• fim. 16. okt. 2025
  • Mótamál

Tímamótasamningur framlengdur

Íslenskur Toppfótbolti (ÍTF) og Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafa framlengt tvo samtengda samninga við Genius Sports (GS), eitt fremsta tækni og fjölmiðlunarfyrirtæki heims á sviði streymis- og gagnaréttar. Með þessum samningi tryggir Genius Sports einkarétt á streymis- og gagnarétt í tengslum við íslenska knattspyrnu (deilda- og bikarkeppnir).

Samningurinn gildir út 2030 keppnistímabilið og um er að ræða umtalsverða hækkun frá fyrri samningi. Genius Sports kaupir rétt til dreifingar á myndmerki frá öllum leikjum efstu deilda Íslandsmóts og Bikarkeppni meistaraflokka karla og kvenna, á annað þúsund leikja á ári, og mun fyrirtækið einnig annast gagnaöflun á leikjum og veitir aðgang að gögnum til að standa undir margvíslegri vöruþróun, m.a. vegna svokallaðs Draumaliðsleiks (e. „Fantasy football"). ÍTF og KSÍ tryggja framleiðslu allra myndmerkja í samstarfi við SÝN, RÚV, OZ og Spiideo.

Auk þess mun Genius Sports veita áfram þjónustu við eftirlit (e. "Integrity“) þar sem allir leikir eru vaktaðir með tilliti til óeðlilegra veðmála og leggur til þjónustu að verðmæti rúmlega 10 milljónir króna árlega í því skyni. Þá hafa ÍTF og KSÍ vakið sérstaka athygli á hættum sem felast í þátttöku í veðmálum almennt og knattspyrnu sérstaklega og beitt sér fyrir fræðslu fyrir forystumenn félaga og leikmenn í efstu deildum.

Genius Sports er gríðaröflugt tækni- og fjölmiðlunarfyrirtæki sem hefur sérhæft sig í gagna- og streymisréttindum í íþróttum og er eitt hið stærsta í heimi á sínu sviði. GS er samstarfsaðili hundruða rétthafa um heim allan og eru þar í hópi m.a. Premier League, Serie A, European Leagues, Ligue 1, Brasileiro Série A, AFA, Liga MX og fleiri.

Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF:

„Með undirritun þessa samnings, sem er afrakstur rúmlega árs vinnu, tryggjum við íslenskum fótbolta öruggan, verulegan og fyrirséðan tekjustraum til næstu ára. Samstarfið við Genius Sports hefur verið farsælt og opnar einnig á fjölmarga möguleika til samstarfs í stafrænni þróun. Við erum þar í góðum félagsskap með ensku og ítölsku úrvalsdeildunum, FIBA og NFL."

Craig Rae, Global Head of Sports Rights hjá Genius Sports:

„Við erum ánægð með að framlengja samstarfið við ÍTF og KSÍ og hjálpa til við að auka útbreiðslu, umfang og ímynd íslensks fótbolta. Tækni okkar og alþjóðleg dreifikerfi munu tengja íslenskan fótbolta við aðdáendur um allan heim, á sama tíma og þau styrkja framúrskarandi efnisveitu okkar fyrir stærstu veðbanka heims.“

Stefán Sveinn Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ:

„Undanfarin ár hafa verið lærdómsrík fyrir íslenskan fótbolta og markmiðið næstu árin er að auka streymi þannig að fleiri leikir verði sýndir en áður. Við höfum í sameiningu fjárfest verulega í eftirliti með heilindum og tæknilegri þróun, sem undirstrikar skuldbindingu okkar við gegnsæi og nýsköpun. Fótboltaumhverfið á Íslandi mun njóta góðs af þessu frábæra samstarfi við Genius Sports, bæði að sjálfsögðu í formi tekna en einnig með því að fá betri gögn og bjóða knattspyrnuáhugafólki og viðskiptavinum okkar meiri stafræna innsýn.“

Á mynd efst á síðu - frá vinstri:  Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ, Steve Burton frá Genius Sports, Heimir Fannar Gunnlaugsson formaður ÍTF.

Frá vinstri:  Jonny Katanchian frá Genius Sports, Birgir Jóhannsson framkvæmdastjóri ÍTF, Stefán Sveinn Gunnarsson markaðsstjóri KSÍ, Craig Rea frá Genius Sports.

Frá vinstri: Craig Rea (Genius), Steven Burton (Genius), Þorvaldur Örlygsson (KSÍ), Heimir Fannar Gunnlaugsson (ÍTF), Birgir Jóhannsson (ÍTF), Stefán Gunnarsson (KSÍ), Jonny Katanchian (Genius).