Þorlákur Már Árnason, þjálfari U17 landsliðs karla, hefur tilkynnt byrjunarlið Íslands fyrir lokaleik liðsins í milliriðili EM, sem fram fer í dag, mánudag, og hefst kl. 15:00 að íslenskum tíma. Mótherji dagsins er Portúgal, en milliriðillinn er einmitt leikinn þar í landi. Heimamenn hafa þegar tryggt sér sigur í riðlinum og þar með sæti í úrslitakeppni EM með 3-0 sigrum í sínum tveimur leikjum hingað til.
Báðir leikirnir í riðlinum fara fram á sama tíma, eins og venjan er í lokaumferð. Portúgal og Ísland mætast á Municipal Sergio Conceicao í Coimbra, og á sama tíma leika Úkraína og Lettland á Municipal Stadium Carlos Duarte í Pampilhosa.