Víkingur áfram - Valur og KA úr leik
Víkingur R. er eina liðið af þremur íslenskum liðum sem komst áfram í næstu umferð Sambandsdeildar UEFA.
Öll þrjú íslensku liðin léku á heimavelli á fimmtudagskvöld og öll áttu þau hörkuleiki. Valsmenn töpuðu 1-2 gegn Zalgiris að Hlíðarenda og þar með samanlagt 2-3, þrátt fyrir að hafa sótt hart að gestunum. KA-menn sýndu flotta frammistöðu fyrir framan sína stuðningsmenn og biðu lægri hlut 2-3 gegn Silkeborg eftir framlengdan leik og þar með samanlagt 3-4.
Víkingar fóru einnig í framlengingu gegn Vllaznia. Fyrri leikurinn ytra tapaðist 1-2 og eftir venjulegan leiktíma í Víkinni var staðan 3-2 Víkingum í vil og því framlengt. Þar reyndust heimamenn sterkari, eins og þeir reyndar voru allan leikinn, skoruðu eina markið og sigldu sigrinum heim. Víkingur mætir danska liðinu Bröndby í næstu umferð en fyrri leikurinn fer fram á Víkingsvelli næstkomandi fimmtudag.