Viðbragðsáætlun KSÍ vegna meintra alvarlegra brota einstaklinga
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í apríl 2024 að stofnaður yrði starfshópur sérfróðra aðila utan KSÍ sem falið yrði það verkefni að endurskoða viðbragðsáætlun KSÍ vegna meintra alvarlegra brota einstaklinga. Starfshópurinn skilaði af sér tillögum í maí 2024 og stjórn KSÍ samþykkti tillögurnar í júní sama ár.
Hér að neðan má sjá orðalag viðbragðsáætlunar KSÍ (samþykkt af stjórn KSÍ 12. júní 2024):
Haft sé að leiðarljósi, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum og/eða í formlegri meðferð hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það gildir um leikmenn og starfslið landsliða Íslands. Stjórnendur skulu þó ávallt hafa svigrúm til að beita heilbrigðri skynsemi að teknu tilliti til atvika hvers máls þegar kemur að mati og ákvarðanatöku um val á leikmönnum eða starfsliði landsliða með hliðsjón af viðbragðsáætlun.
Nánar má lesa um verkefni starfshópsins, aðdraganda og tillögur í samantekt hér að neðan.
Viðbragðsáætlun getur ekki verið þannig orðuð að hún skyldi stjórnendur í öllum tilfellum til tiltekinna viðbragða. Mál geta verið ólík og fjölbreytt og er það nauðsynlegt að stjórnendur hafi svigrúm til að beita heilbrigðri skynsemi m.t.t. allra atvika. Í viðbragðsáætlun megi hins vegar vera almenn viðmið sem ná utan um flest mál sem upp koma og viðbrögð við þeim.
Setja þarf skýrari viðmið um það hvenær viðbragðsáætlun verður virk (upphafspunktur) og hvenær túlka megi svo að mál einstaklings sé ekki lengur til meðferðar (endapunktur).