• fös. 05. sep. 2025
  • Landslið
  • A karla

Glæsilegur sigur Íslands

Ísland vann glæsilegan 5-0 sigur á Aserbaísjan í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM 2026.

Ísland var mun sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu, stjórnaði leiknum algjörlega og Aserbaísjan áttu erfitt með að komast út af sínum eigin vallarhelmingi. Það var hins vegar ekki fyrr en í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem fyrsta markið leit dagsins ljós. Það skoraði Guðlaugur Victor Pálsson með frábærum skalla eftir hornspyrnu. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Það var strax á annarri mínútu seinni hálfleiks sem annað mark leiksins var skorað. Þar var að verki Ísak Bergmann Jóhannesson. Hann skoraði svo aftur níu mínútum síðar og staðan orðin 3-0. Algjörir yfirburðir íslenska liðsins. Albert Guðmundsson bætti við fjórða marki leiksins tíu mínútum síðar og Kristian Nökkvi Hlynsson nokkrum mínútum síðar. Staðan orðin 5-0 fyrir Ísland. Frábær frammistaða Íslands. 

Ísland mætir næsta Frakklandi á þriðjudag á Parc des Princes í París.