Grasrót og samfélag - Veigamikil verkefni
KSÍ starfar að ýmsum grasrótarverkefnum og samfélagslegum verkefnum á ári hverju. Stærsta grasrótarverkefni síðasta árs var verkefnið Komdu í fótbolta með Mola og var þetta fimmta sumarið í röð sem Siguróli Kristjánsson, betur þekktur sem Moli, ferðaðist um landið og heimsótti minni sveitarfélög. Verkefnið stóð yfir frá maí til september. Á þessu tímabili heimsótti Moli 62 staði og hitti þar um 1700 börn.
Verkefnið Verndarar barna, samstarfsverkefni KSÍ og Barnaheilla – Save the Children, fór af stað í sitt annað og seinna ár haustið 2023. Verkefnið er samstarfsverkefni til tveggja ára þar sem markmiðið er að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, læra að þekkja einkenni ofbeldis og hvernig bregðast skal við. Sérfræðingur frá Barnaheillum heimsækir knattspyrnufélög um allt land og heldur námskeið í verndun barna, félögunum að kostnaðarlausu.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var ráðin í sumarstarf hjá KSÍ þar sem hún sá um verkefnið Fótbolti fyrir alla. Markmiðið með verkefninu var að efla starf fatlaðra innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Gunnhildur heimsótti 23 félagsmiðstöðvar og sumarnámskeið fyrir einstaklinga með sérþarfir og bauð upp á fótboltaæfingar. Í heimsóknum sínum hitti hún tæplega 300 börn og unglinga.
Fótboltafjör KSÍ, Special Olympics og HÍ var haldið í september. Var fótboltafjörið fyrir einstaklinga með sérþarfir og settu nemendur úr Íþróttafræðideild HÍ upp þrautir og leiki þar sem lögð var áhersla á að allir gætu tekið þátt.
KSÍ, Blindrafélagið og Samtök íþróttafréttamanna skrifuðu undir samstarfssamning vegna sjónlýsingar á A landsleikjum Íslands í fótbolta. Samningurinn felur í sér að félagsmenn Blindrafélagsins geta sótt um þjónustuna á öllum landsleikjum á Laugardalsvelli hjá A landsliðum karla og kvenna í fótbolta.
KSÍ og sprotafyrirtækið SoGreen gerðu samning til fimm ára þess efnis að KSÍ kaupi kolefniseiningar af SoGreen. Fyrsta verkefni SoGreen hófst í janúar 2023, í samstarfi við hjálparsamtökin FAWE í Sambíu, og felur í sér að tryggja um 200 stúlkum í Monze-héraði fulla fimm ára gagnfræðiskólamenntun. Kolefniseiningarnar myndast við þá forðun í losun gróðurhúsalofttegunda sem verður þegar stúlkum er tryggð menntun, en menntun er ein áhrifaríkasta leiðin til þess að fyrirbyggja barnahjónabönd og þungun táningsstúlkna sem knýja mikinn hraða fólksfjölgunar í fátækum samfélögum í framlínunni í baráttunni við loftslagsvána.
Grasrótarverkefni og samfélagsleg verkefni eru unnin þvert á nokkur svið og deildir á skrifstofu KSÍ – Fræðsludeild, knattspyrnusvið, markaðssvið og samskiptadeild. Hægt er að sækja um samstarf við KSÍ um samfélagsleg verkefni, sjá nánar hér.