuspilum eða álíka starfsemi

  1. Stjórnarmönnum, starfsfólki, leikmönnum og umboðsmönnum er óheimil bein eða óbein þátttaka í veðmálum, fjárhættuspilum, happdrætti og þess háttar háttsemi eða viðskiptum í tengslum við knattspyrnuleiki eða knattspyrnumót og/eða hliðstæða viðburði á Íslandi sem falla undir lögsögu KSÍ.
  2. Sá sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 skal ekki hafa beina eða óbeina fjárhagslega hagsmuni, þ.m.t. með eða í gegnum aðra, af veðmálum, fjárhættuspilum, happdrætti eða sambærilegri háttsemi eða viðskiptum sem tengjast knattspyrnuleikjum og knattspyrnumótum. Hagsmunir fela m.a. í sér hverskyns mögulegan ávinning fyrir þann sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 og/eða tengdan aðila.
  3. Feli brot gagnvart þessari grein ekki í sér brot gegn öðrum ákvæðum siðareglna þessara, hefur það í för með sér sekt að lágmarki kr. 500.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í allt að þrjú ár. Hver sú fjárhæð sem aflað hefur verið í bága við 1. eða 2. mgr. skal vera innifalin í sektarákvörðun.

22. grein - Mútur og spilling

  1. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er óheimilt að þiggja, gefa, bjóða, lofa, taka við, biðja um eða sækjast eftir persónulegum eða ótilhlýðilegum greiðslum eða 
    ávinningi í því skyni að koma á eða viðhalda viðskiptum eða öðrum óviðeigandi ávinningi gagnvart hverjum sem er, innan eða utan knattspyrnuhreyfingarinnar. Slík háttsemi er óheimil hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti, í gegnum aðra eða með öðrum. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er einkum óheimilt að þiggja, gefa, bjóða, lofa, taka við, biðja um eða sækjast eftir persónulegum eða ótilhlýðilegum greiðslum eða ávinningi fyrir að framkvæma eða láta hjá líða að framkvæma neitt það sem tengist starfssviði viðkomandi og fer í bága við starfsskyldur hans eða fellur innan þeirra.
  2. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er óheimil hverskyns starfsemi eða háttsemi sem gæti gefið til kynna eða vakið grunsemdir um brot gagnvart grein þessari.
  3. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að lágmarki kr. 500.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í a.m.k. fimm ár. Hver sú fjárhæð sem aflað hefur verið í bága við 1. eða 2. mgr. skal vera innifalin í sektarákvörðun. Viðurlög skulu þyngri sé viðkomandi háttsettur innan knattspyrnuhreyfingarinnar og jafnframt með hliðsjón af þýðingu og fjárhæð móttekins ávinnings.

23. grein - Misnotkun fjármuna

  1. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er óheimilt að ráðstafa öðruvísi en til er ætlast eða misnota fjármuni knattspyrnuhreyfingarinnar, hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti, í gegnum aðra eða með öðrum.
  2. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er óheimil hverskyns starfsemi eða háttsemi sem gæti gefið til kynna eða vakið grunsemdir um brot gagnvart grein þessari.
  3. Brot gagnvart grein þessari hefur í för með sér sekt að hámarki kr. 500.000 ásamt banni frá allri þátttöku í knattspyrnu í a.m.k. fimm ár. Hver sú fjárhæð sem aflað hefur verið í bága við 1. til 3. mgr. skal vera innifalin í sektarákvörðun. Viðurlög skulu þyngri sé viðkomandi háttsettur innan knattspyrnuhreyfingarinnar og jafnframt með hliðsjón af þýðingu og fjárhæð móttekins ávinnings.

24. grein - Hagræðing knattspyrnuleikja eða knattspyrnumóta

  1. Þeim sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 er óheimilt að taka þátt í hagræðingu knattspyrnuleikja og knattspyrnumóta og skal án tafar tilkynna Siðanefnd KSÍ ef einhver  nálgast hann í tengslum við starfsemi eða upplýsingar sem tengjast beint eða óbeint mögulegri hagræðingu knattspyrnuleiks eða knattspyrnumóts.
  2. Það fellur innan lögsögu aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að úrskurða um háttsemi tengda hagræðingu knattspyrnuleikja eða knattspyrnumóta, innan og utan knattspyrnuvalla.
  3. Siðanefnd KSÍ skal afhenda aga- og úrskurðarnefnd KSÍ allar upplýsingar sem hún hefur fengið sem gætu tengst háttsemi einhvers sem bundinn er af siðareglum þessum skv. grein 1.1 og sem gæti tengst broti á grein þessari. 

25. grein – Málskot til áfrýjunardómstóls KSÍ

  1. Heimilt er að skjóta úrskurðum siðanefndar KSÍ til áfrýjunardómstóls KSÍ.
  2. Frestur til að áfrýja máli til áfrýjunardómstóls KSÍ skal vera 3 dagar frá því að úrskurður siðanefndar KSÍ er kveðinn upp og skulu almennir frídagar ekki taldir með.
  3. Áfrýjun mála frestar réttaráhrifum úrskurðar siðanefndar KSÍ.

26. grein - Samþykkt og gildistaka

  1. Siðareglur þessar eru settar með stoð í 22. grein laga KSÍ. Þær voru samþykktar á fundi stjórnar KSÍ þann 28. febrúar 2025 og taka gildi þá þegar.