Ekki harka af þér höfuðhögg

Höfuðhögg getur haft alvarlegar afleiðingar.  Um það eru mörg dæmi í knattspyrnu og fleiri íþróttum.  KSÍ og ÍSÍ hafa í samstarfi unnið fræðslumyndbönd tengd þessu mikilvæga viðfangsefni.  Annars vegar er um að ræða viðtalsmyndbönd þar sem Heiðrún Sara Guðmundsdóttir og Elfar Árni Aðalsteinsson deila reynslusögum, og hins vegar grafísk myndbönd með mikilvægum upplýsingum, m.a. um fyrstu viðbrögð.   


Hugarfar – Félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið

Hugarfar eru samtök einstaklinga með ákominn heilaskaða og aðstandenda þeirra.  Hugarfar er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands og Evrópusambandi fólks með heilaskaða. Einstaklingar sem eru að takast á við afleiðingar heilaáverka, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk geta gerst félagar í Hugarfari, sem stendur fyrir fræðslu- og stuðningsfundum fyrir félagsmenn.  Samtökin hafa unnið markvisst að vitundarvakningu í samfélaginu á þessari duldu fötlun með það að markmiði að bæta þjónustu, meðferð og greiningu einstaklinga sem hlotið hafa heilaskaða. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðu félagsins - Hugarfar.is - og hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið hugarfar@hugarfar.is.

Samkvæmt Hugarfari hljóta í dag einungis um 10-20% þeirra sem verða fyrir alvarlegu höfuðhöggi sérhæfða meðferð, en eftir standi um 80-90% án greiningar, meðferðar og eftirfylgni. Því skiptir sköpum að einstaklingar sem hljóta ákominn heilaskaða og aðstandendur þeirra fylgi því fast eftir að viðkomandi fái rétta greiningu og meðferð.  Hugarfar mælist til þess að einstaklingar sem verða fyrir höfuðhöggi í íþróttum leiti strax til bráðamóttöku. Ef um innlögn á sjúkrahús er að ræða í kjölfar höfuðhöggs þá fer meðferð og endurhæfing fram á Grensásdeild Landspítalans og Reykjalundi.

Gera má ráð fyrir því að um 1500 manns leiti aðhlynningar á slysadeild vegna höfuðáverka á hverju ári og helmingur þeirra er undir 19 ára aldri, samkvæmt upplýsingum frá Hugarfari. Höfuðhögg í íþróttum getur haft alvarlegar afleiðingar - allt frá heilahristingi til heilaskaða. Heilaskaði getur orðið þegar mikið eða snöggt högg kemur á höfuð einstaklings og viðkomandi verður jafnvel fyrir höfuðkúpubroti sem svo í kjölfarið leiðir til blæðinga eða annars konar áverka á heila með tilheyrandi heilaskaða. Heilaskaði getur gjörbreytt lífi einstaklings og haft víðtæk og truflandi áhrif á m.a einbeitingu, minni, mál, persónuleika, tilfinningar, hegðun, hæfni til samskipta, innsæi og framtakssemi. Önnur möguleg einkenni í kjölfar heilaskaða geta verið flog, höfuðverkur, svimi, kraftskerðing, truflun á skyni og á samhæfingu vöðva. Geðslag einstaklingsins, persónuleiki og aðrir hugrænir þættir geta einnig orðið fyrir miklum áhrifum. Einkenni heilaskaða eru oft dulin.

Head injury:  "Don´t tough it out"

The Football Association of Iceland (KSÍ) launched an awareness campaign in early 2019, highlighting blows to the head and the possible consequences of such injuries.  Each month, a video is published across the KSÍ´s social media platforms (@footballiceland). The key message to players is to not "tough it out".  The after-effects are not always immediate and can affect people for a long time. We have added English subtitles to the two interview videos.